28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4259 í B-deild Alþingistíðinda. (3637)

190. mál, orka fallvatna og nýting hennar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Sjónarmið hv. 2. þm. Norðurl. v., sem hér var að ljúka máli sínu, koma vissulega ekki á óvart í sambandi við þetta mál. Það eru þau sjónarmið sem komið hafa í veg fyrir að tekið væri með eðlilegum hætti út frá þjóðarhagsmunum á eignarrétti varðandi náttúruauðlindir, sem eðlilegt er að séu sameign þjóðarinnar jafnframt því sem gætt sé réttar einstaklinga til að nýta landið og landsins gæði og bæta fyrir þar sem spilling verður eða hindrun á þeirri nýtingu. Það segir nokkra sögu hversu langt er seilst í rökstuðningi fyrir þessum sjónarmiðum þegar hv. þm. vitnar í grg. sinni fyrir minnihlutaáliti, sem prentað er með þessu frv., alla leið til Gamla testamentisins, 5. Mósebókar, 5. kafla, sem raunar er um boðorðin. Og þar sem hann leggur áherslu á í því efni, því að hann rakti það ekki í ræðu sinni áðan, heldur nefndi bara viðkomandi vers, 19. og 21. vers, — þar sem hann taldi að væri „sama hugsun lögð til grundvallar siðsamlegri breytni eins og býr að baki 67. gr. stjórnarskrárinnar“, þá tel ég rétt að það liggi fyrir hvaða vers þetta eru, hvaða boðorð það eru sem hv. þm. telur að styðji sinn málstað sérstaklega. Það er 19. vers, þú skalt ekki stela, og 21. vers, og þú skalt ekki girnast konu náunga þíns og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna né nokkuð það sem náungi þinn á.

Þetta var tilvitnun í helga bók, sem gripið hefur verið til öðru hvoru hér á Alþingi undanfarna daga, og ég taldi nauðsynlegt að haldið yrði til haga þeim sjónarmiðum og rökstuðningi sem hv. 2. þm. Norðurl. v. telur að sækja megi til hennar varðandi þau þröngu sjónarmið og hagsmuni sem hann er hér að verja. Hann er ekki einn um þetta, því miður, því að talsmenn þessara sjónarmiða er að finna í báðum núverandi og enn stærstu flokkum þingsins, Sjálfstfl. og Framsfl., sem hafa komið í veg fyrir að löggjafinn tæki með eðlilegum hætti á þessum málum, og það þrátt fyrir að innan beggja þessara flokka og raunar í forustu þeirra hafa verið ríkjandi og kunn um langt skeið þau viðhorf sem lagt er til með frv. þessu að lögfest verði. Nægir þar að minna á viðhorf formanna þessara flokka á sinni tíð, Bjarna heitins Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar núv. hv. 9. þm. Reykv.

Hv. þm. Páll Pétursson taldi að með tillögum frv., sem hér er flutt og efnt var til í framhaldi af ákvæði stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar þess efnis að virkjunarréttur fallvatna skyldi lýstur þjóðareign, væri ekki farið eftir þessu ákvæði. Ég mótmæli þessari staðhæfingu af hálfu þm. og ég tel að í tilvitnun, sem er að finna á bls. 6 í greinargerð með þessu frv., í viðhorf Ólafs Jóhannessonar prófessors í stjórnskipunarrétti, sem fylgdi frv. til l. sem hann átti hlut að með rökstuðningi um eignar- og notkunarrétt jarðhita og lagt var fyrir Alþingi á árinu 1956, komi hans viðhorf fram til þessa máls. Það segir í þeim rökstuðningi Ólafs Jóhannessonar prófessors, með leyfi forseta: „Því verður ekki neitað, að það er sanngjörn regla og í samræmi við eðli máls, að sérstök náttúruauðæfi, sem enginn einstakur hefur átt þátt í að skapa, séu sameign þjóðarinnar allrar.“

Rennandi vatn hefur enginn einstaklingur átt þátt í að skapa. Það eru þau viðhorf sem liggja að baki því frv., sem ég hef hér mælt fyrir, um að orka fallvatna verði lýst þjóðareign.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessa umr., en vænti þess að frv. fái góða athugun í þeirri nefnd sem ég hef lagt til að því verði vísað til.