01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

33. mál, könnun á kostnaði við einsetningu skóla

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, hv. 11. þm. Reykv., og eins og ég sagði áðan þá tíundaði ég að sjálfsögðu ekki nema hluta af því sem hefur komið fram í umræðum innan vinnuhópsins en þessi atriði, sem hún minntist á, hafa öll verið á dagskrá hjá hópnum sem atriði sem skipta miklu máli. Það mætti þá í leiðinni jafnframt upplýsa það varðandi slysahættu meðal skólabarna — sem ég er henni alveg sammála um — að samfelldur skóladagur gæti þar verið að hluta til góð lausn. Þá hefur einnig verið rætt um svokallaða grenndarskóla fyrir yngstu börnin. Það voru allir innan hópsins sammála um að slíkir grenndarskólar — í nágrenni heimila yngstu aldurshópanna — gætu einmitt verið góð lausn á þeim málum, þ.e. að börnin þyrftu ekki að fara langt frá heimili sínu einmitt með tilliti til slysahættunnar.