28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4266 í B-deild Alþingistíðinda. (3646)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Út af fyrir sig er svar hæstv. viðskrh. alveg skýrt að það eru engir pólitískir baksamningar um hliðstæðar ívilnanir fyrir samvinnufélögin eins og hér er gert ráð fyrir fyrir hlutafélögin. Auðvitað er það rétt hjá ráðh. að skattamál heyra undir fjmrn. en ekki undir viðskrn. En allt að einu heyra samvinnufélögin undir viðskrn. Mér sýnist þetta benda til þess að Framsfl. hafi vanrækt að tryggja hagsmuni samvinnuhreyfingarinnar í þeim samningum. (PP: Við stöndum ekki í neinum hrossakaupum.) Þeir hafi vanrækt það að tryggja hagsmuni samvinnuhreyfingarinnar í sambandi við meðferð þessara mála, eins og mig reyndar grunaði og ég benti á á mánudagskvöldið. Kemur mér það í sjálfu sér ekki neitt á óvart eftir það sem á undan er gengið með þann flokk núna síðustu mánuðina.