29.03.1984
Neðri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3648)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Við upphaf þessarar umr. flutti hæstv. fjmrh. till. að ákvæði til bráðabirgða við það mál sem hér er til umr. þar sem lagt er til að við álagningu tekjuskatts á árunum 1984 og 1985 vegna tekna áranna 1983 og 1984 verði skattskyldum aðilum heimilt að leggja tillög í varasjóð í stað þess að leggja tillög í fjárfestingarsjóð skv. 11. tölul. 31. gr. frv. Hámark varasjóðstillags skv. þessu verður eins og í gildandi lögum 25% af þeirri fjárhæð sem eftir stendur þegar frá tekjum hefur verið dregið skv. II. kafla.

Þau rök liggja fyrir þessu að ýmis fyrirtæki hafa, vegna þess dráttar sem orðið hefur á afgreiðslu málsins, gert upp eftir hinni gömlu aðferð. Önnur fyrirtæki hafa gert upp sína reikninga eftir þeirri aðferð sem að hefur verið stefnt að lögfesta með þessu nýja frv. Þegar svo er komið þótti ekki óeðlilegt að láta á það reyna á næstu tveimur árum hvernig fyrirtækin mundu bregðast við þessari nýbreytni, þ. e. að þau gætu valið á milli þessara tveggja aðferða á næstu tveimur árum. Þannig mundi reynslan skera úr hvort eðlilegt væri að hafa þessa skipan til frambúðar eða ákveða að fjárfestingarsjóðurinn yrði eini möguleikinn að þessum umþóttunartíma liðnum.

Þess var óskað við umr. hér í gær af hv. 3. þm. Reykv. að málið yrði á ný tekið til umr. í fjh.- og viðskn. vegna þessarar nýju till. frá hæstv. fjmrh. Það var gert. Nefndin hélt fund í morgun og ræddi tillöguna. Allir viðstaddir nm. töldu að þessi breyting væri til bóta, en afstaða þeirra til frv. er að öðru leyti óbreytt. Að þessu áliti n. standa Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Halldór Blöndal, Þorsteinn Pálsson, Kjartan Jóhannsson og Guðmundur Einarsson en hv. þm. Svavar Gestsson var ekki viðstaddur meðferð málsins í n. í morgun. Það er till. meiri hl. n. skv. þessu að þetta ákvæði til bráðabirgða sé til bóta og verði samþykkt.