01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

33. mál, könnun á kostnaði við einsetningu skóla

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir þeirra hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Gaman hefði nú verið að einhver fulltrúi feðra landsins hefði séð ástæðu til þess að taka til máls, en það gerist sjaldnast, þó að ekki sé vitað til að konur eignist fleiri börn en karlmenn.

En ég vil þakka hv. þm. Salome Þorkelsdóttur fyrir þær greinargóðu upplýsingar sem við fengum um störf umræddrar nefndar. Sú nefnd fékk það hlutverk að kanna tengsl fjölskyldu og skóla og það er auðvitað hárrétt hjá þm. að auðvitað koma öll þessi mál, sem þáltill. sem hér var talað fyrir gerir ráð fyrir, mjög þar við sögu. En ég vil hins vegar leggja á það áherslu að eitt er auðvitað störf nefndar, sem sérstaklega er til þess skipuð að kanna þessi mál, annað er viljayfirlýsing hins háa Alþingis um að gert verði verulegt raunhæft átak í þessum málum. Og þess vegna hlýtur að vera allur reginmunur á því hvert afl er á bak við samþykkta þáltill. eða niðurstöðu nefndar.

Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur - þau tvö atriði sem hún minntist á. Hið fyrra minntist ég reyndar á í minni framsöguræðu, sem sé umtalsverð slysahætta af því að börn eru að ferðast milli skóla og heimilis seint á daginn í misjöfnu veðri í svartasta skammdeginu. Hitt atriðið er auðvitað meginmál og það sem þessi till. fyrst og fremst gerir ráð fyrir. Það er sú hugsjón að fjölskyldan öll geti farið til vinnu sinnar hvort sem sú vinna er í skólum eða á öðrum vinnustöðum og hist að loknum eðlilegum vinnudegi til þess að eiga saman fjölskyldulíf og tómstundir sem ég hygg að vefjist ærið mikið fyrir íslenskum fjölskyldum í dag. Og þegar við tölum um þessi mál þá held ég að við hljótum öll að geta séð samhengið í þessu ástandi, í bæði allt of löngum vinnutíma, þar með litlum frístundum, sundurslitnum skólatíma og þar með allt of htlum samvistum barna við foreldra sína og þeim erfiðleikum sem við erum öll meira og minna að sjá í þjóðfélaginu og hér var minnst á fyrr í dag í stjórnmálayfirlýsingu Kvennalistans, en það er hinn mikli fíkniefnavandi sem nú blasir við og alveg er óraunhæft að loka augunum fyrir. Og ég held að það hljóti að vera nátengt hvernig við búum í haginn fyrir börnin strax frá byrjun og hvernig fer síðan fyrir þeim þegar kemur fram á erfiðari ár.

Ég vil þess vegna leggja mikla áherslu á aðbúð barnanna og treysti þar á stuðning m.a. hv. þm. Salome Þorkelsdóttur sem ég veit að er í meginatriðum alveg sammála um þau mál sem hér hafa verið rædd. Ég vænti þess að við eigum vísan stuðning hennar og hennar flokks og ég skora á Alþingi allt að vinna að því að þessi þáltill. nái fram að ganga. Ég tel að hún hljóti að vera stuðningur við þá nefnd sem er að vinna að svipuðum hlutum og þar styrki hvort annað.