29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4269 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

Tilkynning um störf þingnefnda

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Vakin er athygli þm. á því að gerð hefur verið skrá um stöðu mála hér á þinginu 27. þ. m. Það kemur í ljós skv. þessari skrá að óvenjumikið mun vera óafgreitt af málum eftir að komið er svo langt fram á þing sem nú er raun á. Það er vakin athygli á þessu. Það má líka koma hér fram að 24. febr. kvöddu forsetar þingsins formenn allra nefnda á sinn fund til þess að ræða afgreiðslu mála í nefndum. Þá var lögð áhersla á það við formenn nefnda að ekki yrði óeðlilegur dráttur á afgreiðslu þeirra mála sem nefndir hygðust afgreiða.

Það skulu ekki fleiri orð höfð um þetta en tekið er fram að í Sþ. standa þessi mál sérlega illa. Komið hafa nú fram 69 þáltill. á þinginu. Er búið að afgreiða úr nefnd 8 þáltill. og þær hafa líka fengið fullnaðarafgreiðslu frá þinginu. Í tveim nefndum, allshn. og atvmn., eru yfir 40 mál óafgreidd.

Ég vænti þess að við hjálpumst öll að því að fram geti farið eðlileg afgreiðsla — ég endurtek — á þeim málum sem nefndir ætla sér að afgreiða svo að það hrúgist ekki á síðustu daga þingsins að fá mál úr nefnd. Þessi skýrsla verður afhent formönnum þingflokkanna í dag.