29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4272 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

184. mál, friðarfræðsla

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hvað er það sem okkur greinir svo mjög á um vegna þessarar till. um friðarfræðslu í skólum, mig og ýmsa aðra þm. og hv. frsm. og flm., 3. landsk. þm.? Er það það að hún vilji frið og ég vilji stríð? Er það það að hún sé talsmaður friðsamlegra samskipta og við sem erum gagnrýnir á þetta séum hinir mestu stríðsseggir? Stundum þegar ég hlusta á málflutning flm. virðist mér votta fyrir slíkum skoðunum.

Nú vildi ég árétta að það sem okkur greinir á um er ekki lýsing á ófriðvænlegu ástandi í heiminum. Okkur greinir ekkert á um það þegar þessi heimsmynd er dregin upp. Við getum út af fyrir sig bæði varið löngu máli í að lýsa því hversu mjög við hörmum vígbúnaðarkapphlaup, hversu mjög við hörmum hversu miklum verðmætum er varið til vígbúnaðarkapphlaups, vopnaframleiðslu, að halda uppi herjum o. s. frv. Við getum tíundað skoðanir okkar á sólundun verðmæta. Við getum út af fyrir sig verið innilega sammála um hið sjúka efnahagslíf heimsins. Þetta getum við tíundað í löngu máli.

Svo kemur hins vegar spurningin: Þegar við förum að greina þetta ástand, þegar við förum að rannsaka það, þegar við förum að spyrja okkur spurninga um hvað veldur, hverjar eru orsakirnar, og þegar við í framhaldi af því förum að spyrja sjálf okkur: Hverjar eru lausnirnar, í hverju eru þær fólgnar, kann heldur betur að vera að okkur greini á.

Mér hefur stundum satt að segja ofboðið það sem ég kalla hina einföldu heimsmynd og þá einföldun lífsskoðunar sem mér virðist koma fram í máli flm. Ég nefndi sem dæmi: Hv. flm. hefur farið nokkrum orðum um það að kona sé kynferðis síns vegna nær lífinu og ýjað að því að aukin þátttaka kvenna í stjórnmálum sé framlag til friðar vegna þess að konur séu í eðli sínu friðsamari en karlar. Og rekur það til þess að uppeldi karla sé að því leyti slæmt að með þeim sé alin upp árásargirni, ofbeldistilhneigingar o. s. frv. Mér finnst þetta ákaflega einfeldnisleg skoðun og mér finnst satt að segja að það jaðri við kynrembu í svana viðhorfum.

Ég nefni nafn þeirrar hræðilegu herfu Lady Macbeth. Mér koma upp í hugann þær konur sem kvaddar hafa verið til að fara með æðstu völd í einstökum ríkjum. Mér kemur í hug eiginkona félaga Maós og framlag hennar til „friðsamlegrar“ lausnar pólitískum vandamálum í Kína. Mér kemur í hug sú stórbrotna manneskja Indíra Gandhi, hafandi lesið bréf föður hennar til hennar úr fangelsinu. Mér er ekki til efs að Indíra Gandhi tekur föður sínum langt fram að því leyti að hún er mun herskárri í öllum sínum viðhorfum, lét það verða sitt fyrsta verk í ríkisstjórn að afnema mannréttindi á Indlandi og beita valdi líklega með stórtækari hætti en gerst hefur í Indlandi eftir að Indverjar fengu sjálfstæði. Mér kemur í hug frú Bandaranaike á Ceylon, sem varla hafði fyrr tekið við völdum en þar braust út borgarastyrjöld þar sem hún lét síst sitt eftir liggja í því að beita hervaldi. Mér kemur í hug Golda Meir. Þegar hinn hrjáði Ísraelslýður mátti heyja enn eina styrjöld fyrir lífi sínu leitaði hann til konu til þess að leiða sig í því stríði. Það rifjast upp fyrir mér þau ummæli Friðriks mikla, sem oft komst í krappan dans, að aldrei hefði hann komist í hann krappari en þegar hann átti í styrjöld við „pilsin þrjú“ sem réðu fyrir ríkjum í Evrópu á hans tíð. Ég gæti jafnvel nefnt járnfrúna sjálfa, Margaret Thatcher, sem vafalaust er að lífsskoðun einhver herskáasti stjórnmálamaður sem uppi hefur verið í Bretlandi síðan Churchill leið. Og hikar ekki við, sem margur karlmaðurinn hefði nú gert, að efna til styrjaldar fremur en að una því að Bretar yrðu sviptir Malvínaseyjum með valdi.

Ég held m. ö. o. að það sé um ákaflega mikla einföldun að ræða þegar menn ætla að beita kyngreiningu, jafnvel þó það sé með öfugum formerkjum, í friðarrannsóknum.

Hv. flm. er femínisti, skilst mér, að lífsskoðun. Það er lífsskoðun sem er jafnrétthá og hver önnur og ég hef ekkert við að athuga. Ég hef stundum verið gagnrýndur fyrir að árétta það í þessum ræðustól að ég er sósíaldemókrati að pólitískri sannfæringu. Einn hv. þm. hefur fundið að því að ég hefði ekki íslenskt orð yfir þetta. Sjálfur er hann kominn úr flokki sem hét einu sinni Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn, en látum það nú vera. — Þetta er kallað á íslensku að vera lýðræðissinnaður jafnaðarmaður. Hvert er inntak þeirrar stjórnmálaskoðunar? Inntak hennar er að hafna valdbeitingu eða ofbeldi í stjórnmálastarfi, að boða það sem kjarna hugmyndafræðinnar og vinnubragðanna að leysa eigi pólitískan ágreining eftir lýðræðislegum leiðum. Það hefur stundum verið orðað þannig, að fremur en að trúa á einhverja fyrir fram gefna niðurstöðu eða formúlu í stjórnmálastarfi einkenni það sósíaldemókrata að aðferð þeirra í pólitísku starfi er friðsamleg og lýðræðisleg, hin óhjákvæmilega en hægfara leið félagslegra umbóta.

Ég kann ekki að nefna eitt einasta dæmi þess úr sögunni að sósíaldemókratar hafi tekið völd í nokkru ríki með valdi. Ég þekki aðeins eitt dæmi þess í sögunni að sósíaldemókratísk ríkisstjórn hafi orðið að beita valdi til þess að berja niður uppreisnartilraun sem gerð var. Ég hygg að það sé nærri því einsdæmi um nokkra stjórnmálahreyfingu sem í eðli sínu er alþjóðleg, það er ekkert launungarmál, það er til Alþjóðasamband jafnaðarmanna, að um hana megi fullyrða að hún hafi ekki aðeins í orði heldur verki hafnað ofbeldi í pólitísku starfi. Samt sem áður er það svo, að sósíaídemókratar eru ekki endilega „friðarsinnar“ í þeirri merkingu að þeir neiti að bera vopn eða að þeir neiti því skilyrðislaust að þær aðstæður kunni að vera uppi í hinum ýmsu löndum, þar sem menn standa frammi fyrir nöktu og miskunnarlausu ofbeldi, þar sem menn eru ekki látnir njóta mannréttinda, þar sem enginn kostur gefst á því að lýsa skoðunum sínum, mynda samtök eða reyna að hafa áhrif í átt til þjóðfélagslegra umbóta með friðsamlegu starfi, þar sem menn standa frammi fyrir því að valdbeitingin er slík að annaðhvort er að beygja sig fyrir henni eða rísa upp gegn henni.

Í fyrri ræðu minni um þetta mál nefndi ég það, þegar menn renna augum yfir heimsbyggðina, að sú öld sem við tifum á er að mínu mati mesta ofbeldisöld sem yfir mannkynið hefur dunið. Ég nefndi nokkur dæmi. Ég nefndi nokkur lönd. Ég nefndi ríki eins og El Salvador, ég nefndi Suður-Afríku, ég nefndi Afganistan, ég nefndi hið sovéska nýlenduveldi. Og ég spyr: Erum við, sem búum í pólitískum friði í ríki þar sem mannréttindi eru virt, í aðstöðu til að segja við þetta fólk: Það er rangt í öllum tilvikum, fordæmanlegt, af ykkur að rísa upp gegn þessu valdi með því að beita valdi? Mér finnst þetta sjónarmið hins sannfærða friðarsinna líka bera vott um hroka. Ég held að við höfum ekki efni á því. Ég held að kannske stafi þetta af því að okkar kynslóð og fólk í okkar heimshluta lifir að vissu leyti, ef við berum það saman við aðra heimshluta, í vernduðu umhverfi og gerir sér hreinlega ekki grein fyrir því hversu blóðugur og ofbeldiskenndur sá heimur er sem við lifum í. Og að það eru engar einfaldar lausnir til. Og síst af öllu höfum við nokkur efni á því að segja við hinn niðurlægða og ofsótta svarta þegn Suður-Afríku: Að vísu er andóf þitt vonlaust, að vísu ert þú ekki maður í mannlegu samfélagi, að vísu skaltu sætta þig við þetta, að vísu skalt þú aðeins beita þeim úrræðum sem eru friðsamleg, jafnvel þótt þau gefi þér enga von um breytingar.

Það kom fram í þessum umr., ég held að það hafi verið í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, að þegar hann sat á þingi Sameinuðu þjóðanna hefðu verið bornar fram í fyrstu nefnd þingsins 79 tillögur um frið. Við erum sjálf að ræða um ályktun þar sem vísað er til samþykktar á vegum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1974. Hvernig er nú ástandið hjá meiri hluta þeirra þjóða sem mynda hinar Sameinuðu þjóðir? Hversu friðsamlegt er þar, hversu lýðræðislegt er þar? Þar sitja á þingi fulltrúar ríkisstjórna sem því miður hafa í vel flestum tilvikum tekið völd í viðkomandi löndum með hervaldi, sem margar hverjar standa í styrjöldum við nágrannaþjóðir og sem ótrúlega margar standa í styrjöldum við þegna sína og beita þá hervaldi og kúgun.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði: Er þetta ekki dæmi um að andinn er að sönnu reiðubúinn, við flytjum tillögur um frið, en holdið er veikt? Það má orða það svo. Það má líka segja: Það er yfirgengileg hræsni þegar fulltrúar ríkisstjórna sem eru komnar til valda vegna valdbeitingar, sem beita þegna sína hrikalegu og blóðugu valdi, koma síðan á alþjóðasamkundur og flytja tillögur um frið og mannkærleika.

Vorum við í stöðu til þess að segja við hina hrjáðu þjóð Ísraels í Evrópu: Þið áttuð að sætta ykkur við ofbeldi nasismans. Ég hefði ekki treyst mér til þess, hvorki þá né nú, þegar minjar þeirra eru svo sem eins og tvö fet af ösku víðs vegar um álfuna sem minnismerki um siðferðilegt gjaldþrot og grimmd einhverrar menntuðustu þjóðar Evrópu.

Ég hygg að það sé enginn ágreiningur milli mín og þeirra sem þessa till. flytja um að við lifum í ófriðvænlegum heimi. Það getur hins vegar vel verið að það komi fram verulegur ágreiningur þegar við förum að ræða í smáatriðum hvaða hugmyndir við gerum okkur um hvernig megi leysa þessi vandamál. Og ég vil taka skýrt fram að það er ekkert nýtt í þessum efnum. Friðarstefna í merkingunni að neita að bera vopn, að hafna öðrum lausnum í pólitískum ágreiningsefnum en þeim sem fela í sér vopnleysi, er ekkert ný. Það hefur verið boðað á öllum tímum. En ef við spyrjum einfaldra spurninga, eins og t. d.: Hvaða hugmyndir gera menn sér um orsakir misskiptingar auðs og örbirgðar í þjóðfélögum, við þurfum ekki að spyrja nema þessarar einu spurningar, þá erum við komin að einhverjum stórpólitískustu ágreiningsefnum sem uppi eru, ekki aðeins með okkar samtíð heldur á undanförnum árum, áratugum og öldum.

Um hvað standa stjórnmálaátök í hinum vanþróaða heimi? Að sjálfsögðu milli hugmyndakerfa, milli ólíkra þjóðfélagsskoðana. Til eru þeir menn sem hafa þá trú að hið sovéska þróunarlíkan henti best vanþróuðum þjóðum, það muni gefa skjótastan árangur til að binda endi á örbirgð og koma þessum þjóðum eitthvað áleiðis til iðnþróunar, til bjargálna. Aðrir hafna þessum kenningum alveg skilyrðislaust og segja: Þessi leið hefur verið reynd og hún hefur hvergi skilað nemum árangri. Hún er sannarlega ekki til fyrirmyndar. Fyrir nú utan það að hún þýðir fyrst og fremst að menn eru að segja: Í hinum vanþróaða heimi, þar sem vandamálin eru svo hrikaleg, dugar ekkert annað en ofbeldiskerfi. Aðdráttarafl hins sovéska kerfis er fyrst og fremst það að það gefur valdhöfum kost á að beita hrikalegu valdi til að leysa þjóðfélagsleg ágreiningsmál. — Aðrir mundu segja: Það er grundvallaratriði að fara þá leið að leysa þessi mál eftir leiðum markaðarins. Síðan nefna menn hver um sig sín dæmi. Menn segja: Hvar hafa efnahagslegar framfarir orðið mestar? Var það í Japan, er það í Kóreu, er það á Taiwan, er það í Hong Kong eða hvað er að segja um árangurinn í Austur-Evrópu og árangurinn í Suður-Ameríku, við skulum segja á Kúbu? Þetta eru allt saman stórpólitískar spurningar. Sósíaldemókratar hafa sínar hugmyndir um hvaða leið muni trúlega gefast best. En það er kannske dæmigert að það er mjög mikið um það að menn sem sjálfir búa við rótgróin lýðræðisskipulög telja oft að það sé á þeirra valdi að gefa öðrum þjóðum ráð, gefa þeim formútu.

Mér dettur í hug af þessu tilefni að vitna í athyglisverða grein eftir þann íhugula og ágæta blaðamann, Árna Bergmann, sem birtist í Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum. Þar segir af skáldi frá Perú sem heitir Mario Vargas Llosa. Vargas Llosa hafði mikla aðdáun á þýska rithöfundinum Günther Grass. En eftir að Günther Grass lét sér um munn fara þau ummæli að lönd rómönsku Ameríku mundu aldrei leysa vandamál sín nema með því að fara að fordæmi Kúbu, þá var það honum tilefni til þess að senda eftirlætisskáldi sinu orðsendingu, vegna þess að sjálft var þetta skáld frá Perú síður en svo ánægt með þá reynslu sem hlotist hefur af byltingunni á Kúbu.

Ég vitna, með leyfi forseta, í þessa grein Árna Bergmanns. Þar segir:

„En af því að Vargas Llosa þykir nokkru áfátt um lýðræðið á Kúbu er hann ekki beinlínis hrifinn af þessari ráðleggingu Günthers Grass. Hann talar um að það sé í gangi hjá mörgum vinstrisinnum og frjálslyndum mönnum í Evrópu eins konar tvöfalt siðgæði að því er varðar það, hvað þeir telja gott fyrir sig og hvað þeir telji eiga við í t. d. rómönsku Ameríku. Llosa segir:

„Fyrir Vestur-Þýskaland eða þá Vestur-Evrópu og hin iðnvæddu ríki er hugsjónin lýðræði pólitískt kerfi sem er hliðhollt umbótum með kosningum, tjáningarfrelsi og rétti til að stofna pólitíska flokka í samfélagi sem um leið verndar einstaklinginn og er opið og laust við ritskoðun.

Fyrir rómönsku Ameríku er hugsjónin hins vegar bylting, valdataka með ofbeldi, stofnun eins ríkisflokks, samyrkjubúskapur með nauðung, skrifræði yfir menningunni og fangabúðir fyrir þá sem fara aðrar leiðir.“

Llosa veltir því fyrir sér hvað það sé sem fái menn eins og Günther Grass“ — yfirlýstan sósíaldemókrata — „til að setja dæmin upp með þessum hætti. Hann telur, að það sem mestu ráði um það sé það mikla áfall sem menn verða fyrir þegar þeir skoða nánar hina gífurlegu fátækt sem einkennir flest samfélög rómönsku Ameríku, hið gífurlega misrétti samfara eigingirni og tilfinningaleysi ríkjandi stétta í þessum þjóðfélögum andspænis neyðinni allt um kring. Þegar menn hafi skoðað þetta ástand um hríð komist margir að þeirri niðurstöðu að bylting sé eina leiðin.“

Enn fremur segir í greininni: „En mestu varði þó, að hinir velviljuðu og framfarasinnuðu Evrópumenn geri sér grein fyrir því, að með því að óska sér frelsis, en telja það óþarft eða ekki skipta máli í öðrum löndum, þá geri þeir sig eiginlega seka um eins konar kynþáttafordóma, sem þeir sjálfir telja sig raunar lausa við með öllu. Hann segir:

„Menntamaður, sem telur að frelsi sé nauðsynlegt og mögulegt fyrir hans eigin ríki, getur ekki tekið ákvörðun um að það sé óþarfa munaður fyrir aðra. Hann getur a. m. k. ekki gert það nema hann sé fullviss um að hungur, ólæsi og kúgun geri fólki ófært um að lifa í frelsi.

Og þar er kannske komið að kjarna málsins.

Þegar bandarískur eða evrópskur menntamaður — eða frjálslynt blað eða stofnun — ráðleggur pólitíska valkosti fyrir rómönsku Ameríku, sem hann mundi aldrei þola í sínu eigin samfélagi, þá afhjúpar hann grundvallarefa sinn um möguleika rómönsku Ameríku á að öðlast það frelsi og virðingu fyrir rétti annarra sem einkennir lýðræðisríki.

Í flestum tilvikum er hér um að ræða meðvitaáa fordóma, vanhugsun, eins konar innri kynþáttafordóma, sem þessir menn mundu afneita fljótt og vel ef þeim er bent á.““

Lýkur hér að segja frá þessum umræðum.

Menn greinir sem sé á um eftir hvaða leiðum eigi að fara til að leysa þau hrikalegu vandamál sem við erum að tala um. Friður verður aldrei í veröldinni nema menn búi jafnframt við réttlæti sem þeir tefja viðunandi.

Undirrætur ófriðar eru margar. En ein af þeim er gífurleg misskipting auðs og tekna. Um réttu leiðina til að útrýma örbirgðinni hefur menn greint á árum og áratugum saman. Um þetta eru hin miklu stjórnmálaátök í heiminum. Ef það á að raða af einhverju viti, ef það á að koma á framfæri einhverri kerfisbundinni, hlutlægri fræðslu inn í skóla um orsakir stríðs, átaka og ófriðar eru menn, hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki, að færa inn í skólastofuna umræðu um stórpólitískustu ágreiningsmál okkar samtíðar. Það er laukrétt, sem fram kom í ræðu hv. þm. Árna Johnsen, að menn verða þá að átta sig á því og taka afstöðu til þess hvort þeir vilja að stórpólitísk ágreiningsefni af þessu tagi verði flutt inn á fósturskóla, barnaskóla o. s. frv. Telja menn að það sé framkvæmanlegt, telja menn að það sé gerlegt? Ef menn neita því og segja sem svo: Það er alls ekki þetta sem við erum að meina, við erum að meina allt annað, við erum ósköp einfaldlega að tala um guðsorð og góða siði, við erum að tala um að það eigi að reyna að draga úr ofbeldishneigð og árásargirni stráka, við erum að tala um að fólk eigi að reyna að hegða sér skikkanlega, við erum að tala um að rækta með fólki umburðarlyndi og virðingu fyrir skoðunum annarra, — hvað eru menn þá að tala um friðarfræðslu? Menn eru þá ekki að tala um nokkurn skapaðan hlut annan en þann sem hefur verið viðleitni skóla alla tíð, þó með því fororði að hingað til hefur það verið viðurkennt hlutverk skóla í lýðræðislegu þjóðfélagi að gera ekki upp á milli lífsskoðana, að boða ekki eða prédika einhverja lífsskoðun, að þröngva ekki upp á varnarlaus börn einhverjum fyrir fram gerðum stóra sannleika eða bjóða ekki börnum og aðstandendum þeirra upp á það að í skólastofum sé farið með einhverja hrikalega einföldum á flóknum vandamálum sem þar eiga ekki heima. — Ég vara sérstaklega við einfölduninni, því einföldunin er, þó hún sé gerð í nafni frómra hugleiðinga og skoðana, e. t. v. það hættulegasta. „Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi.“

Það fer ekkert milli mála að í grg. með þessari till. er sagt: Það á m. a. að rannsaka orsakir ófriðar bæði að því er varðar einstaklinginn og hegðun hans. Og því næst á að rannsaka orsakir átaka í „félagslegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri gerð þjóðfélagsins,“ alþjóðasamskipti o. s. frv. o. s. frv. Annaðhvort á að gera þetta af einhverri alvöru, einhverri þekkingu eða að þetta er bara leikaraskapur og yfirborðsmennska. Að sumu leyti finnst mér dæmin sem nefnd eru bera vott um óttalegan leikaraskap. Það er t. d. tekið svo til orða, að í uppeldi drengja sé lögð mikil áhersla á árásargirni og samkeppni, samkeppnisanda. Og það er talað um að það eigi helst að hlutast til um að ekki verði leiknir aðrir leikir en þeir þar sem enginn vinnur og enginn tapar og þar sem ekki reynir á samkeppni. Menn geta haft sína skoðun á því, en mér finnst þetta vera hreinn barnaskapur.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé lykilatriði að því er varðar skóla og uppeldisstarf að fá nemendum, sem eru óendanlega ólíkir innbyrðis, bæði að gerð hæfileika og upplagi og hverju einu, — enginn einn einstaklingur er eins, — verkefni sem reyna á hann til hins ýtrasta. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að keppa eftir því í skólastarfi að ýta undir löngun manna og vilja til að skara fram úr, til þess að reyna á hæfileika sína til hins ýtrasta á hvaða sviði sem er. Ég heyri t. d. almennar skoðanir um að það eigi helst ekki að stuðla að keppnisíþróttum. Fólk má skokka og hlaupa, til þess að ná af sér offitunni eða eitthvað þess háttar, heilsunnar vegna, en það má ekki reyna á sig, helst hvorki andlega né líkamlega. Þetta eru ekki nýjar skoðanir. Þetta eru skoðanir sem hafa verið boðaðar í nafni uppeldisfræði og verið í tísku. Ég er ósáttur við þessa skoðun og styðst þar við 10–15 ára reynslu af kennslu- og skólastarfi. Ég held að þetta séu vanhugsaðar skoðanir og þær eru í litlu samræmi við mína reynslu af umgengni við unglinga og börn og í litlu samræmi við minn mannskilning. Ég held þvert á móti ættum við að óska eftir sem mestri fjölbreytni í öllu skólastarfi og einmitt leggja á það áherslu að skóli er m. a. til þess að virkja starfskrafta, reyna á getu og hæfileika til hins ýtrasta. Hann á ekki að vera geymslustaður og allra síst letigarður.

Ég endurtek: Ef það er staðreynd að fræðsla um friðarmál felur í sér umræður og fræðslu um ágreiningsefni manna, um mann og þjóðfélag, þjóðfélagsgerð, hugmyndakerfi, heimspekikerfi, siðfræði o. s. frv. o. s. frv. þá er það staðreynd að hún snýst um pólitík. Ef það á að ræða við börn á aldrinum 4–7 ára ástæðurnar fyrir því að Íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið er verið að ræða við þau um pólitík. Ef það á að vera að ræða við börn á þessum aldri um kjarnorkuvopn og rökin fyrir því hvers vegna Vestur-Evrópuríkin hafa sætt sig við það að búa við ímyndað eða raunverulegt öryggi undir kjarnorkuvopnaregnhlíf Bandaríkjamanna allan þennan tíma frá stríðslokum, þá er auðvitað verið að ræða pólitík. Ef það á að útskýra fyrir þessum börnum hvers vegna og með hvaða rökum allar ríkisstjórnir í Vestur-Evrópu óskuðu eftir því að komið yrði upp endurnýjuðum skammdrægum kjarnaflaugum í Evrópu skv. sameiginlegri ákvörðun í NATO 1979, hvað er þá verið að ræða annað en pólitík? Og hvernig á að útskýra þetta fyrir börnum á þessum aldri án þess að fara út á baksvið og þekkingu sem, bara þegar menn hugleiða málið, er ógerningur að koma til skila, þannig að merkingu hafi, við börn á þessum aldri? Á t. d. að fara að ræða þá spurningu, sem fram kom í máli hv. flm.. að kjarnorkuvopn, með öllum sínum gereyðingarmætti, séu tæki sem ekki þjóna neinum pólitískum tilgangi, eins og hún sagði?

Einu sinni las ég lesendabréf í bandarísku blaði þar sem spurt var: Halda menn að Bandaríkjamenn hefðu varpað kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki ef þeir hefðu vitað að Japanir áttu kjarnorkuvopn? Eðli kjarnorkuvopna er vissulega það. að um leið og þeim er beitt kann það að þýða ragnarök þessa heims. Kjarnorkuvopn í höndum þeirra sem reiðubúnir eru til að beita þeim gagnvart þeim sem ekki getur svarað fyrir sig, sem engin sambærileg vopn á til að aftra slíkri árás, eru vissulega pólitíski vopn. Á að segja við börnin: Að sjálfsögðu viljum við að kjarnorkuvopnum verði útrýmt, og spyrja svo: Hvað á að koma í staðinn? Erum við friðarsinnar? Viljum við allsherjar afvopnun? Viljum við einhliða afvopnun? Nei. Hv. flm. segir t. d.: Það er enginn að tala um einhliða afvopnun. Þá er spurt: Hvað er þá verið að tala um í því tilviki? Er hv. flm. tilbúinn að ræða það við okkur, af því að ég skildi hana upphaflega þannig að hún væri alger friðarsinni, hvað á að koma í staðinn? Ég ætla ekki að fara hér í neina efnislega umr. í líkingu við það sem fram fer í vestrænum fjölmiðlum um þessi mál, aðeins spyrja: Ef við ætlum ekki að afvopnast einhliða og við ætlum ekki þar með að bjóða upp á þá stöðu í heimsmálum að hin vestrænu lýðræðisríki gefist einfaldlega upp frammi fyrir ofurvaldi hins sovéska nýlenduveldis að því er varðar yfirburði í venjulegum vopnum ætlum við þá að mæla með því að tekin verði upp herskylda í lýðræðisríkjunum? Ætlum við að mæla með því að þau efli hervarnir sínar með venjulegum vopnum? Eru þeir sem krefjast þess að kjarnorkuvopnum verði eytt reiðubúnir að mæla með því í staðinn, af því að þeir eru ekki friðarsinnar, að framlög Vestur-Evrópuríkja til varnarmála verði hækkuð verulega, vegna þess að það er vitað að þessi ríki hafa ekki staðið við sameiginlegar samþykktir sínar um að hækka þessi framlög? Hv. flm. nefndi t. d. tölur um það hversu háum upphæðum sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamenn verja til vígbúnaðar. Hann nefndi töluna um 5%, ef ég man rétt. Vestur-Evrópuríkin hafa margsinnis samþykkt sem leið til þess að draga úr því hversu háð þau eru kjarnorkuvopnum að hækka sitt framlag til varnarmála en aldrei staðið við það. Það er mat þeirra sérfróðu aðila sem fylgjast með Sovétmönnum að það hlutfall sem þeir verja af mun minni þjóðarframleiðslu til hermála sé um 13% af þjóðarframleiðslu, þ. e. tæplega þrefalt á við Bandaríkjamenn. Á að fara með þessar spurningar inn í barnaskóla? Þegar maður spyr svona spurningar, þá er sagt í fyrsta lagi: Nei, nei, það á ekki að gera það. Það á að varpa fram hinum og þessum spurningum svo sem eins og gert var með leikina frá Nottingham. Hvað eru menn þá að tala um? Það er ákveðinn tvískinnungur hér að baki. Annaðhvort er hér um að ræða fræðslu sem snertir kjarna þeirra ágreiningsmála sem við erum að ræða um eða að það er verið að boða þá hugmyndafræði eða þá uppeldiskenningu að það eigi að haga uppeldi í skólum þannig að ekki sé verið að reyna á samkeppni eða keppnisleiki, kennurum sé falið að sjá um að persónuleg samskipti nemenda fari fram friðsamlega og það á að stuðla að því með ýmsum hætti að fólk beri virðingu fyrir skoðunum náungans o. s. frv. Þetta er ekki nýtt, nema ef vera kynni að það ætti að fara að kenna gildismat femínisma í skólum. Þá verð ég fyrir mína parta að segja: Nei, takk, ekki fyrir mína stráka — kannske ekki fyrir mínar stelpur heldur.

Hv. 3. landsk. þm. sagði í svarræðu sinni að það væri ekki rétt sem fram hefði komið bæði í mínu máli og annarra að hún hefði lagt að jöfnu annars vegar lýðræðisríkin og hins vegar alræðisríki Austur-Evrópu. Okkur kann að greina á um það. Ég hef farið yfir þann texta í fyrri ræðu hennar og er reyndar þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt mat hjá mér. Hún hafi að vissu leyti vikið sér undan þeirri spurningu, enda kemur það fram í till. um friðarfræðslu að það á út af fyrir sig ekki, þó það eigi að ræða orsakir styrjalda og átaka og rekja það til þjóðfélagskerfa, að boða breytingar á þjóðfélagskerfum.

Af þessu tilefni langar mig til að segja frá því að fyrir nokkrum vikum heyrði ég ákaflega athyglisverðar umræður sem sjónvarpað var beint frá frægu bresku menntasetri, Oxfordháskóla, svokallaðri Oxford Union Debate. Til þessarar umræðu var boðið annars vegar varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og hins vegar einum helsta talsmanni bresku friðarhreyfingarinnar, Edward Thompson sagnfræðingi, sem kom hingað til lands fyrir nokkrum árum í heimsókn og talaði á fundi á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga. Þessar umræður stóðu í hálfan annan tíma. Þessir heiðursgestir töluðu út af fyrir sig ekki langt mál hvor um sig, heldur voru það stúdentar við háskólann sem höfðu mest af ræðutímanum. Umræðuefnið var þetta: „Þessi fundur samþykkir að það sé enginn siðferðislegur munur á utanríkisstefnu stórveldanna.“

Það sem mér er minnisstæðast úr þessari umræðu er örstutt ræða eftir ungan bandarískan stúdent. Það kom fram að hann væri gistinemi við Oxford frá Harvardháskóla. Megininntakið í ræðu hans var þetta:

„Ég er að vísu gestur í þessu landi, bandarískur þegn, en ég er ekki fylgismaður ríkisstjórnarinnar í Bandaríkjunum, ég er enginn stuðningsmaður Reagans Bandaríkjaforseta. Ég er reyndar demókrati og ég er mjög gagnrýninn á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sérstaklega í málefnum rómönsku Ameríku. En þegar ég heyri skoðanir t. d. eins og þær, sem fram komu hjá sumum stúdentanna, að ef nokkuð væri stafaði heimsfriðnum meiri ógn og skelfing af margnefndum Bandaríkjaforseta og reyndar Bandaríkjunum og hernaðaryfirvöldum í Bandaríkjunum en Sovétríkjunum. þá fara nú að renna á mig tvær grímur“, sagði þessi bandaríski stúdent.

Hver er munurinn, ef nokkur er? Og hann minnti samstúdenta sína á: Hér er staddur varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, holdtekja alls hins illa í augum sumra ykkar, yfirmaður þeirrar ægilegu hernaðarmaskínu sem hótar að sprengja heiminn í loft upp. Hann er hér staddur til að standa fyrir máli sínu, til að reyna að verja málstað sinn, til að svara gagnrýni ykkar. Ykkur er heimilt að ganga í skrokk á honum, ykkur er heimilt að gagnrýna hann eins og þið getið, ykkur er heimilt að krefja hann svara. Ég spyr: Getið þið ímyndað ykkur að sama máli gegndi um stúdenta í Tékkóslóvakíu, Póllandi, Eystrasaltslöndunum, Sovétríkjunum, Kína, Kúbu? Mundu þeir geta kallað ráðamenn sinna ríkja til sín á fund og tekið þá til bæna með sama hætti og þarna var gert?

Hann nefndi annað: „Ég er, eins og ég sagði, Bandaríkjamaður, en ekki stuðningsmaður stefnu Reagans Bandaríkjaforseta. Mér er heimilt, bæði hér og í heimalandi mínu, að berjast gegn utanríkisstefnu og stefnu valdhafanna í mínu landi eftir því sem ég best get. Ég minni ykkur á Víetnamstríðið. Berið það saman við styrjöldina í Afganistan. Hvernig stóð á því að okkur tókst að binda endi á Víetnamstríðið? Ástæðan fyrir því er sú, að þrátt fyrir alla galla og ófullkomleika bandarísks stjórnarfars, þá var bandaríska þjóðin ekki leynd staðreyndum. Sjónvarpsvélunum var beint að öllu hernaðarframferði Bandaríkjamanna í Víetnam, líka fólskuverkum þeirra. Þessi mynd var inni í stofu hvers venjulegs bandarísks borgara dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Hún snerti djúpt við samvisku bandarísks almennings. Stúdentar við bandaríska háskóla, kennarar við bandaríska háskóla, stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, verkalýðsleiðtogar í Bandaríkjunum, reyndar allur almenningur, skipulögðu andóf, komu á framfæri mótmælum. Og að lokum tókst þeim að koma í veg fyrir að sá Bandaríkjaforseti sem ætlaði að halda þessu stríði áfram þyrði að bjóða sig fram. Að lokum tókst þeim að byggja upp slíkan þrýsting almenningsálits að enginn bandarískur forseti, hver sem hann var og í hvaða flokki sem hann var, treysti sér til þess að halda þessari styrjöld áfram.“

Spurt er: Er enginn munur á utanríkisstefnu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna? Og bak við það er sú fullyrðing að það sé enginn munur á þessum tveimur þjóðfélagskerfum.

Niðurstaða mín er: Víst er þar munur á. Og það er sá munur sem skilur á milli feigs og ófeigs. Það er sá reginmunur sem er á þjóðfélagi frjálsborinna manna og þræla. Hvað er að gerast í Afganistan? Hvað veit sovéska þjóðin um atburðina í Afganistan? Koma fréttir af því í sovéskum blöðum? Eru umræður um það í sovéskum blöðum? Koma myndir af framferði þeirra í sovésku sjónvarpi? Hvað veit sovéskur almenningur? Jú, það myndast sögusagnir um það þegar farið er að flytja líkin heim, þegar það fer að berast út frá fjölskyldunum, þegar lík hermannanna eru orðin óþægilega mörg. En að öðru leyti er Afganistanstríðið ekki til í sovéskum fjölmiðlum, ekki til í sovéskum þjóðfélagsveruleika.

Hvernig á almenningur í Sovétríkjunum að rísa upp gegn þessu stjórnarfari? Gera menn virkilega engan greinarmun á lýðræði og lögregluríki? Skilja menn ekki hvers konar stjórnarfar þetta er? Hvernig stendur á því að hv. flm. Guðrún Agnarsdóttir segir, og ætlast til þess að ég taki hana trúanlega, að ef friðarfræðslu hefði verið komið á í þriðja ríki nasismans eða í hinum sovéska fasisma hefði sennilega ekki komið til seinni heimsstyrjaldarinnar, þá hefði Hitler aldrei náð völdum, ef friðarfræðslu hefði verið komið á, ef hún hefði verið fyrir hendi í þriðja ríki Hitlers, þá hefði allur almenningur í landinu sennilega aldrei léð Hitler stuðning sinn til þess að ná völdum og af því leiðir hitt? Ég verð að játa að það kemur ekki oft fyrir mig að ég er orðlaus, en ég er alveg gersamlega orðlaus yfir slíkum skilningi á þjóðfélagslegum veruleika og sögu. Á bak við þetta finnst mér vera algert skilningsleysi á því við hverja er að eiga þegar um er að ræða alræðisríki af þessu tagi. Þeim nægir engan veginn að koma í veg fyrir að almenningur njóti almennra mannréttinda, að þú hafir ekki málfrelsi, ekki ritfrelsi, ekki ferðafrelsi, ekki fundafrelsi, ekki frelsi til þess að skrifa í blöð, ekki frelsi til að opna munninn, ekki frelsi til að vera í friði fyrir áróðri. Ekkert ríki í heiminum stundar eins dyggilega friðarfræðslu og Sovétríkin. Valdhafarnir þar þurfa ekki aldeilis að kvarta undan því. Sú friðarfræðsla er hins vegar dálítið einhliða. Hún er á þeirri forsendu að ófriður eigi sér eina orsök: Hann er hinum að kenna. Frá blautu barnsbeini er börnum þar, varnarlausum börnum, innrættur áróður ríkisins um hverjar séu orsakir friðar og hverjar orsakir ófriðar ásamt með því að hver einasti sovéskur þegn er sviptur öllum aðgangi að upplýsingum, staðreyndum, fréttum. Og það er ekki nóg með það. Menn eru líka sviptir sögunni. Staðreyndir mála um liðna tíð eru endurskapaðar. Persónur sem áttu mikinn þátt f að móta þetta þjóðfélag eru ekki lengur til. Glæsilegasti og gáfaðasti byltingarforingi sögunnar, maður eins og Leon Trotzky, sem guð hafði léð ofgnótt hæfileika og átti kannske manna mestan þátt í því að rússneska byltingin svokölluð tókst, er ekki til. Hver einasti maður sem reis upp eða lýsti einhverjum öðrum skoðunum eða lenti á annað borð sem fórnarlamb þessa kerfis er ekki til. Það er þessi Orwellska hugsanastýring, ekki aðeins samtíðar heldur fortíðar og framtíðar, sem alræðisríkin beita. Og það lýsir alveg ótrúlegum barnaskap ef menn halda að í viðskiptum við slíkt ríkisvald eigum við kost á að brjóta niður múra, að nálgast almenninginn í þessum löndum með því að auka samskipti ríkja, gera samninga milli ríkja um aukna verslun, sem fram fer við ríkiseinokunina, um aukin menningarsamskipti, um aukna vísindastarfsemi, um ferðalög. Mega sovéskir borgarar ferðast? Mega þeir ferðast innanlands? Nei. Mega þeir ferðast út fyrir landið? Nei. Geta þeir sem ferðast um Sovétríkin náð sambandi við sovéskan almenning? Að sjálfsögðu ekki.

Það er þetta sem Orwell átti við þegar hann sagði: „Gandhi gat beitt aðferðum hins vopnlausa mótþróa á Indlandi gegn breska heimsveldinu, þar sem sólin aldrei settist, af því að hann átti í höggi við ríki sem þrátt fyrir allt, þrátt fyrir allan sinn ófullkomleika, var lýðræðislegt þjóðfélag.“ — Hvernig fór hann að því? Hann fór að því þannig, að þegar hann setti á svið fjöldaaðgerðir almennings á Indlandi, sem lagðist á brautarteina eða hindraði lögreglu eða her heimsveldisins í að koma fram valdi sínu, þá birtust breskir fréttamenn. Þá var frá því sagt í öllum breskum blöðum, í bresku útvarpi. Gandhi gat skírskotað beint yfir höfuð stjórnmálamannanna til almennings í Bretlandi, sem að vissu leyti hafði skilning og samúð með baráttu Indverja fyrir sjálfstæði. Gandhi átti bandamenn og margir úr forustuliði sjálfstæðishreyfingar Indverja, margir hámenntaðir menn á evrópska vísu í breskum háskólum, áttu vini og bandamenn sem studdu málstað þeirra. Breski verkamannaflokkurinn gerði að lokum málstað þeirra að sínum. Þess vegna tókust þessar baráttuaðferðir. En ef Mahatma Gandhi hefði átt í höggi við einhvern Hitler og þann brúna fasisma sem þar bjó á bak við eða ef hann hefði átt í höggi við lögregluríki Stalins, þá er ansi hætt við því að þessar baráttuaðferðir hefðu komið fyrir lítið.

Ágreiningsefni mitt við flm. þessarar till. er í raun og veru aðeins eitt og það er þetta: Ég er þeirrar skoðunar að fræðsla, og þá er ég að tala um raunverulega fræðslu, ekki leikaraskap, um stærstu pólitísk ágreiningsmál okkar tíma, um orsakir stríðs og friðar, um undirrót efnahagslegs og félagslegs misréttis, um þann stóra ágreining sem er á milli sjónarmiða og lífsviðhorfa lýðræðissinna og alræðishugmyndakerfa, verði ekki svo að vit sé í útskýrð fyrir börnum frá fjögurra ára aldri og fram á unglingsár. Þegar mér er borið á brýn að þetta sé vantraust á kennarastéttina finnst mér það ómerkileg röksemd og ég vísa henni algerlega á bug. Af hverju? Ég sagði t. d. í minni frumræðu: Þetta er hlutur sem ég treysti mér ekki til þess að gera. Og ef þú treystir ekki sjálfum þér, þá er spurning: Ættirðu þá að gera þá kröfu til annarra? Ég treysti mér ekki til þess að gera þá kröfu til kennarastéttarinnar að hún boði börnum lausnir á þessum vandamálum vegna þess að þar er ekki til neinn einhlítur hlutlægur mælikvarði. Þetta eru ekki fræði sem hægt er að kenna á hlutlægan hátt. Og ég spyr enn: Ef þetta ætti að vera hlutverk þeirra sem annast umönnun og uppeldi barna, hver á þá að kenna kennurunum? Hefur þeim verið kennt það sem til þarf til þess að annast þessa fræðslu?

Niðurstaða mín er sú í fyrsta lagi: Það er rangt að flytja þessa pólitísku kennslu inn í skólana. Í öðru lagi treysti ég mér ekki til þess að gera þá kröfu til kennara að þeir geti innt þessa fræðslu af hendi með þeim hætti að ásættanlegt sé. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé óframkvæmanlegt, ekki á mannlegu valdi, og lýsi því skýrt og skilmerkilega yfir að það er ekki spurning um vantraust á kennarastéttina.

Ég þarf ekki að taka það fram að það að vera friðarsinni er auðvitað óendanlega fögur lífsskoðun, þó að ég treysti mér ekki til að lýsa því yfir við hvaða kringumstæður sem er að ég aðhyllist þá lífsskoðun. En hún er lífsskoðun eins og hver önnur. Hún er lífsskoðun alveg eins og lýðræðissinnuð jafnaðarstefna er pólitísk lífsskoðun. Hún er lífsskoðun alveg eins og Leninismi eða Stalinismi er lífsskoðun og margar aðrar skoðanir og kenningakerfi.

Ég er þeirrar skoðunar, að ekkert af þessum kenningakerfum verði útskýrt á viti borinn hátt fyrir börn á aldrinum frá 4 ára. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar, að skóli í lýðræðislegu þjóðfélagi eigi ekki að innprenta, innræta eða prédika börnum lífsskoðanir af þessu tagi. Það er eðli lýðræðislegs þjóðfélags að einstaklingarnir sjálfir eigi að mynda sér skoðanir af þeim heildarstraumi upplýsinga sem þeim berast og eftir því sem þeir hafa aldur og þroska til. Ég tek fram að það er allt annað hvort við erum að tala um viðleitni til fræðslu um þjóðfélagið í framhaldsskólum, þegar við erum að tala um ungmenni á aldrinum 16–20 ára, en í barna- og gagnfræðaskóla. Um það er ágreiningurinn.