29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4284 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

184. mál, friðarfræðsla

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Við heyrðum á síðustu orðum hv. flm. það umburðarlyndi sem hún hefur fyrir skoðunum annarra og hefur látið fara svo mörg orð um að eigi að vera þáttur í þeirri fræðslu sem hún ætlar öðrum að ástunda í skólum landsins. Ég held að óhætt sé að segja um þessi orð og hegðun hennar í því sambandi að ekki breytir hún eftir því sem hún ætlar öðrum og síst voru þessi orð hennar til fyrirmyndar né málflutningur hennar, en að því leyti í samræmi við sumt það sem þar hefur verið sagt að þessi hv. alþm. hefur sett sig hér upp á háan stall og miðlar okkur af stórlæti sínu einu og einu komplimenti svona eins og í því skyni að láta það skiljast að okkur sé ekki alls varnað. Skal ég, herra forseti, vitna í eina setningu til þess að sýna þær fjólur sem þessi hv. þm. ræktar í sinum hugarfylgsnum. En hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég fagna því að hann“ — þar á hv. alþm. við mig — „er í hjarta sínu sammála mér og öðrum hv. flm. þessarar till. um nauðsyn þess að búa vel að börnum.“

Þetta var nú ekki dónalegt að fá að heyra. Það er ánægjulegt að þm. skuli hafa uppgötvað þetta. En hitt hlýtur að koma mér mjög mikið á óvart að hann skuli sérstaklega gleðjast yfir því í hjarta sínu að samþm. hans vilji hlúa vel að börnum. Hvenær hefur það komið fram að þm. hér vilji það ekki? Og hvernig voru þau ummæli sem hv. þm. hafði hér áðan um ræðu hæstv. menntmrh. og þær ályktanir sem dregnar voru í því sambandi í hans ræðu? Skal ég ekki fara langt út í þá sálma.

En hitt vakti athygli mína í þessum síðustu orðum að nú er friðarfræðsla í skólum allt í einu orðin spurning um það hvort innræta eigi börnum almenna mannasiði í skólum landsins. Ég hélt að kennarar hefðu nú reynt að gera þetta. Ef grannt var skoðað fólst í þessum orðum mjög mikil gagnrýni yfirleitt á hæfni kennara, að þeir hefðu ekki staðið í því stykki sínu, hvorki, skildist mér, á barnaheimilum né í grunnskólum. Þá hefðu fóstrur og kennarar ekki staðið í því stykki að innprenta börnum drengskap og í leik og starfi að bera virðingu fyrir öðrum og umhverfi sínu. Ég held að þetta sé einmitt ríkur og snar þáttur í allri kennslu, bæði á barnaheimilum og í grunnskóla, og held að ekki þurfi nema sérstaka till. um það á Alþingi ef það eitt býr undir.

En ég er því miður hræddur um að það sé annað sem undir búi og síðan sé hlaupið í þetta skjólið og ekki gefinn gaumur að því hvað orðin þýða sem raunverulega töluð eru. Ég óttast mjög að þar fylgi hugur ekki máli, að ekki sé allt sagt sem í hugarfylgsnunum bjó.

Ég vil líka taka skýrt fram vegna kunnugleika minna af Morgunblaðinu að því trúi ég ekki að skoðanir, málstaður flm. þessarar till., hafi ekki fengið inni á Morgunblaðinu. Nú get ég auðvitað athugað það. Það er ein símhringing til ritstjóra Morgunblaðsins um það hvort flm. þessarar till. hafi skilað þar inn grein eða á annan hátt lagt fram óskir um að um einhver sérstök atriði þar sé getið. Það veit ég ekki um. En ég sá ekki betur en nokkuð hafi verið um þessi mál fjallað í því blaði og ég veit ekki betur en það sé opið fyrir þeim sem á annað borð leggja það á sig að skrifa nokkrar línur. Ég held að Morgunblaðið sé og hafi verið opið þm. Ég neita því ekki að mér finnst stundum nóg um þegar ég sé langlokur eftir Ólaf Ragnar Grímsson þar, en allar eru þær skemmtilegar og þegar betur er að gáð prýða fremur blaðið en hitt. Ekki trúi ég öðru en Morgunblaðið muni gera hið sama fyrir konur og það gerir fyrir karlmenn því að ég hef ekki orðið var við að kyngreining þar eigi sér stað í þeim skilningi nema síður sé.

En kompliment, eins og það að ég telji að vel eigi að búa að börnum, frábið ég mér gersamlega. Ég held að enginn einn maður hér hafi efni á því að gefa öðrum slíkt kompliment fremur öðrum. Ég hef ekki orðið var við það af kunnugleikum mínum við þm.

Hitt er rétt að það er gamall siður, þegar menn reyna að gefa orðum sínum meiri áhrifamátt en inntak þeirra gefur tilefni til, að vitna til barna vegna þess að flestir eru þannig gerðir að þeir leggja við eyrun þegar víkur að þeim í ræðum manna. En ekki verður það neinum málstað til framdráttar til frambúðar að skjóta sér alltaf í það skálkaskjólið.

Hv. þm. sagði í sinni ræðu, sem ég gat því miður ekki hlýtt á þar sem ég var upptekinn á öðrum fundi eins og ég hafði sagt flm., að hann hefði ekki gert samanburð á gæðum lýðræðisskipulags annars vegar og annarra þjóðfélagsgerða og neitaði því að hann hefði lagt að jöfnu lýðfrjálsar þjóðir og aðrar þjóðir sem búa við ofbeldi og lögregluríki. Þetta er aðeins spurning um hvað er að leggja að jöfnu. Ég sagði í minni ræðu að hv. þm. hefði lagt Bandaríkin og Sovétríkin að jöfnu í þeim skilningi að hann sagði að sömu hvatir lægju á bak við vopnaframleiðslu í báðum þessum löndum. Það endurtekur hv. þm. raunar í ræðu sinni fyrir tveim dögum og kemur hvergi fram í þeirri ræðu að hv. þm. geri sömu kröfur til þeirra þjóða sem eru austan járntjalds og lýðræðisþjóða. Að vísu er, til að dreifa sykri á skyrið svo að það sé ekki eins súrt, haft orð á því að göngumóðar konur úr Norðurálfu hafi gengið eitthvað um stræti í Sovétríkjunum fyrir einum 2–3 árum og væntanlega komist til baka aftur. Í þessu sambandi mætti minna á meðferðina á manni eins og Sakharov, sem mikið hefur á sig lagt fyrir sína samborgara austur í Sovétríkjunum, hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels þó að ég varist að bera mér í munn að hann sé friðarsinni í þeirri merkingu sem sumir eru á Vesturlöndum og raunar ekki fátítt að andófsmenn í því landi tali um þann yfirborðshátt, það skrum, sem svokallaðir friðarsinnar láta sér um munn fara í einhliða áróðri sínum um afvopnunarmál og varnarmál vestrænna þjóða.

En athyglisvert er einnig, sem hv. ræðumaður, 5. þm. Reykv., vék að áðan, að fyrir 1. flm. virðist sá stóri sannleikur augljós að konur séu í hjarta sínu meiri friðarsinnar en karlmenn. Um þetta fjallar verulegur kafli ræðunnar á þriðjudaginn og skemmtilegt er að sjá að þar skýtur upp kollinum þessi gamla rómantík um hina veiklyndu, veikgeðja konu sem getur ráðið með einu brosi við þann sterka karlmann, gráan fyrir vopnum og illan, ímynd hins illa, en aftur gæðin konunnar sem einungis hefur þær tilhneigingar sem góðar eru. Með leyfi hæstv. forseta skal ég rifja upp nokkur orð af þessu tilefni.

„Með ótrúlegu hugrekki, seiglu og óbilandi trú á lífið hafa konurnar flykkst að herstöðvunum. Og þetta eru ekki bara kvenréttindakonur, harðar baráttukonur. Nei, þetta eru venjulegar konur sem hafa aldrei áður yfirgefið arininn sinn og fylgt skoðun sinni út í lífið og óvissuna. Þær koma og syngja framan í hermennina og brosa, en þeir verða óöruggir því að þeim var aldrei kennt að verjast söng eða brosum. Þær skreyta veggi herstöðvarinnar með myndum af ástvinum sínum og vefa marglita þræði í víggirðingarnar. Þær klifra yfir girðingarnar og veggina og láta taka sig fastar.“ — Ég vek athygli á þessu, „og láta taka sig fastar“, herra forseti — „í fyrsta skipti á ævi sinni sem margar þeirra hafa óhlýðnast nokkrum.“

Þetta er gömul mynd. Grímur Thomsen hefur einmitt fjallað um þessa mynd í ágætu kvæði um Hrólf Bjarnason, konuna sem er svo lítil og veik en ræður þó við hinn hraustasta karlmann, sem aftur hlýtur að vekja þá spurningu hvort konurnar ráði ekki meiru um þessa hluti en hv. þm. vill vera láta:

„Á Hofmannafleti stóð hann sterki Hrólfur

stóð og talaði upp úr þyrpingunni:

„Sé hér nokkur við svo nýtur drengur

að nái mér að halda snöggvast kyrrum,

þó ekki sé það nema eina svipstund,

eignast skal hann ábýlið mitt góða,

allt mitt lausafé og allt mitt silfur

ær og geldfé, naut og kýr og hesta

og ég fylgi sjálfur með í kaupið.“

Svona mælti Hrólfur hátt á þingi

horfði í kringum sig og beið þar svara

en öllum féll þar Íslands drengjum hugur

enginn gaf sig fram að þreyta fangið.

Til hans allar hýrum augum horfðu

horskar konur ofan af Meyjarsæti

því að hann stóð svo frjáls,

hann sterki Hrólfur, stinnur,

líkur kletti í malarsandi.

Eins og stjörnur himins augun glóðu

ennið hreint sem heiður sumardagur.

Og á herðar ofan hárið bjarta

hrundi eins og foss ofan af bjargi.

Ingibjörg kom framúr kvennaskara

kvenna var hún fríðust hér á landi

fögur litum sem hinn mæri morgunn.

Mærin hóglát gekk að Hrólfi sterka

vafði mjúkan arm að hálsi honum

hjartað lét hún slá við bringu sveinsins

lagði rjóða kinn við rjóða og mælti:

„Rífðu þig nú lausan ef þú getur“.

Hvergi fékk hann Hrólfur sterki hreyft sig

heldur stóð hann grafkyrr og svo mælti hann:

„Ingibjörg, nú er ég yfirkominn,

eignast skaltu ábýlið mitt góða,

allt mitt lausafé og allt mitt silfur,

ær og geldfé, naut og kýr og hesta

og ég fylgi sjálfur með í kaupið.“

Svona lýsir Grímur þessari gömlu rómantísku sýn sem við eigum mikið af. En við geymum líka úr ljóðum og sögum aðra mynd af konunni eins og Matthías Jochumsson hefur m. a. leyft okkur að njóta í ágætri þýðingu af ljóðum Tegnérs. Þar er sagt frá því er unnustinn fór út á vígvöllinn í hópi vaskra sveina. Hann kom ekki til baka með öðrum hermönnum svo að unnustan fór út á vígvöllinn og lét leita að honum milli særðra og dáinna, en hann var ekki þar að finna. Hann hafði gerst liðhlaupi, svikist um til þess að varðveita sitt líf fyrir unnustuna til þess að hann gæti skilað heilum hesti heim. Unnustan lét sér aftur á móti fátt um finnast og sagði honum óðara upp og vildi ekki við hann kannast framar.

Í þessu dæmi sýnist mér konan ekki síður hafa verið herská. Enda er það mála sannast að konur hafa ekki síður en karlmenn staðið fyrir þeirri skyldu að verja heimili, börn og ættland þegar því er að skipta gagnvart þeim sem á þeim vilja níðast. Ég held að nauðsynlegt sé í allri þessari umr. sem við höfum um friðarmál að gleyma ekki þessum kjarna sem hv. flm. vill alls ekki ræða, þ. e. frumskylda hverrar þjóðar, ráðamanna hennar og annarra sem ábyrgð bera, að tryggja öryggi þegnanna í bráð og lengd. Undan þessu verður ekki vikist með einhverju snakki um almenna uppeldishegðun á barnaheimilum. Þá tók ég eftir því að samþm. minn að norðan hrökk í kút þegar á það var minnst að það væri skylda þeirra sem ráða löndum að hugsa um öryggi og frelsi þegna sinna enda hefur hann talað þannig um öryggis- og varnarmál okkar að skömm er að og síst til sóma fyrir Norður-Þingeyinga.

Fram kom í ræðu hv. flm. áðan að þessi till. snerist fyrst og fremst um afnám kjarnorkuvopna og baráttuna gegn þeim þó hv. flm. hafi í ræðu sinni fyrir tveim dögum viljað draga úr þeirri áhættu. Nú er það svo að kjarnorkuvopn hafa ekkert sérstakt eðli. Þau valda ekki tjóni eða skaða nema notuð séu. Það er á hinn bóginn hugsunarháttur á bak við framleiðslu kjarnorkuvopna að þau ógni okkur, sem er hið hættulega, að lýðfrjálsar þjóðir skuli þurfa að vígbúast til þess að verjast og tryggja öryggi sitt. Það er sú mikla staðreynd. Að ganga fram hjá henni er ófyrirgefanlegt kæruleysi eða sinnuleysi.

Hér voru staddir nokkrir þm. frá Suður-Kóreu um daginn. Þeir höfðu orð á því að við byggjum við meira öryggi en þeir og ættum gott að því leyti vegna þess að þótt grannar þeirra, Norður-Kóreumenn séu helmingi færri og rúmlega það, 38 millj. í Suður-Kóreu og um 1618 millj. í Norður-Kóreu, verja þeir mun meira fjármagni til vígbúnaðar og vopna en Suður-Kóreumenn, en hafa þó a. m. k. helmingi minni þjóðartekjur. Samt eyða þeir meira fjármagni til vígbúnaðar en stærra og fjölmennara landið og hafa orðið uppvísir að því að grafa undirgöng undir landamærin til þess að geta brotist í gegn, hafa í baráttu um innri völd gripið til þess óyndisúrræðis að vega að mönnum í nágrannalandi, drepa fjölmarga ráðh. og ráðamenn, þó þeim mistækist að drepa forsetann í þeirri árás. Sú árás var tímasett þannig að hún gerðist sömu daga og Alþjóðaþingmannasambandið hélt fundi sína í Seoul og var af þeim sökum ögrun við alla veröldina, ekki aðeins hinn frjálsa heim heldur öll þjóðlönd. Þessir Suður-Kóreumenn öfunduðu okkur af örygginu hér í Vestur-Evrópu og fundu glöggt til þess að þetta er önnur veröld. Börnin alast hér upp við önnur og ólík skilyrði en þau gera þar, alveg á sama hátt og aðstaða hinna norrænu kvenna á friðargöngunni í Sovétríkjunum var önnur en Sakharovs, enda tilgangurinn annar.

Mest er flaggað um afrek kvennanna á Vesturlöndum þar sem ekki er þörf á því, en Sakharov berst hljóðlátri baráttu fyrir öryggi og frelsi samlanda sinna. Svo er því slegið upp sem eitthvað merkilegum hlut að sovéskar konur skuli meta mikils friðargöngur og annað þvílíkt á Vesturlöndum og telja það til framfara. Af hverju gera þær ekki slíkt hið sama í sínu eigin landi? Af því að þær hafa ekki skilyrði til og þó karlmenn væru.

Þessi kyngreining á friðarvilja er forkastanleg hjá flm. þáltill. sem er að tala um að menn eigi að bera jafna virðingu fyrir mismunandi skoðunum, mismunandi kynþáttum, mismunandi þjóðerni, mismunandi þjóðfélagsgerð. En samt má ekki einu sinni ætla mönnum af sömu þjóð, konunum og körlum, að hafa nokkurn veginn sömu skoðun á því hvernig börnum líði eða hvort þau vilji frið eða ekki. Fyrr má nú aldeilis vera hrokinn.

Eins og ég vék að áðan fann ég að því í minni fyrri ræðu að í markmiðum friðarfræðslu væri ekki vikið að því að fræða um ágæti lýðræðisskipulags. Hv. þm. hafði þessi orð um þá athugasemd mína, með leyfi hæstv. forseta:

„Vitanlega hlýtur fræðsla um stjórnkerfi að verða hluti af þeirri viðleitni að skilja þjóðir og samskipti þeirra og möguleika manna til að varðveita frið. Hin flóknu vandamál sem blasa við okkur þurfa nemendur að skilja glögglega um leið og þeir eru sér meðvitaðir um þau forréttindi sem þeir njóta með því að búa í lýðræðisþjóðfélagi. Það þýðir líka að þeir verða að sinna lýðræðislegum réttindum sínum til að skapa samfélag og veröld án ófriðar.“

Nú veit ég ekki hvað hv. þm. á við með þessum síðustu orðum: „Það þýðir líka að þeir verða að sinna lýðræðislegum réttindum sínum til að skapa samfélag og veröld án ófriðar“. Í mínum huga hljótum við í þessum efnum að fara sömu leið og aðrar lýðræðisþjóðir í stórum dráttum. Ég er þeirrar skoðunar, sem flestir Íslendingar raunar eru, að örlög okkar séu samtvinnuð örlögum Vestur-Evrópuþjóða og annarra lýðræðisþjóða sem eiga undir högg að sækja. Athyglisvert er að friðarhreyfing framhaldsskólanema leggur einmitt höfuðáherslu á þessi atriði. Tel ég nauðsynlegt, herra forseti, að sjónarmið þeirra komi hér inn í þessa umr. en ég hef undir höndum drög að stefnuyfirlýsingu friðarhreyfingar framhaldsskólanema. „Markmið“ heitir fyrsti kaflinn og síðan segir, með leyfi forseta:

„Friðarhreyfing framhaldsskólanema er stofnuð í þeim tilgangi að stuðla að varanlegum friði í heiminum, frelsi manna og virðingu fyrir mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða.“

Annar kaflinn heitir „Hindranir í vegi friðarins“. „Friðarhreyfing framhaldsskólanema bendir á að ýmsar hindranir eru í vegi friðarins. Mannréttindi eru fótum troðin á meðal fjölmargra þjóða. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er víða vanvirtur. Hindrað upplýsingastreymi milli þjóða veldur tortryggni, ólík menningarsamfélög leiða af sér ólík sjónarmið, oft skortir á milli þjóða virðingu og skilning á ólíkum skoðunum. Það er óumflýjanleg staðreynd að til eru ríki í heiminum sem aðhyllast stjórnmálastefnu sem birtist í yfirgangi gagnvart öðrum þjóðum í krafti vopnavalds með tilheyrandi frelsisskerðingu og mannfórnum. Stærsta hindrunin er þó það þjóðfélagskerfi sem byggir á alræði. Þar eru frjáls skoðanaskipti nánast bönnuð og fólkið ræður engu um stefnu valdhafanna. Hættan stafar fyrst og fremst frá slíku þjóðskipulagi þar sem almenningsálit hefur engin áhrif, engir frjálsir fjölmiðlar, ekkert frjálskjörið þjóðþing og ekkert aðhald ríkir gagnvart aðgerðum valdhafanna.“

Þriðji kaflinn heitir „Leiðir að markmiði“: „Friðarhreyfing framhaldsskólanema telur að friðartillögur verði að byggjast á raunverulegu mati á stöðu alþjóðamála. Vandamálið er tvíþætt. Annars vegar hvernig unnt er að tryggja frið og afvopnun án þess að alræðisríkin verði allsráðandi í þessum heimi í krafti vopna sinna og stjórnmálastefnu. Hins vegar hvernig hægt er að létta oki alræðisherranna af þegnum, auka frelsi og mannréttindi og stuðla þannig að þróun frá alræði til frelsis og friðar. Sú leið sem friðarhreyfing framhaldsskólanema bendir á til þess að tryggja frið er leið gagnkvæmrar alhliða afvopnunar undir ströngu, alþjóðlegu eftirliti. Friðarhreyfingin hafnar hugmyndum um einhliða afvopnun. Friðarhreyfing framhaldsskólanema tekur undir kröfur um skipulega fækkun kjarnorkuvopna og síðan algert bann við framleiðslu slíkra vopna. Hið sama gildir um allar eldflaugar. Breyting frá þjóðskipulagi alræðisríkjanna verður að mati friðarhreyfingar framhaldsskólanema að koma innan frá. Þó er ljóst að hlutverk lýðræðisríkjanna er stórt og vandasamt til þess að stuðla að aukinni virðingu fyrir mannréttindum í heiminum. Það gera þau best með því að standa vörð um fengið frelsi og sýna sterka samstöðu með það fyrir augum að brjóta niður allar tilhneigingar til skerðingar mannréttinda í heiminum. Hið gífurlega kostnaðarsama vopnakapphlaup er háð á sama tíma og milljónir manna líða skort. Þetta er hrikaleg staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Eina raunhæfa leiðin að markmiðinu, varanlegum friði í heiminum, er sterkari samstaða frjálsra þjóða gegn kúgunaröflum. Látum friðinn ekki aðeins vera stund milli stríða. Friður, frelsi og mannréttindi hljóta ávallt að vera órofa heild. Við viljum gagnkvæma afvopnun, frið án uppgjafar, frið með frelsi.“

Svo mörg voru þau orð og ég er ekki í vafa um það að flestir lýðræðislega þenkjandi menn eru í höfuðdráttum sammála því sem þarna er sagt. Sumir menn hafa m. a. s. tekið svo djúpt í árinni að segja að hlutverk og þýðing hinna lýðfrjálsu ríkja hafi aldrei verið meiri en nú og undarlegt sé til þess að vita að eftir því sem upplýsingar eru meiri, eftir því sem við vitum meira um hörmungar manna og þjóða í alræðisríkjum, skuli uppvaxa fjölmennur hópur og hávaðasamur í fjölmiðlum á Vesturlöndum sem skella vill við þessu skollaeyrum og ekki hugsa alvarlega um það hvernig við getum brugðist við þannig að lýðræðið verði áfram sá viti á leiðinni til frelsis sem það vissulega hefur verið og er.

Ég vék að því í mínum orðum um daginn og lagði á það ríka áherslu að mesta friðarframlag í mínum skilningi sem orðið hefði í heiminum væri sú nána vinátta, þau nánu tengsl, sem nú ríktu milli höfuðríkja Vestur-Evrópu. Undir þetta var að vísu ekki tekið í ræðu flm. en ég tek þó eftir að blærinn í orðum hennar í hinni síðari ræðu er að nokkru annar, óbein viðurkenning á því að ég hafði mikið til míns máls. En á hinn bóginn treysti flm. sér ekki til þess að fjalla um friðarmálin á grundvelli þeirra hugmynda sem hann hefur um það hvernig lýðræðisríkin eigi að bregðast við. Ég skal svo ekki hafa um það fleiri orð.

En að síðustu vil ég aðeins víkja að þeim kafla í ræðu flm. þar sem hann fjallar um traust milli þjóða og viðurkennir raunar að það sé lykilatriði, gagnkvæmt traust milli þjóða. Síðan rekur flm. með hvaða hætti hann hugsar sér að vinna að þessu gagnkvæma trausti. Athygli vekur að inn í þá upptalningu vantar það sem margar lýðræðisþjóðir og kannske allar leggja höfuðáherslu á, en það er gagnkvæm upplýsingamiðlun um það sem að vopnabúnaði snýr og eftirlit með því að samningar séu haldnir. Að þessu var ekki vikið í ræðu flm. sem sýnir raunar að hann leggur í þessum efnum áherslu á allt önnur atriði en ég og er svo djúp gjá á milli skoðana okkar þar að undarlegt má kallast.

Auðvitað er það rétt að það á að eyða hleypidómum, tortryggni, auka vísindaleg, tæknileg og menningarleg samskipti, ferðamennsku, verslun o. s.frv. En kjarni málsins er eftir sem áður sá, til þess að traustið geti skapast, að menn viti hvað hinn hefst að. Lýðræðisþjóðirnar gerðu tilraun til þess eftir síðari heimsstyrjöld að afvopnast en reynslan sýndi að mannkynið var ekki komið það langt áleiðis á vegi friðarins að slík einhliða afvopnun væri raunhæf í þeim heimi sem þá var og í þeim sem við búum við enn þann dag í dag. Það hlýtur að vera mikil spurning fyrir alla hér inni og raunar allar þjóðir heims hvernig á því megi standa að Sovétríkin leggja æ meiri áherslu á að vígbúast eins langt og þau eru komin í vígbúnaðarkapphlaupinu og eins og umsvif þeirra sýna, sum lágkúruleg og önnur ógnvænleg.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri það er um þetta mál sem mörg önnur að mestu veldur hvernig á er haldið. Það vekur athygli að flm. treystir sér ekki til þess að útfæra í einstökum atriðum hvernig hann hugsar sér að friðarfræðsla í skólum geti orðið. (Gripið fram í.) Í þeirri ræðu er aðeins talað um markmið og útlínur en ekki farið ofan í þau atriði sem við vöktum sérstaklega máls á. T. d. vék flm. ekki, svo ég tæki eftir þegar ég las ræðu hans, að því hvort hann er sammála því sem fram kom hjá ýmsum öðrum flm. í Morgunblaðinu að í friðarfræðslu eigi að leggja áherslu á varnarstarf okkar í Atlantshafsbandalaginu og þann mikla þátt sem það öryggisbandalag frjálsra þjóða hefur átt í friði í okkar heimshluta. Að þessu vék hv. flm. ekki þó hann væri sérstaklega um það spurður og væri fróðlegt að fá um það skýr svör.

En það er kjarni málsins í þessu máli hvernig við viljum nálgast öryggismál okkar sjálfra. Hlýtur það ekki að vera grundvöllurinn, eins og hæstv. menntmrh. vék að áðan, í allri friðar- og öryggisfræðslu í skólum að velta fyrir sér þeirri spurningu hvernig við getum skapað okkur sjálfum í bráð og lengd viðunandi öryggi, að við getum búið í okkar landi eins og við sjálf viljum, eins og við höfum kosið og unum vel við? Að þessu vék flm. ekki og hlýtur það að valda mér miklum vonbrigðum.

Um hitt erum við öll sammála, eins og ég sagði áðan, að kjarnorkusprengjan, ógnartilvist hennar, ógnar lífi á jörðu. Það er vegna þess að annað öxulríkjanna, Sovétríkin, eru með útþenslustefnu, eiga í ófriði við aðrar þjóðir, halda þegnum sínum ófrjálsum og í öryggisleysi og ekki annað sýnt en vígbúnaður þeirra sé sprottinn af þeim hvötum að þau stefni að heimsyfirráðum. Það er a. m. k. öruggara að vera við því búinn þar sem lýðræðisþjóðirnar beita á hinn bóginn allri orku sinni að því að skapa meiri frið í heimi öllum til handa. Lýðræðisþjóðirnar kjósa að byggja upp varnir sínar á sama tíma og Sovétríkin leggja höfuðáherslu á árásarstríð eins og gleggst kemur fram í Afganistan.