29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4295 í B-deild Alþingistíðinda. (3672)

184. mál, friðarfræðsla

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt að víkja að því hvernig hv. 3. landsk. þm. túlkaði mína stuttu ræðu um þetta mál. Hv. þm. vék að því helst að ég hefði ekki fjallað um ógnir kjarnorkuvopna. Það hefur verið allrækilega gert í þessari umr. En mér skildist á hv. þm.till. þessi miðaði fyrst og fremst að vörn gegn hættu af kjarnorkuvopnum þannig að fræðslan ætti fyrst og fremst að vera um það. Ef sú er staðreyndin ætti till. að hljóða upp á það, en það gerir hún ekki. Að svo miklu leyti sem unnt er að skilja þessa till. alveg til fulls, því hún er töluvert óljós, þá er hún almennt um það sem gæti verið grundvöllur friðar. Ég kýs að leggja þá merkingu í þetta, en orðanna hljóðan er „þýðing og hlutverk friðar“.

Ég hélt að friðurinn væri eitt af því sem heyrði til grundvallarnauðsynjum manna ásamt frelsi og sjálfsögðum mannréttindum öðrum, en þessi útlistun er afar óljós. Þess vegna er ósköp eðlilegt að leitað sé skýringa á því sem hv. flm. sjálfir segja. Hv. þm. taldi að það skýrði ekki málið að haft væri viðtal við sex flm. af þrettán. En frá mínu sjónarmiði séð hefur það að sjálfsögðu æði mikið að segja hverjum augum þessir sex flm. af þrettán líta á efni þeirrar till. sem þeir eru að flytja.

Ef við lítum á það hvað þessir hv. þm. sögðu þá voru fyrst spurð þau Gunnar Schram hv. þm. og hv. forseti Ed. Salome Þorkelsdóttir. Þau svöruðu er þau voru spurð hvernig þau hygðust tryggja að friðarfræðslan yrði ekki einhliða áróður að ekki væri þeirra að segja til um það. Ætlunin væri með till. að láta kanna hvernig unnt væri að auka fræðslu um friðarmát frá því sem væri í skólum landsins. En till. er ekki um það að láta kanna þetta. Hún er um það að láta hefja undirbúning að frekari fræðslu o. s. frv.

Síðan er viðtal við hv. þm. Stefán Benediktsson þar sem vikið er að því að friðarfræðsla hafi farið fram í kristindómsfræðslunni. Hann er þá spurður, með leyfi hæstv. forseta: „Friðarfræðslan þá á trúarlegum grundvelli?“ Og hv. þm. svarar: „Nei, ekki beint á trúarlegum grundvelli heldur byggir þessi friðarhugsun auðvitað á kristinni hugmyndafræði og þeirri vestrænu siðfræði sem af henni er sprottin.“

Blaðamaður spyr: „Ætti að þínu mati að felast í friðarfræðslu á Íslandi upplýsingar um það að vera okkar í NATO byggist á því að við teljum öryggi okkar og vörnum og jafnvægi í Vestur-Evrópu best borgið með þeim hætti?“

Hv. þm. svarar: „Mér finnst fáránlegt að fara kannske að hugsa um slíka hluti fyrir börn á barnaheimilum. En aftur á móti tengjast hugmyndir um frið og friðarbaráttu því að gera fólki grein fyrir hugtökum eins og frelsi og lýðræði.“

Í viðtali við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur segir hv. þm., með leyfi hæstv. forseta, þegar hún er spurð hvort friðarfræðslan eigi þá að fela í sér fræðslu um undirstöðu utanríkisstefnu okkar og að vera okkar í NATO tryggi okkur öryggi og friðarjafnvægi í Vestur-Evrópu:

„Ég skal ekki segja um það með hvaða hætti þetta verður gert. Og auðvitað vildi ég að það yrði hægt að byggja þetta upp þannig að það byggði almennt á friði í heiminum. Ekki yrði horft til stórveldanna sem slíkra heldur yrði þetta almenn friðarfræðsla.“

Hv. þm. segir einnig síðar:

„Þetta yrði áreiðanlega viðkvæmt og vandmeðfarið og spurning hvort eigi að fara með þetta alla leið niður í dagvistunarstofnanir.“

Þessi svör segja að það er nokkuð mismunandi merking sem flm. sjálfir leggja í orð þessarar till. Hv. þm. Eiður Guðnason segir, með leyfi hæstv. forseta, þegar hann er spurður um það hvort fræða eigi börn um ástæður þess að við séum aðilar að NATO og það verði liður í friðarfræðslunni:

„Ég er samþykkur því að vera okkar í Atlantshafsbandalaginu tryggi best öryggi Íslands eins og nú horfir og ég held að þeim upplýsingum verði best komið á framfæri með því að skýra stöðu mála hér eins og hún er og eins og þróun sögunnar hefur verið síðan Atlantshafsbandalagið var stofnað. Atlantshafsbandalagið hefur ekki farið með ófriði á hendur neinum, það var ekki til þess stofnað, það er varnarbandalag sem er stofnað til að varðveita friðinn.“

Þessi hv. þm. telur að það eigi að fræða um þennan hluta málsins en aftur á móti annar hv. þm. sem viðtal var við telur að það eigi ekki að gera það, ekki a. m. k. á yngstu stigum. Hv. þm. Kristín Kvaran segir:

„Friðaruppeldi hefur verið í framkvæmd í raun á dagvistarheimilum í mörg ár. Við byrjum á þeim mikilvæga þætti að leiða börnum fyrir sjónir að ofbeldi er ekki besta leiðin til að ná sáttum og fólk þarf að ræða málin og finna lausnir. Ég vil flokka þetta undir undirstöðu friðaruppeldis.“

Þetta fer þegar fram og er auðvitað allt gott um það að segja. Hún sagði síðar að hún væri sammála því að undirstaða utanríkisstefnu okkar væri vera okkar í NATO, að hún tryggði öryggi okkar og jafnvægi friðar í Vestur-Evrópu. Varðandi það að þetta yrði kennt í friðarfræðslu sagði hún, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég veit ekki hversu langt á að ganga þegar verið er að tala um friðaruppeldi eða hvaða leiðir á að velja að því marki. Auðvitað hljótum við að fræða börnin á hvernig þessu er háttað og þar af hlýtur að leiða hvort heldur fólk er hlynnt veru okkar í NATO eða ekki að börnin verði upplýst um stöðu mála, það að við erum í NATO og af hverju við erum þar.“

Öllum er ljóst að það eru ákaflega misjöfn viðhorf manna til þessa máls, veru okkar í NATO. Útlistun á því af hverju við erum þar getur orðið ærið mismunandi eftir því hver á þeirri útlistun heldur.

Það er margt í grg. þessarar till. sem sýnir að framkvæmdin rennir stoðum undir afar pólitíska umræðu. T. d. segir í grg., með leyfi hæstv. forseta, um friðarfræðslu:

„Hún rannsakar orsakir deilna og átaka sem má finna samofnar skynjunum, verðmætamati og viðhorfum einstaklinga. Enn fremur má finna orsakir þeirra í fétagslegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri gerð þjóðfélagsins.“

Það er afar erfitt, herra forseti, að fjalla um þessi mál án þess að um það fari fram pólitísk umræða.

Í öðru lagi segir í þessari grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Frið ætti ekki einungis að skilgreina sem það tímabil þegar ekki geisar styrjöld. Mikið óréttlæti getur ríkt þó að ekki sé barist.“

Mikið rétt. Mikið óréttlæti getur ríkt þó að ekki sé barist og mannréttindi geta verið fótum troðin þó að ekki sé barist. En hver á að meta hvað er óréttlæti og hvar er óréttlæti? Eftir grg. að dæma er skilgreining á friði afskaplega víðtæk, nær til flestra vandamála mannlegs lífs eins og segir í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Svið friðarfræðslu ætti að ná til félagslegra vandamála, sem leiða til ofbeldis, svo og til einstaklingsvandamála.“

Það er alveg ljóst að skv. þessari till. og skýringum í grg. hennar getur nánast falist hvað sem er í friðarfræðslu. M. ö. o. að meginatriðið sem ræður þeirri afstöðu minni að Alþingi beri ekki að samþykkja slíka till. er að till. er mjög óljós. Það er alls ekki ljóst hvernig á að framkvæma þessa till., það er mjög umdeili og það er forsmekkur að því hvernig slíkt gæti farið fram. Enda sjáum við það að í ríkjum þar sem slíkt hefur verið á námskrá skólanna hefur það leitt til pólitískra deilna og er mjög umdeilt.

Þannig hygg ég að ærið verkefni sé að sinna því almennilega sem fram fer í skólunum, grundvallaratriðum uppeldis og fræðslu. Það er mjög mikilvægt verkefni. Við höfum nýlegar upplýsingar um árangur nemenda við lokapróf úr grunnskólum. Það eitt vekur til umhugsunar um það að við þurfum mjög vel að standa í ístaðinu til þess að efla þekkingu. Þar er ég sammála hv. 1. flm. þessarar till. að þekkingin mun efla friðinn og við skulum bæta þekkinguna á ýmsum grundvallaratriðum sem þarf til þess að lifa lífinu í okkar nútímaheimi.