29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4311 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

186. mál, takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er ekki þörf á að bæta hér miklu við. Mér þótti lakara það sem síðast kom fram hjá hæstv. utanrrh., miðað við það sem ég hafði skilið af máli hans áður, að hann teldi ekki þörf á að afstaða væri tekin til till. á meðan ekki væri lokið þeirri könnun sem rn. stendur fyrir. Hæstv. ráðh. upplýsti að vísu ekki hvenær von sé á niðurstöðum úr þeirri könnun, en hvað sem henni líður tel ég að Alþingi eigi að marka sína afstöðu og sína stefnu. Þess vegna sé engin ástæða til þess að bíða eftir niðurstöðum úr athugun á því hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum aðilum því að útfærslan á reglum varðandi takmörkun kemur ekki fyrr en í framhaldi af þeirri viljayfirlýsingu sem hér er lagt til að samþykkt verði. Heimildirnar eru til staðar hjá framkvæmdavaldinu í lögum og alþjóðasamningum eins og hér hefur fram komið.

Hæstv. ráðh. nefndi það í sambandi við vegabréfsáritun til Bandaríkjanna, sem hér hefur nokkuð komið til umr., að að líkindum nytum við Íslendingar þar „bestu fáanlegra kjara“ miðað við aðrar þjóðir. (Utanrrh.: Ég vissi ekki annað.) Hann vissi ekki annað. Ég get ekki staðhæft hvernig þessu er háttað varðandi Íslendinga miðað við aðrar þjóðir. Ég get aðeins sagt það, að ef þetta eru „bestu fáanleg kjör“ sem þar eru í boði líst mér ekki vel á blikuna. Á ég þar m. a. við hina formlegu hlið þessa máls, þ. e. hvað ferðamönnum, sem ætla sér að ferðast til Bandaríkjanna, er boðið upp á í sambandi við fyrirspurnir og upplýsingar sem þeim er gert að reiða fram í sambandi við umsóknir um vegabréfsáritun. Vel má vera að þegnar annarra þjóða sæti meiri takmörkun í reynd í sambandi við afgreiðslu vegabréfsáritana. Ég hef ekki þekkingu til þess að skera úr því.

Hæstv. ráðh. nefndi það í fyrri ræðu sinni að hann vissi ekki með vissu hvernig hagað væri ferðalögum sovéskra borgara til Íslands. Ég skildi hæstv. ráðh. þannig að hann væri ekki viss um að þar væri um vegabréfsáritunarskyldu að ræða. Ég tel mig vita það með vissu að slík áritunarkvöð sé til staðar, nema Sovétríkin njóti annarra kjara að þessu leyti en ýmis önnur ríki Austur-Evrópu. Þar held ég að gildi almennt krafa um vegabréfsáritun af okkar hálfu og að því leyti gagnkvæmni.

Ég vek svo að lokum athygli á því, að hæstv. ráðh. svaraði ekki þeirri fsp. sem ég bar fram til hans varðandi fjölda Íslendinga, sem heimild væri veitt til að störfuðu við erlend sendiráð. Hann taldi að það bæri vott um nokkurt frjálslyndi að sendiráð tækju Íslendinga í þjónustu sína og ekki væri þá verið að vinna að nemum myrkraverkum, ef svo væri. Ég hef út af fyrir sig ekki verið að gera því skóna að verið væri að vinna myrkraverk í erlendum sendiráðum. Um það verður auðvitað ekkert staðhæft af minni hálfu og um slíkt hef ég enga vitneskju. Hæstv. ráðh. og hans utanríkisþjónusta getur væntanlega lagt á það nokkurt mat. En hæstv. ráðh. svaraði ekki þeirri spurningu sem ég tel að sé mjög brýnt að leitað sé svars við: Er ekki eðlilegt að það séu einnig sett takmörk við fjölda Íslendinga sem erlendum sendiráðum er heimilt að ráða til sín og þar með um heildarstarfsmannafjölda þeirra?