02.04.1984
Efri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4324 í B-deild Alþingistíðinda. (3690)

196. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. landbn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessu máli. Ég vil einnig þakka fyrir það viðhorf til landbúnaðarins sem fram hefur komið í máli ræðumanna hér á undan. Ég finn að það er mjög jákvætt og vil leggja áherslu á að slíkt er landbúnaðinum nauðsynlegt, vitanlega alltaf, en ekki síður nú en áður. Það tel ég vera mikils virði.

Útbýtt hefur verið tveimur brtt. frá nokkrum þm. Í fyrsta lagi um að þessar lánveitingar skuli sérstaklega leysa fjárhagsvanda ákveðins hóps bænda, þ. e. þeirra sem hafa nýlega hafið búskap og eru í erfiðri aðstöðu. Nú held ég að augljóst sé að það er einmitt fyrst og fremst þessi hópur sem skuldbreytingin hlýtur að ná til, af þeim ástæðum sem m. a. hafa komið hér fram í ræðu manna. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að bæta þessu inn í frv. Eins og hv. 2. þm. Austurl. benti á er það bankaráð Búnaðarbankans sem fær þetta mál til meðferðar og framkvæmda. Ég er þess fullviss að hv. 2. þm. Austurl., sem á þar sæti, mun koma þessum sjónarmiðum á framfæri þar. Ég þekki þá sem þar starfa með honum og tel að þeir muni tvímælalaust gera sitt til þess að greiða fyrir þessu eftir því sem kostur er. Samþykkt brtt. mundi hvort sem er ekki veita neina lagaheimild í sjálfu sér, heldur er þar um fróma ósk að ræða og ég er þess fullviss að bankaráðið mun taka hana til greina þó að hún sé ekki felld inn í lagaákvæði.

Varðandi hina brtt., þar sem er verið að skylda innlánsstofnanir til að kaupa bankavaxtabréf, hefur verið bent á það að það gæti verið hæpið fyrir bændastéttina í framtíðinni ef slíkt yrði sett í lög, þ. e. ef lánveitendur ættu á hættu að vera lögþvingaðir til að kaupa skuldabréf þar upp í með kjörum sem þeir e. t. v. ekki sætta sig við. Það gæti leitt til þess að það yrði talin of mikil áhætta að lána til landbúnaðar. Það gæti reynst hálfgerður bjarnargreiði að koma slíku atriði inn. En ég vil benda á það, að í þessari skuldbreytingu er gert ráð fyrir meiri fyrirgreiðslu til lánardrottna og þá um leið bænda en áður hefur verið, þar sem ríkisstj. hefur samþykkt að miða við tillögurnar sem undirbúningsnefndin gerði, að fá allt að 40% af nýju fjármagni. Að því leyti er þarna um betri kjör að ræða en áður hefur verið.

Í sambandi við kjörin að öðru leyti hef ég látið þá skoðun í ljós að kjörin verði að miða við það að bréfin verði nothæfir pappírar fyrir bændur, þ. e. að lánardrottnar vilji taka við þeim upp í þessar skuldir, en þó með eins vægum kjörum og kostur er gagnvart bændum. Þetta er það leiðarljós sem stjórn veðdeildarinnar hlýtur að hafa við sínar ákvarðanir og það mun ég gera líka þegar málið kemur til afgreiðslu hjá mér.

Þá var einnig spurt um fjármögnun á þessu. Það hefur komið ábending eða tillaga frá nefnd þeirri sem ég gat um, undir formennsku Bjarna Braga Jónssonar aðstoðarbankastjóra, að ríkisstj. tryggi 60–80 millj. kr. í þessu skyni. Viðskrh. var af ríkisstj. falið að athuga þetta mál. Við höfum átt í viðræðum um það síðan og ég þori að fullyrða að veðdeildinni mun verða gefin trygging fyrir þessu fjármagni þegar frv. hefur verið afgreitt nú frá Alþingi, svo að afgreiðsla málsins þurfi ekki að tefjast frekar þegar frv. hefur verið afgreitt.

Um hina spurninguna, hvað verði hægt að gera fyrir þá bændur, sem við erum sammála um að séu nokkrir, sem ekki geta notið ákvæða laganna um þessa skuldbreytingu, held ég að sé ekki hægt að gefa neina einhlíta yfirlýsingu. Það eru margvíslegar ástæður sem valda því að þannig er komið fyrir mönnum. Þetta er bundið við einstaklinga og einnig við aðstæður og staðhætti. Þess vegna mun ég óska eftir því að nefndin, sem skipuð var til að undirbúa þetta mál, undir formennsku Bjarna Braga Jónssonar, fái þessi mál til athugunar þegar ljóst liggur fyrir frá veðdeildinni um hverja hér er að ræða. Ég mun óska eftir því að nefndin fjalli um það og geri tillögur um á hvern hátt þarna er hægt að bregðast við. En eins og hér var rakið af frsm. nefndarinnar, hv. 11. landsk. þm., er ekki hægt á þessu stigi að gefa ákveðin fyrirmæli þar um.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta eða fara að ræða um landbúnaðarstefnu almennt. Það hefur verið vikið hér að því hverjum þetta ástand er að kenna. Þar held ég að menn séu sammála um flest atriði, eins og árferði og verðbólgu, en ég mun ekki eyða tímanum nú í að ræða það frekar. En ég ítreka þakklæti mitt til nefndarinnar og ræðumanna hér.