02.04.1984
Efri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4325 í B-deild Alþingistíðinda. (3691)

196. mál, lausaskuldir bænda

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það er auðvitað satt og rétt, sem hér hefur komið fram, að hv. landbn. var á einu máli um að hraða afgreiðslu þessa máls. Eins og hv. alþm. er kunnugt hefur þetta mál verið a. m. k. að hluta til svolítið viðkvæmt í umr. hér í þinginu. En ég ætla ekki að vera langorður. Hér var aðeins minnst á það áðan að hugsanlega skorti veðhæfni í sumum tilvikum, þegar um væri að ræða þær skuldbreytingar sem í frv. felast. Jafnframt veit ég dæmi þess að bændur búa á leigujörðum en hafa ekki veð. Það hlýtur að koma upp í huga manns hvernig farið verður með mál þessara aðila. Hér hefur verið vikið að því að það væru hugsanlega 40–50 bændur sem ekki nýttust þær aðgerðir sem þetta frv. felur í sér. Þeirra mál þyrftu því sérstakrar skoðunar við. Ég geri ráð fyrir að þar geti fallið undir jafnframt þeir bændur sem ekki hafa veð þannig að þeir fái áheyrn og úrlausn sem af ýmsum ástæðum geta ekki notað sér skuldbreytinguna eins og frv. er hér fram sett með þeim reglum sem almennt verða lagðar þar til grundvallar.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál. Það væri auðvitað æskilegast að öll framkvæmdin lægi ljósar fyrir en raun ber vitni, en við skulum vona að þær ráðstafanir sem frv. felur í sér nýtist að miklu leyti eins og til er ætlast.

Virðulegi forseti. Ég endurtek: Ég vænti þess að við skoðun og framkvæmd þeirra ráðstafana sem frv. felur í sér verði öll tilvik skoðuð rækilega.