02.04.1984
Neðri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4340 í B-deild Alþingistíðinda. (3711)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Auðvitað eru skiptar skoðanir um gerning eins og sölu á eigum ríkisins til einstaklinga. Þar hefur flokka okkar t. a. m. greint mjög á, Sjálfstfl. og Alþb., þar ríkir grundvallarágreiningur um afstöðu til opinbers rekstrar og einkarekstrar þannig að það er ekkert nýtt. En í hv. Ed. endaði með því að allgóð samstaða náðist í lokaafgreiðslunni um þetta mál þar sem ég hygg að eingöngu hv. Alþb.-menn hafi greitt atkvæði gegn samningnum.

Rétt er að afhending fyrirtækisins hefur farið fram og hv. 5. þm. Austurl. segir að við, hið háa Alþingi, stöndum frammi fyrir gerðum hlut. Auðvitað hefur Alþingi vald til þess að breyta til og fella þennan samning og þá ganga kaupin til baka. En ég bendi á að í hvert eitt skipti sem hið háa Alþingi stendur frammi fyrir brbl. t. a. m. þá stendur það frammi fyrir gerðum hlut. Vegna þess að Alþingi var ekki viðlátið, voru ekki tök á því að bera samninginn undir hið háa Alþingi nema með þessum hætti þannig að ég verð að álíta að þetta sé svipuð aðferð og þegar sett eru brbl. um mál. Það hefði vafalaust verið gert ef slíkur gerningur hefði verið gerður á miðju ári utan þingtíma.

Ég leit svo á að stjórn Lagmetisiðjunnar Siglósíld hf. hefði hætt störfum þegar leigukaupasamningurinn var gerður fyrir frumkvæði fyrrv. iðnrh. og fyrrv. fjmrh. En það má vera að þess hafi ekki verið nægjanlega gætt að hún var þó til að nafninu til og því e. t. v. ástæða til að taka upp viðræður við hana. Bæjarstjórninni var kynnt þetta mál í byrjun janúar og henni sendur samningurinn, en úr þeirri átt hefur engin athugasemd borist. Ég fullyrði af allnáinni þekkingu minni af högum fyrirtækisins Þormóðs ramma að þeim var ekki fært að framkvæma þær endurbætur sem nauðsynlegar voru til þess að Lagmetisiðjan Siglósíld gæti haldið starfsemi sinni áfram. Ég er sannfærður um að ef fyrirtækið hefði verið áfram í umsýslu Þormóðs ramma hefði það lagt upp laupana óðar í bili. Það var ekkert nýtt fyrirbrigði að berjast um af hálfu stjórnvalda á hæl og hnakka að halda uppi atvinnu hjá þessu fyrirtæki og það þekkir hv. fyrirrennari minn af nokkurri raun.

Þess vegna er það að þegar þessir aðilar, allsterkir aðilar, komu til skjalanna, einnig utanbæjarmenn, taldi ég rétt að róa á þessi mið. Það á að vera nægjanlega tryggilega frá því gengið að þetta fyrirtæki verði staðsett í Siglufirði, ég er í engum vafa um það, ég tek þá gerninga gilda sem um það fjalla. Raunin varð sú að miklu meira þurfti til í viðgerðarkostnað og endurbætur en menn gerðu ráð fyrir þegar þessi samningur var gerður.

Um verðið er það að segja að þegar leigukaupasamningur var gerður milli Þormóðs ramma og Lagmetisiðjunnar Siglósíldar má lesa út úr 7. gr. þess gernings nokkurn veginn þetta kaupverð sem samið var um, 18 milljónir kr. Við erum þá einvörðungu að þrætast á um að engin útborgun varð við kaupin. En þá skýringu gef ég að vegna hins erfiða og ömurlega ástands sem fyrirtækið var í þótti nauðsyn til bera að veita þeim þessa ívilnun, að gefa eftir það sem áformað hafði verið um 20% útborgun þegar menn auglýstu vilja sinn í að selja ríkisfyrirtæki og settu þann ramma, sem auðvitað var lauslegur, um þau áform.

Þetta er af þessu að segja. En ég held að það muni sýna sig að þetta hafi verið það ráðið sem best mun gefast til þess að starfræksla verði í fyrirtækinu og verði atvinnulífi í Siglufirði veruleg lyftistöng.