02.04.1984
Neðri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4341 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú tekið undir viss atriði í minni gagnrýni í sambandi við undirbúning málsins. Ég vil nefna það af því að hann ræddi um að sett hefðu verið brbl. um þetta mál ef að þessum samningi hefði verið staðið á miðju ári. Það skil ég vel og hefði e. t. v. ekki verið útilokað að nauðsyn hefði borið til þess að standa þannig að máli. En kaupsamningurinn er nú gerður á þeim tíma þegar þing situr, eða 17. desember, og ekki hefði verið óeðlilegt að liður í því máli hefði verið að leggja þetta frv. fyrir þingið í tengslum við þá gjörð þegar þingið sat einnig. Gegnir þar nokkuð öðru en ef mál hefði borið að t. d. skömmu eftir að þingi hefði lokið og brýn nauðsyn hefði verið talin til þess að standa að slíkum gjörningi.

Ég ætlaði hins vegar fyrst og fremst að gera að umtalsefni það sem hæstv. ráðh. talaði um ágreining milli Alþb. og Sjálfstfl. um eignaraðild að fyrirtækjum. Um það mætti margt segja. sem kunnugt er er það stefna Sjálfstfl. nú, að meiri hluta a. m. k., að bjóða útlendingum til áhætturekstrar hér á landi þegar um stórfyrirtæki er að ræða. Því er Alþb. algerlega andvígt og telur að það hljóti að koma í hlut íslenska ríkisins að vera forgönguaðili og forráðaaðili sem meirihlutaeigandi að slíkum fyrirtækjum.

En varðandi hin minni fyrirtæki er stefna Sjálfstfl. ekki ýkja skýr og ekki ýkja trúverðugt það sem skilja mátti á hæstv. ráðh. Ég veit ekki betur en Sjálfstfl. hafi iðulega beitt sér fyrir því að ríkið hlypi undir bagga með einkarekstri þegar á hefur bjátað í fyrirtækjum eins og dæmi eru um, t. d. Álafoss, Norðurstjarnan í Hafnarfirði og þann lista mætti lengja talsvert. Ég man ekki hvort þessi fyrirtæki eða hlutur Framkvæmdasjóðs í þeim er á söluskrá hæstv. fjmrh. eða hvort iðnrh. hafi eitthvað gefið í skyn þar að lútandi. Ekki kæmi það út af fyrir sig á óvart, einkum ef miðað er við að þessi rekstur gengur nú býsna vel, að ég best veit, m. a. í krafti þeirrar launalækkunar sem ríkisstj. hefur knúið fram.

Það virðist sem sagt vera sjónarmið Sjálfstfl. þegar um er að ræða meðalstór fyrirtæki að ríkið eigi að hlaupa undir bagga ef eitthvað blæs á móti hjá einkafjármagninu, en síðan eigi einkafyrirtækin að fá að fleyta rjómann ef úr rætist. Það er einnig það sem manni sýnist að sé á bak við það frv. sem hér er um að ræða. Í því sambandi bendi ég á að þrír af hluthöfum, sem eiga 40% í þessu fyrirtæki skv. kaupsamningi, eru vel kunnugir rekstri þess, voru starfandi við Lagmetisiðjuna Siglósíld og hjá Þormóði ramma og ættu að geta gert sér grein fyrir því hvaða horfur eru um afkomu þessa fyrirtækis miðað við stöðu þess og yfirtöku skv. þessum kaupsamningi. Þessar athugasemdir vildi ég gera, hæstv. forseti.