02.04.1984
Neðri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4346 í B-deild Alþingistíðinda. (3716)

256. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af aths. hv. síðasta ræðumanns. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að gera svæðisnefndum fært að ráða heilbrigðisfulltrúa skv. lögum þannig að þær geti lagt á eftirlitsgjöld til að halda uppi þeirri starfsemi sem lögin gera ráð fyrir. Í öðru lagi er um að ræða, og þá sérstaklega og einkum hvað snertir matvælarannsóknir, að það er meinað skv. lögunum frá 1936 að taka gjald fyrir matvælarannsóknir, en þannig er að Matvælarannsóknum búið og hefur verið búið frá fyrstu tíð að þær anna ekki með þeim mannafla sem er nema takmarkað nauðsynlegum matvælarannsóknum. Því er eðlilegt að hafður sé einhver hemill á. Þegar sami aðili sendir mjög mörg sýni svo jafnvel Matvælarannsóknum þykir nóg um, þá verður að segja: Við skulum afgreiða og rannsaka þessi sýni, en þegar komið er yfir ákveðið hámark verður að greiða fyrir það.

Þetta er nákvæmlega sama stefna og hefur verið tekin upp í nágrannalöndunum og nú nýlega í Noregi, svo að ég fellst alveg á þetta sjónarmið.

Varðandi geislavarnirnar vill svo til að ég átti sæti í stjórn þeirrar stofnunar eftir að lögin tóku gildi og var því þátttakandi í mótun á störfum stofnunarinnar. Ég verð að segja það, og ég hygg að ég megi segja það fyrir hönd allra þeirra sem voru í stjórn, að það kom strax í ljós að geislavarnirnar áttu ekki nema mjög takmarkaða samleið með mengunardeildinni. Þær hafa í raun og veru verið utan við hana þó að innan sömu deildar séu. Það hefur komið mjög ákveðið fram beiðni um að geislavarnirnar væru gerðar að algjörlega sjálfstæðri stofnun og slitnar úr tengslum við Hollustuvernd ríkisins. Ég vil fyrir mitt leyti ekki ganga lengra en þetta frv. gerir ráð fyrir að láta reyna á hvort þær geti ekki verið undir sömu yfirstjórn og aðrar deildir, en ég tel tvímælalaust vera rétt að gera þessa deild sjálfstæða.

Síðustu aths. hv. þm. voru um Áfengisvarnaráð og jafnvel tóbaksvarnir. Erfitt virðist vera að koma Áfengisvarnaráði og starfsemi þess þarna inn. Hefur komið í ljós áhugaleysi á báða bóga, og hefur þar ekki hallast á, um að taka áfengisvarnirnar inn í þessa stofnun. Tóbaksvarnir hafa ekki verið þar. En í sambandi við tóbaksvarnir og það sem hefur verið gert í þeim málum að undanförnu hef ég þetta að segja: Fyrst höfðu tóbaksvarnir ákveðinn tekjupóst af seldum sígarettum. Þessi markaði tekjupóstur var af lagður með flutningi fyrsta frv. um tóbaksvarnir, sem mig minnir að sé frá 1977, en þá gegndi ég sama ráðherraembætti og ég gegni nú og féllst þá á við þáv. fjmrh., sem var mjög andvígur mörkuðum tekjustofnum eins og margir þm. eru, en það hefur aldrei verið mér heilagt mál, að falla frá því gegn því að ákveðin lágmarksgreiðsla yrði tekin inn af fjárlögum. Þetta var gert fyrsta árið og sennilega annað, en eftir það fór sú greiðsla að lækka þannig að þeir sem við tóbaksvarnir fengust hafa búið í algjöru svelti. Við afgreiðslu fjvn. á fjárlagafrv. voru einnig lækkaðar tekjur Hollustuverndarinnar til áfengisvarnamála eða nánar tiltekið færðar til annarrar starfsemi. En það sem verra var: þessar fjárveitingar fóru aldrei til hollustuverndar, heldur var starfsemi þeirrar stofnunar skert sem þessari upphæð nemur.

Margt bendir til þess að þessar tvær greinar, Áfengisvarnaráðið og tóbaksvarnirnar, ættu að vera með líkum hætti og verið hefur. Hins vegar tek ég undir orð hv. þm. í þeim efnum að gert er ráð fyrir að samræma skyldar stofnanir og starfsemi þeirra og ákvæði eru í lögum um það. Það er að mínum dómi brýn þörf á að fara að hefja undirbúninginn að þeirri samræmingu og láta ekki tvíverknað tíðkast víða. Lögin um Hollustuvernd og Vinnueftirlit eru merkar lagasetningar, en engin lagasetning er það fullkomin að hana þurfi ekki að endurskoða. Ég tel að þar megi margt betur fara sem yrði ódýrara. En fyrst og fremst þurfa þeir sem að þessum málum starfa á báða bóga að vera opnir fyrir breytingum sem auka á hagræði og spara fjármagn.