02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér aðeins hljóðs til að fagna þessu frv. Það kemur væntanlega til n. sem ég á sæti í og þar verður um það fjallað. Skal ég þess vegna ekki hafa um þetta ýkja mörg orð en aðeins benda á að það hefur verið tíðkað hér, ekki síst á síðustu árum, að taka gífurlegar fjárhæðir að láni erlendis, venjulega í dollurum eða einhverri mjög harðri mynt, eins og það er kallað. Vextir hafa þá verið raunvextir, væntanlega svona á bilinu 10–15%. Við höfum sem sagt leyft Aröbum og Ameríkumönnum að fjármagna framkvæmdir á Íslandi með geysilega dýrum peningum. Hins vegar hefur engum Íslendingi verið gert kleift að ávaxta sitt fé með svipuðum hætti. Þetta er auðvitað búið að kosta okkur gífurlegar fórnir og við erum að súpa af því seyðið nú. Það er ekki vafi á því að ef Íslendingum hefðu boðist svipuð lánskjör og erlendum mönnum hefði mikið fé sparast í þessu þjóðfélagi og þá horfði margt til betri vegar hér en raun ber vitni.

Nú halda sumir því fram að ríkissjóður eigi ekki að keppa við atvinnuvegi og einstaklinga á lánamarkaði. En mín skoðun er sú, að það sé ekki um raunverulega samkeppni að ræða, því að ef hér verður verðbréfamarkaður, sem hlýtur að koma í kjölfar þess að svo og svo mikið er af spariskírteinum eða ríkisskuldabréfum á markaði, þá eru þessi bréf einmitt peningar, því að peningar eru, þegar allt kemur til alls, nákvæmlega ekki neitt annað en ávísanir á verðmæti. Það sem gerist er það að borgararnir fá örlitla ávísun á verðmæti ríkisins, þau gífurlegu auðæfi sem ríkið á þar sem eru allar opinberar byggingar, vegir, flugvellir, hafnir, hvers kyns mannvirki, öll orka landsins, hafið sjálft o.s.frv. Það eina sem gerist er það að borgararnir fá, þeir sem hafa til þess fjárráð, örlitla ávísun á þessi miklu auðæfi.

Það er nú einu sinni svo, að þau ríki sem lengst hafa náð í veraldlegum efnum upp á síðkastið, eins og Bandaríkin, Vestur-Þýskaland og einkum og sér í lagi Japan, gera þetta í mjög ríkum mæli. Ég hygg að í Japan sé gengið lengst í þessu. Þar eru fjárlög yfirleitt fjármögnuð með ríkisskuldabréfum í svo ríkum mæli að nemi í kringum 6% af þjóðartekjum á hverju ári, ekki 6% af fjárlögum, heldur af þjóðartekjum. Þetta er undirstaða þeirrar gífurlegu velmegunar sem er nú orðin í þessu fjarlæga landi, sem var örsnautt, og því sem kallað hefur verið fjárstjórn fjöldans eða auðstjórn almennings, þ.e. borgararnir eiga ekki einungis sitt húsnæði, heldur eiga þeir líka hluti í almenningshlutafélögum og nokkra innistæðu hjá ríkinu sem verður undirstaða efnahagsöryggis.

Ég vænti þess að þetta frv. fái greiðan gang í gegnum þessa hv. deild.