02.04.1984
Neðri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4347 í B-deild Alþingistíðinda. (3720)

141. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 182 flyt ég ásamt hv. þm. Páli Péturssyni frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 14. sept. 1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Það er æðilangt um liðið síðan þetta frv. var fram lagt og ég var satt að segja orðinn úrkula vonar um að nokkurn tíma kæmi að því, þó að hér sé búið að afgreiða allmörg mál sem fram hafa verið lögð miklu, miklu síðar en þetta. En nú er stundin komin og væntanlega fá menn nægan tíma til að ræða málið þegar það kemst á dagskrá. (ÓÞÞ: Sjö mínútur.) Hv. skrifari ræður ekki mestu um það, sem betur fer, það eru aðrir sem þar stjórna.

Þetta frv. er eins og áður sagði um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt og er aðeins í þremur greinum. 1. gr. gerir ráð fyrir þeirri breytingu að í 7. tölul. 28. gr. núgildandi laga verði bætt við þá afsláttarliði sem þar eru að orkustyrkur sé frádráttarbær frá skatti. Hér er um að ræða nauðsynlega aðgerð að okkar viti, flm., til að koma til móts við það fólk sem ber hvað mestar byrðar og þyngstar og borgar þúsundir króna mánaðarlega til upphitunar eigin íbúða.

Í 2. gr. segir, að á eftir 68. gr. laganna komi ný grein er verði 68. gr. a og orðist svo:

Orkustyrkur. Ríkissjóður skal greiða orkustyrk til manna sem skattskyldir eru skv. 1. gr.

Skal orkustyrkur nema 35% af sannanlegum beinum kostnaði manns á tekjuárinu við orkukaup til heimilisþarfa, svo sem kaup á orku til upphitunar íbúðarhúsnæðis til eigin þarfa og kaup á orku til ljósa og eldunar á heimili. Skal styrkurinn ákveðinn af skattstjóra á grundvelli framlagðra orkureikninga. Kaupi maður jafnframt orku til annarra þarfa en heimilisþarfa, t. d. vegna atvinnurekstrar, getur skattstjóri áætlað heimilisnot með hliðsjón af stærð húsnæðis og tegund orkugjafa. Ef hjón, sbr. 63. gr., eiga í hlut skal orkustyrkur greiddur því hjóna sem hærri tekjur hefur skv. 1. tölul. 63. gr.

Orkustyrkur greiðist út til skattaðila að því marki sem eftirstöðvum nemur þegar frá hafa verið dregnar greiðslur eftirtalinna opinberra gjalda hans í þessari forgangsröð:

1. Tekjuskatts sem á er lagður vegna tekjuársins skv. 67. gr.

2. Annarra þinggjalda sem á eru lögð vegna tekjuársins.

3. Ógoldinna þinggjalda frá fyrri árum.

4. Útsvars sem á er lagt vegna tekjuársins.

5. Aðstöðugjalds sem á er lagt vegna tekjuársins.

6. Ógoldins útsvars og aðstöðugjalds frá fyrri árum.

7. Annarra gjalda eða skatta en hér eru tilgreindir, að ákvörðun fjmrh.

Þar sem innheimta þinggjalda og gjalda til sveitarsjóðs er sameiginleg er fjmrh. heimilt að kveða svo á í reglugerð að þinggjöld og gjöld til sveitarsjóðs skuli vera samhliða í forgangsröðinni. Þá getur ráðh. með reglugerð kveðið á um að útborgunarlegur orkustyrkur skiptist til greiðslu á fleiri en einum útborgunardegi.

3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1984 vegna tekna ársins 1983 og eigna í lok þess árs.

Þetta frv. er flutt efnislega svo til óbreytt frá því frv. sem hér var flutt á síðasta Alþingi og náðist þá nokkuð rík samstaða um. Æðimargir flm. stóðu að því þá, en hafa nú helst úr lestinni því miður. Hverra orsaka vegna veit ég ekki.

Hér er um það að ræða, og þarf ekki að greina frá því hér, svo miklar umræður hafa átt sér stað, að jafna og minnka þann gífurlega kostnað af orku og sérstaklega upphitun íbúðarhúsnæðis á hinum köldu svæðum svokölluðu. Raunar þolir það mál enga bið. Menn hefur greint á um leiðir að þessu marki og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Hér er lögð til sú leið að þetta verði gert eins og margt annað í gegnum tekjuskattsþáttinn, þannig að þeir aðilar sem borga mest vegna þessa kostnaðarþáttar fái mestan frádrátt. Hér er ekki verið að hygla einum eða neinum umfram annan, hér fengju allir greitt í samræmi við það sem þeir þyrftu til að kosta vegna þessa þáttar heimilishaldsins.

Ég held að það sé tími til kominn fyrir menn að gefa því frekari gaum hversu gífurlega mikilvægt og stórt mál er hér á ferðinni. Það linnir ekki ályktunum og samþykktum félagasamtaka, undirskriftalistum ýmissa hópa víðs vegar að af landinu á þeim svæðum sem eru nú að kikna undan þessari byrði. Ég hef hér í höndum samþykktir frá bæjarstjórnum, sveitarstjórnum, undirskriftaskjöl frá íbúum á Vestfjörðum sem hundruðum skipta, sem skora á Alþingi að standa við marggefin fyrirheit, marggefnar yfirlýsingar í þá átt að minnka þennan gífurlega kostnaðarþátt launafólks í heimilishaldinu. Lítið hefur áorkast í þeim efnum þrátt fyrir margítrekuð og gefin loforð.

Það skal þó tekið fram, eins og væntanlega öllum er kunnugt hér, að þeir hæstv. ráðh. sem sitja hér samhliða á vinstri hönd gáfu út yfirlýsingu og tilkynningu fyrir nokkrum dögum þar sem gefið var í skyn að að hluta til a. m. k. yrði hreyft við þessu máli. Það skal ekki vanþakkað, síður en svo, en eigi að síður er það svo lítið skref og kemur það seint til svo fárra að ekki verður undan því vikist að taka miklu stærra skref en hér um ræðir og það strax. Ég hef áður og margir aðrir vikið að því ítrekað í umræðum á Alþingi að með því ástandi sem átt hefur sér stað, hefur verið að þróast og er að þróast, þá sé verið að leggja upp í meiri tilfærslu og flutning á fólki úr strjálbýli til þéttbýlis en nokkurn tíma hefur gerst áður. Það er alvarlegt mál, ekki síst þegar um það er að ræða að gífurleg kjaraskerðing hefur átt sér stað á undangengnum mánuðum, — kjaraskerðing sem verður þess valdandi að þeir launþegar sem við þetta búa eru enn verr í stakk búnir til að standa undir þeim gífurlegu byrðum sem þarna er um að ræða.

Ég minntist áðan á ýmsar yfirlýsingar, bæði hæstv. núv. ráðh. og ekkert síður hæstv. fyrrv. ráðh., sem lítið kom út úr. Ég minni á að rétt fyrir fjárlagaafgreiðslu í desembermánuði kvaddi ég mér hljóðs utan dagskrár á Alþingi til að spyrja hæstv. iðnrh. um hvað hann hygðist gera í þessu mikla máli við afgreiðstu fjárlaga. Hæstv. iðnrh. lýsti þá yfir að ríkisstj. hefði ákveðið að lagt yrði fram frv. á fyrstu dögum þings. Ég hélt að hæstv. iðnrh. yrði skjótari til að ná vopnum sínum í þessu máli en mér sýnist raun bera vitni því að enn veit ég ekki til að komið sé frv. að því er þetta varðar. (Iðnrh.: Kemur á morgun.) Kemur á morgun, segir hæstv. iðnrh. En nú er komið á þriðja mánuð síðan þing kom saman aftur og loforðið var: á fyrstu dögum þingsins.

Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég vonaði lengi vel og er ekki enn úrkula vonar um að hæstv. iðnrh. hristi upp í þessu máli og léti hendur standa fram úr ermum og næði vopnum sínum fyrr en seinna til að koma á meira réttlæti en við nú búum við og hefur ríkt undangengin ár. Því hefur margoft verið lofað og ætti ekki að þurfa að ítreka það. Því hefur margoft verið lofað að skila andvirði þess tekjustofns sem orkujöfnunargjaldið var á sínum tíma og er og var ætlað með samþykki allra alþm. á þeim tíma til að jafna þessar byrðar — skila andvirði þessa gjalds til réttra aðila. Í ár mun gert ráð fyrir að það fé nemi 470 millj. kr. sem ætti að geta farið til að létta þessar byrðar. Þó vildi ég a. m. k., og ég þykist vita að svo sé um fleiri hér inni sem betur fer, að lengra væri gengið í þeim efnum því að byrðarnar eru svo þungar hjá þeim sem verst eru settir að þeir rísa ekki undir þeim þó að þessu gjaldi yrði skilað til þeirra sem réttra aðila.

Ég hygg að það sé svo um fleiri þm. en mig að nú nánast rignir yfir þá samþykktum og ályktunum þar sem þess er krafist af íbúum þessara svæða að . . . (Forseti: Forseti vill fara fram á það við hv. þm. að hann fresti ræðu sinni þar til síðar. Fundartíminn er nú nánast liðinn og það eru nokkrar atkvgr. eftir sem forseti hafði hugsað sér að færu fram áður en þessum fundi lyki.) Veit hæstv. forseti nokkuð hvað „síðar“ þýðir? (Forseti: Forseti veit það ekki á þessari stundu, en hann vonar að það verði ekki mjög langur tími sem líður. Vildi hv. þm. verða forseta til liðsinnis í þessu efni?) Ég verð að sjálfsögðu forseta til liðsinnis í þessu sem og öðru. Við stjórnarandstæðingar höfum tekið þátt í miklum hildarleik hér til að koma ýmsum málum á framfæri og í gegn fyrir hæstv. ríkisstj. Ég vænti þess að það verði þá goldið líkt með líku, þannig að stjórnarliðar verði samvinnufúsir að koma þessu máli vel til skila. (Forseti: Ég þakka hv. flm. fyrir liðveisluna.)