03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4361 í B-deild Alþingistíðinda. (3732)

241. mál, rekstur grunnskóla

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin, sem voru kannske ekki nákvæmlega í samræmi við fsp., þannig að fram kæmi nákvæmlega það sem spurt var um, hver kostnaður við rekstur grunnskóla væri í einn mánuð skólaársins, heldur voru gefnar heildartölur. Miðað við þær tölur mætti ætla að kostnaður ríkisins við rekstur grunnskóla í einn mánuð á ári að frátöldum launum fastráðins starfsfólks væri í kringum 60 millj. kr. og kostnaður sveitarfélaga um eða nálægt helmingur þeirrar fjárhæðar. Hér er því ljóst að það veltur á töluverðum fjárhæðum hvort ákveðið er að grunnskóli starfi mánuði lengur eða skemur á skólaárinu. Ég hygg að ástæða sé til að gera úttekt á því á hvern veg þetta hefur verið framkvæmt í hinum einstöku fræðsluumdæmum og miðað við þá úttekt að gera sér grein fyrir því hvort rétt sé að málum staðið, hvort ástæða sé til að lengja skólatímann á ári hverju á einstökum stöðum eða hvort ástæða sé til að samræma hann og stytta sums staðar þar sem skóli hefur verið rekinn í níu mánuði.

Varðandi 4. lið fsp., um að á síðasta ári hafi verið varið 25 millj. kr. úr ríkissjóði til forskóla og 31 millj. kr. sé áætlað að verja til þessarar starfsemi á þessu ári, skal ég ekki fara orðum. Þessar upplýsingar liggja fyrir og þakka ég fyrir það.

Varðandi 3. lið fsp., sem hæstv. ráðh. gerði hér að umtalsefni, vil ég segja að svör ráðh. birtu að þetta ákvæði grunnskólalaga hefur ekki verið framkvæmt og ráðh. taldi vafasamt að það væri framkvæmanlegt eða raunar líklegt að það væri ekki framkvæmanlegt. Hið sama kom fram í máli hv. 5. þm. Austurl., sem hér talaði einnig. Mér leikur nokkur forvitni á, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að vita á hvern veg þetta hefur verið framkvæmt vegna þeirrar miklu umræðu sem fram fór um þetta efni þegar grunnskólalögin voru sett og þeirra fullyrðinga, sem þá voru fram settar af þeim sem mæltu fyrir þeirri lagasetningu, að hér væri stefnt í þá átt, eins og ákvæði laganna gefa raunar tilefni til að ætta, að heimilt væri að meta þátttöku í atvinnulífi sem verklegt nám í grunnskóla. Ég hlýt að harma að ekki hafi fundist leiðir til að framkvæma þetta ákvæði í grunnskólalögum og vænti þess að það verði leitast við að vinna að því. Ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt, miðað við þann langa starfstíma sem grunnskóli starfar, að leitast við að tengja grunnskólanemendur atvinnulífinu á sem bestan máta. Ég tel það afar mikilvægt að kynna nemendum á grunnskólaaldri allt til 15 ára aldurs atvinnulíf þjóðarinnar og tengja nemendur atvinnuháttum þjóðfélagsins, og það er þýðingarmikið uppeldisatriði ekki síður en skólanám að nemendur og æskufólk öðlist sem besta þekkingu á helstu atvinnuháttum þjóðarinnar, það mun skila sér þó seint verði, — ekki síður en til að mynda nám í islam og öðrum slíkum fræðum framandi trúarbragða sem kennd eru í grunnskóla þar sem öll trúarleg hugtök eru á frummálinu arabísku.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem mér voru gefin.