03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4362 í B-deild Alþingistíðinda. (3733)

245. mál, útflutningur dilkakjöts

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt um er á hverju ári varið úr ríkissjóði verulegum fjárhæðum í útflutningsbætur vegna landbúnaðarafurða, m. ö. o. stórar fjárhæðir af skattpeningum landsmanna fara til að greiða niður landbúnaðarafurðir sem fluttar eru til útlanda. Á fjárlögum ársins 1983 var þessi fjárhæð 262.6 millj. kr. og á fjárlögum þessa árs 280 millj. kr. og eru reyndar áhöld um hvort hún dugi miðað við áættaða útflutningsþörf. Þegar haft er í huga hversu hér er um háar fjárhæðir að ræða er nauðsynlegt að hv. Alþingi og reyndar þjóðin öll fylgist mjög nákvæmlega með því hvernig þessu fé er varið og hvaða reglur gildi um greiðslur á því. Því þótti mér rétt að bera fram fsp. um þetta efni til hæstv. viðskrh., en viðskrn. hefur umsjón með þessum útflutningi.

Í annan stað er rétt að geta þess að við og við koma upp umr. í þjóðfélaginu um það að einkaaðilar séu að reyna að hasla sér völl í þessari grein útflutnings og þá er leitað eftir sem hagstæðustu verði. Einhvern veginn virðist það allt of oft gerast að ef einstaklingar nái að gera sölusamninga gufi allt kjöt upp og aðalsöluaðilinn, sem er búvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga, telji sig búinn að ráðstafa öllu sem til ráðstöfunar sé. Er skemmst að minnast umr. um þetta efni fyrir stuttu um sölusamninga einkaaðila á Bandaríkjamarkaði og enn nýrri umr. um þetta efni í framhaldi af bændafundi sem haldinn var í Suður-Þingeyjarsýslu ekki alls fyrir löngu. Með ofangreind atriði í huga hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 441 svofelldar fsp. til hæstv. viðskrh.:

1. Hve mikið var flutt út af dilkakjöti á s. l. ári og hve mikið er áætlað að flytja út á þessu ári?

2. Hvaða verð fékkst fyrir kjötið pr. kíló, sundurliðað eftir löndum sem flutt var til og um hvaða verð hefur verið samið á þessu ári og hvenær voru þeir samningar gerðir?

3. Hvað var greitt í útflutningsbætur með hverju kg á s. l. ári?

4. Hverjir önnuðust þennan útflutning, sundurliðað eftir fyrirtækjum og magni?

5. Hvernig er háttað söluþóknun, þ. e. hversu mikil er hún og við hvaða verð er miðað?