03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4363 í B-deild Alþingistíðinda. (3735)

245. mál, útflutningur dilkakjöts

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. svör hans við fsp. Þetta eru ítarleg svör og fullnægjandi. Hins vegar eru í þessum svörum nokkur atriði sem vekja athygli og vekja til nokkurrar umhugsunar. Í fyrsta lagi er það staðfest í þessum svörum, sem oft hefur reyndar verið rætt um, að búvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga hefur nánast einokun á þessum útflutningi. Það er mjög athyglisvert að ræða við einstaklinga sem leitast við að hasla sér völl í þessari grein. Það kemur í ljós í þeim viðræðum að ótrúlega erfitt er að komast í gegnum kerfið til þess bæði að fá kjöt til útflutnings og leyfi til slíks útflutnings. Það virðist eins og allt kerfið sé byggt upp með það fyrir augum að vernda þá einokun sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur á þessum markaði. Ég tel að það beri brýna nauðsyn til að bæta þar úr.

Í öðru lagi vekur athygli hvernig reglurnar um söluþóknun eru ákveðnar. Fram kom í svari hæstv. viðskrh. að reiknuð er 2% söluþóknun af óniðurgreiddu heildsöluverði óháð því hvaða verð fæst fyrir kjötið á hinum erlendu mörkuðum. M. ö. o. söluaðilinn fær sitt alveg á þurru nákvæmlega sama hvaða verði hann selur kjötið á. Inni í þessu kerfi er sem sagt engin hvatning til þess að reyna að ná sem bestu verði á hinum erlendu mörkuðum. Jafnvel má segja að inni í kerfinu sé frekar dregið úr þessari hvöt því að eins og háttað er verði fyrir geymslu á kjötinu í frystigeymslum liggur við að frekar borgi sig fyrir aðilana að geyma það sem lengst í frystigeymslum en að selja það erlendis og reyna að ná fyrir það sem bestu verði.

Ég hygg að þau svör sem hér hafa komið fram staðfesti það sem oft er rætt um að hvorki hagsmunum skattborgaranna né bænda er borgið með því sölukerfi sem nú ríkir í þessum efnum. Ég tel að taka þurfi til gagngerðrar endurskoðunar þetta sölukerfi og er spurning hvort ekki þurfi að hreyfa því frekar hér á Alþingi í framhaldi af þessum svörum. Taka þarf þetta kerfi til gagngerðrar endurskoðunar. Það þarf að losa um þá einokun sem hér er á ferðinni. Byggja þarf upp kerfi sem hvetur söluaðilana til þess að fá sem best verð fyrir vöruna erlendis og líka þarf að huga betur að því en gert er hvernig hægt er að fá sem best verð, þ. e. hvort ekki borgi sig að vinna kjötið meira í neytendaumbúðir hér á landi frekar en selja það út í heilum skrokkum eins og gert hefur verið í mjög ríkum mæli.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir svörin við fsp., en tel að þau gefi tilefni til miklu ítarlegri umr. hér á þingi síðar sem ekki er hægt að koma við í fyrirspurnatíma eins og þessum.