03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4364 í B-deild Alþingistíðinda. (3736)

245. mál, útflutningur dilkakjöts

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið en mér fannst mega misskilja orð hv. fyrirspyrjanda, 4. þm. Reykv., um það að einokun væri á útflutningi. Eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh. eru það fleiri en einn aðili sem hafa annast þennan útflutning, þó að að langmestu leyti hafi það verið á höndum eins aðila. En það sýnir að þeir sem geta selt kjöt á viðunandi verði fá til þess leyfi og slíkt er ekki stöðvað. Auðvitað er spurning um það verð sem fæst fyrir vöruna. Það verður að huga að því að finna þær skástu leiðir sem hægt er að fara í þessu þannig að sem minnst þurfi að greiða af útflutningsuppbótum.

Ég vil taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að það er nauðsynlegt að vinna að því eins og kostur er að fá hærra skilaverð til bóndans með því að flytja kjötið út unnið. En því miður hafa margar tilraunir, sem gerðar hafa verið í þessu skyni, ekki borið nægilega góðan árangur þannig að endanlegt skilaverð til bóndans hefur orðið lægra með því móti. En ég vil undirstrika það að það þarf að vinna betur að þessu og það er gert af fleiri en einum aðila. Og á vissum sviðum hefur orðið nokkur árangur, t. d. með því að hluta kjöt í sundur og flytja einn hluta skrokksins til eins lands og annan hlutann til annars. En ég hygg að ekki standi á leyfum frá viðskrn. eða öðrum aðilum ef um er að ræða að markaður sé talinn viðunandi miðað við það sem annars staðar er að fá.