02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil reyna að svara þeim tveimur spurningum sem hv. 5. þm. Vesturl. beindi til mín varðandi ríkissjóðsvíxla. Ríkissjóðsvíxlarnir eru ekki öðruvísi en venjulegir víxlar sem gefnir eru út að öðru leyti en því að það er fjmrh., ég reikna þá með í samráði við ríkisstj., sem tekur ákvarðanir um það hverju sinni hvaða vaxtakjör verða í boði. Og þá er miðað við samkv. þessu frv. að vextirnir verði alltaf ívið hærri en vextir almennt eru á hinum hefðbundna markaði.

Í öðru lagi er spurt um markaðslögmál. Markaðslögmál, það er bara framboð og eftirspurn. Og það getur verið að markaðslögmálið þýði það að vextirnir verði kannske að vera lægri, ég gæti hugsað mér að það verði um afföll að ræða, ég útiloka það ekki neitt, það eru markaðslögmálin, þannig að fólk geti tekið ákvarðanir um það hvort það hefur hag af því að kaupa þessa víxla á því verði sem þeir standa í, með þeim vöxtum sem ríkisstj. eða fjmrh. ákveður hverju sinni. Eða, ef það reynist ekki markaður fyrir þá, ekki kaupendur að þeim, þá ráði markaðslögmálið hvort þeir eru seldir eitthvað undir þeim vaxtakjörum sem ríkisstj. eða fjmrh. hefur ákveðið. Þetta eru nú helstu atriðin. Ég vona að ég hafi svarað spurningunni nokkurn veginn.