02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í þessu frv. er gerð tilraun til að afla innlends fjármagns til að hjálpa til við að leysa þann gífurlega húsnæðisvanda sem hluti þjóðarinnar býr nú við. Ég held að það sé ákaflega virðingarverð tilraun. En mig langar til þess að beina því til hv. þm. í þessari deild hvort hér gæti ekki verið um óhóflega bjartsýni að ræða, hvort það sé í raun og veru hægt að ætlast til þess að fólk hafi bolmagn til að kaupa þessi verðbréf við núverandi efnahagsástand. Mig langar í því sambandi einnig að minna á það að í dag, á tímum ört hjaðnandi verðbólgu, eru ríkisskuldabréf ekki eins álitleg fjárfestingarleið og þau áður voru.

Mig langar því til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi einhverjar aðrar lausnir á takteinum við að afla fjár fyrir húsbyggjendur, ef þessi reynist árangurslítil, eins og verið gæti við núverandi efnahagsaðstæður.