03.04.1984
Sameinað þing: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4373 í B-deild Alþingistíðinda. (3755)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að gera að umræðuefni það alvarlega ástand í atvinnumálum sem þegar er orðið og ekki verður annað séð en að fari dagversnandi eins og útlitið er. Ég held að fleiri alþm. en mér sé svo farið að þeir hafi af því miklar áhyggjur hvernig þessi mál hafa þróast og virðast ætla að þróast, verði áfram haldið þeirri stefnu sem þegar hefur verið mörkuð. Ég tel þetta svo mikilvægt mál að það sé ótvíræð skylda Alþingis að gefa sér tíma til að fjalla um það og að það þoli ekki bið, heldur verði það að gerast áður en lengra gengur í þessa átt, ef á annað borð á að reyna að sporna við því og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ástandið versni frá því sem nú er.

Ég dreg enga dul á það að þær skuggalegu horfur sem nú eru í atvinnumálum og fara dagversnandi eru afleiðing þeirrar ákvörðunar meiri hl. Alþingis í desembermánuði að afsala sér svo ótvíræðu og mikilvægu valdi til hæstv. sjútvrh., nánast einræðisvaldi til að ákvarða stefnumörkun í fiskveiðum og ákvarða aflamagn sem veiða má. Um það getur vart verið ágreiningur að þetta er orsök þess ástands sem nú hefur skapast. Ég held að þó að sú kvótaskipting sem upp var tekin hafi átt sér nokkuð marga formælendur á þeirri tíð sem hún var ákveðin fari þeim nú fækkandi sem mæla með kvóta, a. m. k. í því formi sem hann hefur verið á settur og virðist eiga að reka hann.

Ég gerði tilraun í morgun til að fá um það tölulegar upplýsingar bæði í sjútvrn. og hjá Fiskifélagi hversu margir bátar það væru nú þegar sem stöðvaðir hafa verið vegna þess að þeir eru búnir að fiska sinn kvóta. Um það virðast ekki vera til neinar haldbærar upplýsingar, ekki tókst mér a. m. k. að fá þær en augljóst virðist vera af þeim fréttum sem borist hafa að um nokkra tugi báta er að ræða sem þegar hafa stöðvast vegna þess að þeir eru búnir að fiska upp í sinn kvóta. Þetta hefur gerst þegar aðeins þrír mánuðir af árinu eru liðnir. Enginn vafi er á því að á næstu dögum og vikum fer þeim bátum ört fjölgandi sem lagt verður við bryggju vegna þess að þeir eru búnir að fiska upp í þann kvóta sem þeim hefur verið ætlaður.

Hér spilar auðvitað ekki hvað síst inn í það aflamagn af þorski sem ákveðið hefur verið að leyfa á árinu 1984, 220 þús. tonn. Um það getur menn sjálfsagt greint á hvort sú tala er eðlileg undir þessum kringumstæðum. Allt bendir til þess það sem af er liðið árinu að þróunin hafi orðið mun jákvæðari að því er þennan fiskistofn varðar en menn gerðu ráð fyrir t. d. síðari hluta næstliðins árs. Öll aflabrögð og lífríki í sjónum benda til þess að horfur séu betri en fiskifræðingar töldu þá. Ég held ég hafi orðað það svo í umræðum um þetta alræðisvald til handa hæstv. sjútvrh. í fiskveiðum og raunar fiskvinnslu að ég teldi óumflýjanlegt, þrátt fyrir spá fiskifræðinga, að aflamagn þorsks yrði ekki undir 260–280 þús. tonnum á þessu ári. Ég sé ekki hvernig á að reka þetta þjóðfélag ef menn ætla að halda fast við þá ákvörðun sem tekin hefur verið um 220 þús. tonna aflamagn af þorski.

Nú er það augljóst mál að þessi ákvörðun, kvótaskiptingin og ákvörðunin um aflamagnið, kemur fyrst og harðast niður á sjávarplássum víðs vegar um landið. Hennar er þegar farið að gæta verulega t. d. á Snæfellsnesi. Þar bendir allt til þess að a. m. k. á annan tug báta séu þegar bundnir við bryggju vegna þessa. Greinilegt er að á Suðurnesjum stefnir í sama ástand innan tiltölulega stutts tíma og enginn vafi er á því að á Vestfjörðum, a. m. k. sunnanverðum, er stutt í það að svipað ástand komi upp. Allt bendir því til þess að óbreyttu að viðvarandi fjöldaatvinnuleysi verði komið hér á landi í svo til flestum landshlutum fyrir mitt ár, ef menn ætla að halda þeirri stefnu sem nú er uppi og ekki verður séð enn sem komið er að menn ætli að breyta.

Ég tel að stjórnvöldum og Alþingi beri skylda til að ræða þessi mál þegar svo alvarlega horfir sem raun ber vitni í dag og vitað er að fer versnandi ef ekki verður breytt frá þegar ákveðinni stefnu. Stjórnvöld hafa ekki leyfi til að halda að sér höndum. Ef þau ætta sér að halda við þennan ákvarðaða kvóta er augljóst að grípa verður til annarra ráðstafana þessu fólki og þar með þjóðarbúinu í heild til bjargar ef ekki er meiningin að láta hundruð ef ekki þúsundir manna ganga atvinnulausa um helming af árinu ef ekki meir. Allt stefnir í það að óbreyttu.

Mér vitanlega hefur ekkert komið frá hæstv. ríkisstj. sem bendir til breytingar frá boðaðri og samþykktri stefnu. Ég tel of seint að grípa til aðgerða þegar búið er að vera viðloðandi atvinnuleysisástand í mörgum sjávarplássum svo vikum eða jafnvel mánuðum skiptir, inn í þetta þurfi að grípa áður en slíkt ástand hefur skapast, ég tala nú ekki um þegar séð er fyrir að það gerist innan stutts tíma.

Ég á ekki von á því að hinn alræmdi kvóti verði afnuminn, því miður. En ég tel óumflýjanlegt að fá um það vitneskju frá stjórnvöldum hvað þau hafa í hyggju þar að lútandi eða á öðrum sviðum til bjargar því fólki sem nú er þegar atvinnulaust, og við horfum fram á að þar bætast stórir hópar við svo til dag frá degi.

Ég er ekki í neinum vafa um það að nú gæti vaxandi efasemda hjá mörgum þeim hv. þm. sem studdu með atkvæði sínu þá stefnu sem fylgt hefur verið og alræðisvald til handa hæstv. sjútvrh. Margir þeirra eru farnir að guggna á að réttlæta þá ákvörðun. Og aðrir einstaklingar í þjóðfélaginu, sem um þetta fjölluðu, fulltrúar hagsmunahópanna svokölluðu, eru líka farnir að efast um að hér hafi verið valin hin rétta leið miðað við þær kringumstæður sem um var að ræða. Ég tel því nauðsynlegt að fá um það vitneskju nú þegar hvað hæstv. ríkisstj. hyggst gera í þessu efni.

Ég hef kosið, herra forseti, að beina máli mínu til hæstv. forsrh. vegna þess að ég tel að hér sé fyrst og síðast um að ræða atvinnu- og efnahagsspursmál sem hann, sem heimilisfaðirinn á heimili hæstv. ríkisstj., hlýtur að svara fyrir. Auðvitað ber öll hæstv. ríkisstj. ábyrgð á þessu ástandi. En það er eðlilegt að mínu viti að það sé hæstv. forsrh. sem er spurður um hugsanlegar eða fyrirhugaðar aðgerðir hæstv. ríkisstj. í málinu eða hvort hæstv. ríkisstj. hyggst ekkert gera í því. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. í fyrsta lagi hvort uppi séu hugmyndir um að auka leyfilegt aflamagn af þorski, 220 þús. tonn, bæta þar við. Í öðru lagi, ef svo er, hvaða aflamagn menn séu þá hugsanlega um að tala. Og í þriðja lagi hvenær vænta megi vitneskju um hvort slíkt verður gert. Ég tel að það skipti miklu máli — og kannske meginmáli, ef slíkt er í bígerð, að það verði gert sem fyrst. Það hlýtur að vera öllum hlutaðeigandi aðilum til góðs að fá um það vitneskju sem fyrst ef fyrirhugað er að bæta við það aflamagn sem þegar hefur verið ákveðið.

Ef ekki liggja fyrir neinar hugmyndir hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum nú, ef hún heldur enn fast við fyrirhugað aflamagn, 220 þús. tonn, þá er ekki síður ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. hvaða ráðstafana ríkisstj. hyggist grípa til til að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi hér á landi a. m. k. upp úr miðju ári, ef ekki fyrr. Ég vil ekki trúa því að hæstv. ríkisstj. ætlist til þess að þeir einstaklingar sem hér eiga hlut að máli mæli götur meira en helming ársins á atvinnuleysisbótum. Ég held því að hæstv. ríkisstj. og raunar Alþingi sem heild verði að fara að taka til umræðu svo alvarlegt ástand sem hér um ræðir. Undan því verði ekki vikist. Það er ekkert lítið í húfi fyrir þjóðfélagið ef á að halda áfram að láta reka á þessari stefnu, að tugir eða hundruð fiskibáta verði bundnir við bryggjur fyrir mitt ár og liggi þar fram til áramóta. Þetta er ekki aðeins spurning um hagsmuni sjómanna, það er spurning um hagsmuni fiskvinnslufólks, það er spurning um hagsmuni bæjarfélaga, það er spurning um hagsmuni ríkisins alls, þjóðfélagsins sem heildar hvernig á þessum málum verður haldið. Mér finnst því, herra forseti, full ástæða til, og þó fyrr hefði verið, að hefja um það umr. hér á Alþingi hvert skuli stefna, hvort á að fylgja óbreyttri stefnu hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. eða hvort beygja skuli af frá því sem áður hefur verið ákvarðað. Hvort menn ætli sér virkilega að líða það ástand að fjöldaatvinnuleysi verði leitt yfir íslenskt þjóðfélag innan tiltölulega skamms tíma.

Annað, sem kannske er ekki beint tengt þessu máli en er þó angi þess að því er sjómennina varðar og snýr að hæstv. sjútvrh., sem ekki er hér til staðar, en sjálfsagt veit hæstv. forsrh. um það einnig, er að ofan á þetta ástand, að sjómenn hafa misst vinnu, bætist það að sjómenn fá ekki greidda fæðispeninga vegna þess að hér í þinginu liggur stjfrv., sem ekki hefur verið afgreitt, um breytingu á Aflatryggingasjóði. Ég vil í framhaldi af því sem ég hef þegar spurt hæstv. forsrh. um beina því til hans hvort hann geti ekki komið þeim tilmælum til hæstv. sjútvrh. að ráðstafanir verði nú þegar gerðar til þess að greiða sjómönnum a. m. k. út fæðispeninga fyrir liðinn tíma, en það hefur ekki verið gert nú í nokkurn tíma. Þetta er til viðbótar því sem þeir nú þurfa að þola vegna kvótaskiptingar og aflatakmarkana.

Ég dreg enga dul á það og hef ekki gert að ég er andvígur þessu kvótakerfi, tel að það hefði átt að fara aðrar leiðir sem hefðu skilað ekki minni varnaraðgerðum þorskstofninum til handa en hefðu komið betur út að því er varðar atvinnuspursmálið, þjóðartekjuspursmálið en kvótakerfið gerir. Það ætla ég þó ekki að gera hér að sérstöku umræðuefni. En ég vænti þess að hér séu fleiri þm. sem telja það þess vert að ræða svo stórt mál sem hér um ræðir á Alþingi, því að það er ekkert lítið í húfi.