04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4427 í B-deild Alþingistíðinda. (3766)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Það er enginn vafi á að stjórnarskráin eða stjórnarskipunarlögin eru eitt þýðingarmesta mál sem Alþingi fjallar um þó ekki sé nema af þeirri ástæðu að í stjórnarskránni eru ákvæði sem grundvalla störf Alþingis og raunar allra þeirra sem fara með æðstu mál ríkisins, æðstu handhafa ríkisvaldsins. Það er þess vegna umhugsunarvert að þegar rætt er um þetta mál hefur t. d. pressan engan áhuga á að fylgjast með því, ekki nokkurn áhuga. Þegar 1. umr. hófst um málið held ég að ekki einn einasti fréttamaður hafi verið hér til að hlusta. En ef menn breyta um umræðuefni og fara að tala um hunda rennur pressan á lyktina. Þá kemur öll pressan, þá kemur útvarpið, þá kemur sjónvarpið með myndavélar og þá koma fréttamennirnir til að taka þátt í hundaslagnum. Það þarf raunar ekki nema einn hund til þess að þetta gerist. En að fréttamenn hjá blöðum, sjónvarpi og útvarpi hafi áhuga á að hlusta á umr. og röksemdir í sambandi við stjórnarskrármálið, það er af og frá.

Þetta frv., sem hér er til meðferðar um breytingar á stjórnarskránni, fjallar raunar fyrst og fremst um eitt ákvæði stjórnarskrárinnar, þ. e. um kjördæmaskipunina og kosningatilhögunina, auk þess sem gert er ráð fyrir að fjölga þm. um þrjá frá því sem nú er og lækka kosningaraldur úr 20 árum niður í 18 ár. Það má segja að kjarni málsins sé fyrst og fremst sá, fyrir utan fjölgun þm., að það hefur tekist samkomulag milli þingflokka, eins konar sátt í þessu máli, um það hvernig hlutfallið eða atkvæðamagnið skuli vera á bak við þm. hinna ýmsu kjördæma og má segja að í raun og veru sé þetta frv. fyrst og fremst um það.

Þegar frv. var lagt fram hér á Alþingi í fyrra urðu formenn þingflokkanna sammála um yfirlýsingu sem lögð var fram með frv. og raunar meira en það því að það voru þingflokkarnir sem urðu sammála um yfirlýsingu. Þessi yfirlýsing fylgir til áherslu áliti stjórnarskrárnefndarinnar í þessu máli og er prentuð á nefndarálitinu. Þessi yfirlýsing var svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Þingflokkur Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. Að leggja fram með frv. þessu, sem sérprentað fskj., „Skýrslu stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar“ (Reykjavík, janúar 1983). Þetta er gert í því skyni að almennar umræður fari fram um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ætti almenningi þá að gefast kostur á að tjá sig um þá endurskoðun þannig að afgreiðsla nýrrar stjórnarskrár geti orðið með vönduðum hætti að lokinni rækilegri umfjöllun.

2. Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M. a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra f eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Það má segja að þessi yfirlýsing fjalli um tvennt. Í fyrsta lagi gerir hún nánast ráð fyrir því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar haldi áfram og verði framkvæmd fyrr en seinna og í öðru lagi verði gerðar jafnhliða þessu sérstakar ráðstafanir til að dreifa valdi og einnig sérstakar aðgerðir, eins og það er orðað, til að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst. Það er engu líkara en höfundum þessa frv. sé ljóst að það felur ekki í sér jöfnuð, heldur felur í sér einhvern ójöfnuð. Ég álít að í raun og veru sé þetta viðurkenning þeirra sem að frv. standa á því að frv. felur í sér einhvern ójöfnuð. Ég kem að því síðar hvaða ójöfnuður það er sem þarna er um að tefla.

Við atkvgr. um frv. til stjórnarskipunarlaga í Ed. Alþingis 10. mars 1983 gerði ég svofellda grein fyrir atkv. mínu, með leyfi virðulegs forseta:

„Herra forseti. Ég álít að leiðrétting á vægi atkv. sé eðlileg. Ég er hins vegar ekki ánægður með þá málsmeðferð sem þetta mál hefur fengið og tel að hún þyrfti að verða með öðrum hætti, eins og ég hef áður gert grein fyrir. Ég vil undirstrika að stöðu landsbyggðarinnar verður að tryggja í stjórnarskránni þegar heildarendurskoðun hennar fer fram. Ég tel að um þetta mál, eins og það liggur hér fyrir, sé þó sæmileg sátt. Þetta er viðkvæmt mál og vandasamt til úrlausnar. Ég veit að sennilega eru bæði þéttbýlið hér suðvestanlands og landsbyggðin, strjálbýlið, óánægð með niðurstöðu málsins. Það bendir kannske til þess að hér sé um að ræða sæmilega sanngjarna sátt og m. a. með tilliti til þess segi ég já.“

Ég var sem sagt samþykkur þeirri sátt sem þarna átti sér stað og sú er ástæðan fyrir því að ég fylgi þessu máli. Ég álít að það sé fyrst og fremst sátt milli Reykjavíkursvæðisins og landsbyggðarinnar utan Reykjavíkursvæðisins.

Þrátt fyrir það, þó að ég fylgi málinu vegna þessa sérstaka ákvæðis, er ég langt frá því að vera sáttur við málið sem lokaafgreiðslu og undirstrika að það verði haldið áfram með fullum krafti með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég vil því leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. og fjalla m. a. um það að hverju leyti ég tel það vera gallað.

Ég tel aðalgallann á þessu frv. vera þann, að það eru langmestar líkur til þess að það muni leiða af sér fjölgun stjórnmálaflokka. Það þarf ekki annað en líta á stjórnarskrárbreytinguna frá 1959 þegar einmenningskjördæmi og tvímenningskjördæmi voru afnumin og fjölgað úr 8 þm. í 12 í Reykjavíkurkjördæmi. Síðan þá hefur flokkum fjölgað og hefur verið tilhneiging til þess að flokkum fjölgaði. Nú sitja á Alþingi sex þingflokkar í stað fjögurra áður. Þegar nú er enn þá fjölgað þm. í Reykjavík, upp í 14 eða 18, þá álít ég að það séu vaxandi líkur á því að flokkar klofni og þeim fjölgi meira en orðið er. Ég yrði ekkert undrandi á því, ef þetta fyrirkomulag gildir um nokkra áratugi, þó að flokkarnir yrðu orðnir tíu talsins eftir tiltölulega stuttan tíma.

Ég er fylgjandi því, þegar rætt er um stjórnarskipunina, að reynt verði að haga henni þannig að hún þjappi mönnum frekar saman í flokka, þeim sem skyld sjónarmið hafa, í stað þess að sundra þjóðinni í marga flokka. Ég óttast að ef svo verður fari stjórnarfarið versnandi. Það eru misjafnar skoðanir á því hvað stjórnarfarið hefur verið gott hjá þessum fjórum flokkum, en ég er sannfærður um að það fer versnandi ef flokkunum fjölgar. Í raun og veru höfum við alveg skýr dæmi um það þar sem var Weimarlýðveldið. Þar var gerð tilraun til að hafa allt saman jafnt, jafnan atkvæðisrétt, jöfnuð á milli flokka o. s. frv., en niðurstaðan varð sú að flokkarnir urðu — ég man ekki hvað þeir urðu margir, það er kannske einhver svo sögufróður að hann muni það, en þeir skiptu held ég tugum. (Gripið fram í: Eitthvað á þriðja tug.) Eitthvað á þriðja tug, já. Og hver varð svo niðurstaðan? Niðurstaðan varð því miður ekki sú, sem ætlað var, að fá fram jöfnuð að öllu leyti. Niðurstaðan varð sú, að það varð alger ringulreið vegna flokkafjölgunar í Þýskalandi sem leiddi beint til valdatöku nasista á sínum tíma. Þannig endaði það. Ég vona nú að ekki endi á neinu slíku hjá okkur Íslendingum en það er aldrei að vita nema ofbeldisöfl kunni að lifna við, ef upplausnin er nógu mikil, og hrifsa völdin. Það hefur stundum verið rætt um að Hitler hafi náð völdum á lýðræðislegan hátt. Slíkt er auðvitað hrein endileysa og ekkert annað vegna þess að hann og hans flokkur héldu uppi ofbeldi í Þýskalandi, eins og við þekkjum af sögunni, þannig að menn óttuðust stundum um líf sitt sem ekki voru sammála nasistum. Það var ógnarástand sem leiddi til valdatöku þeirra þó að þeir reyndu að hafa þann blæ á öllu að það væri allt með lýðræðislegum hætti.

Í þessu frv. er aðeins rætt um kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag en ekki um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Hins vegar eru gefin fyrirheit um það í yfirlýsingu þingflokkanna. Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur verið lengi í meðferð nefnda eða allar götur frá 1944 þegar sett var á fót endurskoðunarnefnd. Það eru margar nefndir sem hafa starfað með mismunandi miklum krafti og mismunandi löngum hléum að endurskoðun stjórnarskrárinnar, en aldrei hefur náðst samkomulag um annað en kjördæmaskipunina og kosningafyrirkomulagið. Önnur ákvæði hafa verið óbreytt, eins og kunnugt er, þó að margir séu þeirrar skoðunar að það væri ástæða til að endurskoða ýmis önnur ákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. þekki a. m. k. seinni hluta þessarar endurskoðunarsögu, þ. e. nefndina, sem starfaði undir forsæti Gunnars heitins Thoroddsens fyrrv. forsrh. og hefur sent frá sér allítarleg álit um þetta mál. Það hafa komið fram frumvörp um breytingar á stjórnarskránni. Það kom fram frv. sem Gunnar Thoroddsen lagði fram hér í fyrra. Það kom fram frv. sem Vilmundur heitinn Gylfason lagði fram hér á þingi í fyrra. Ég er þeirrar skoðunar að sú tillaga sem hann lagði fram um að kjósa sérstakan forseta sem skipaði ríkisstjórn, um að afnema þingrofsrétt eða að þing starfaði í fjögur ár, ráðherrar væru ekki þm. og eitthvað fleira var í hans till. — a. m. k. þessi atriði álít ég að eigi fullan rétt á sér, að þau séu rædd, og það sé alls ekki einhlítt að hafa það fyrirkomulag á sem við höfum haft þó að ég sé því fylgjandi að halda þingræðisreglunni. Ég er því fylgjandi, en ég álít að það sé ekkert einhlítt og þær tillögur sem hann setti fram eigi fullan rétt á sér og sé sjálfsagt að ræða hvaða kosti þær hafa og þá kannske hvaða galla þær hafa. Ég tel höfuðkostinn við tillögur Vilmundar heitins Gylfasonar vera að með því móti hefði þjóðin áreiðanlega skipað sér í tvær höfuðfylkingar, menn sem hafa skyld sjónarmið hefðu þjappað sér saman. Hún hefði áreiðanlega skipað sér saman í tvær höfuðfylkingar um kosningu á forseta, eins og við sjáum raunar að gerist með kosningu á valdalausum forseta. Þá er þetta þannig að menn þjappa sér saman. Ég tala nú ekki um ef sú regla hefði verið tekin upp, sem hann stakk upp á, að það yrði kosið um tvo efstu eins og er í Frakklandi. Þá er enginn vafi á að það fyrirkomulag mundi þjappa mönnum saman í tvær höfuðfylkingar í þjóðmálum. Ég álít því að sú tillaga sem þarna kom fram hafi til að bera ýmsa kosti þó að ég sé ekki reiðubúinn að samþykkja hana eins og sakir standa.

Þessar tillögur og þessi álit hljóta að koma að gagni þegar menn taka í alvöru til við að setja nýja stjórnarskrá. Við verðum að gæta að því að stjórnarskrá okkar, sem sett var 1874, fyrir 110 árum, var stjórnarskrá konungs. Í eðli og uppruna er slík stjórnarskrá allt annars eðlis en lýðveldisstjórnarskrá þannig er núverandi lýðveldisstjórnarskrá með þeim breytingum, sem gerðar voru á henni, sem voru raunar engar aðrar en þær að breyta orðinu „konungur“ í forseta og svo nokkrar breytingar sem leiddu af þeirri höfuðbreytingu. Ég held að það sé ýmislegt í stjórnarskránni sem þarf að athuga, þó að ég sé ekki að halda því fram að við höfum vonda stjórnarskrá, nema ég álít að við höfum lélega stjórnarskrá að því er snertir kjördæmaskipunina og kosningafyrirkomulagið, og ekki fer hún batnandi með þessu. (Gripið fram í.) Þetta fer nú dálítið eftir því hvað við erum með góða stjórn hvernig stjórnirnar verða.

Það eru ýmsar skoðanir uppi um hvernig eigi að setja stjórnarskrá. Ég vil greina frá því að á seinasta flokksþingi Framsfl. var ályktað á þá leið að efna bæri til sérstaks stjórnlagaþings sem leitaðist við að ná þjóðarsáttum um stjórnskipan landsins. Það hefur marga kosti að stjórnlagaþing fjalli um stjórnarskrána og setji þjóðinni stjórnarskrá. Þetta málefni er án efa mikilvægasta málefni þjóðarinnar. Það er engin spurning. Það er þess vegna mjög áríðandi að undirbúningur að slíkri lagasetningu sé sem ítarlegastur og bestur og eigi rót sína hjá þjóðinni. Þegar verið er að kjósa til Alþingis eins og nú er gert, en það er Alþingi sem fjallar um breytingar á stjórnarskránni ásamt kjósendum bæði fyrir og eftir, skipta menn sér í stjórnmálaflokka eftir allt allt öðrum málefnum en hvaða skoðanir þeir hafa á stjórnarskránni. Ef hins vegar væri kosið til stjórnlagaþings um það mál eitt kemur fram raunverulegur vilji manna og menn þjappa sér saman með tilliti til þess hvaða skoðun menn hafa á stjórnskipuninni, jafnvel þótt menn séu í andstæðum stjórnmálaflokkum. Menn geta verið sammála um þetta mál þó þeir séu í ólíkum stjórnmálaflokkum. Þess vegna eru meiri líkur á að stjórnlagaþing mundi setja stjórnarskrá sem hefði meira fylgi með þjóðinni en ef Alþingi gerði það. Alþingi er, eins og ég sagði áður, skipað þannig, að það fer eftir allt öðrum sjónarmiðum en þeim hvaða skoðanir menn hafa á stjórnarskránni. Slíkt þing mundi einvörðungu fjalla um stjórnarskrána og ekkert annað.

Það er kunnugt að margar þjóðir hafa sett sér stjórnarskrá á sérstöku stjórnlagaþingi eða sérstakri stjórnlagasamkomu, eins og t. d. Norðmenn, Bandaríkjamenn og margir fleiri. Við höfum aldrei sett okkur stjórnarskrá í raun. Við fengum stjórnarskrá frá kónginum 1874 eins og við þekkjum og síðan höfum við gert á henni breytingar, að vísu nokkrar breytingar, en þó eru langflestar bundnar við kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag. Það er því kannske tími til þess kominn að Íslendingar setjist niður og setji sér stjórnarskrá með svipuðum hætti og margar þjóðir hafa gert á sérstakri samkomu sem fjallaði eingöngu um það mál.

Þá er annað sem ástæða er til að undirstrika í sambandi við nauðsynina á því að gera ýmsar breytingar á stjórnarskránni og það er að á seinustu áratugum hefur orðið alger bylting í búsetu manna á Íslandi og ástæða til að endurskoða stjórnskipulagið og stjórnsýslufyrirkomulagið með tilliti til þeirrar gífurlegu breytingar sem orðið hefur á búsetu manna í landinu. Það var við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður sem núverandi stjórnarskrá var sett og raunar stjórnsýslukerfið að verulegu leyti.

Eins og ég sagði áður er enginn vafi á því að ef kosið væri til sérstaks stjórnlagaþings mundu pólitísku flokkarnir riðlast í þeirri lotu. Mér finnst að sú stjórnarskrárbreyting sem við erum að ræða núna sé samkomulag milli fjögurra flokka um að setja kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipun fyrir flokkana. Það er allt saman miðað við flokkana. Það er reiknað út með tölvu hvernig kosningar hafa farið fram miðað við þetta fyrirkomulag í 20 ár eða kannske 30 og svo er fundið meðaltal. Svo er því slengt á blað og það er kjördæmaskipunin og kosningafyrirkomulagið. Þetta er allt saman miðað við þessa fjóra flokka. (Gripið fram í: Þú studdir þetta nú dyggilega.) Ég studdi það ekki dyggilega, en ég tók þátt í þessari sátt eins og ég gat um í upphafi og fyrst og fremst um þetta hlutfall. Stjórnlagaþing mundi ekki þurfa að reikna nákvæmlega út hvað þessi flokkur eða hinn mundi fá vegna þess að hann hefði ekki hugmynd um hvernig flokkaskipunin yrði þegar búið væri að kjósa eftir nýrri stjórnarskrá. Það er ekki hægt að reikna út, enda held ég að tölvur eigi ekki að setja stjórnarskrá — með fullri virðingu fyrir tölvum — ég held að menn eigi að setja stjórnarskrá.

Þá er eitt atriði enn sem er ástæða til að nefna. Það er að þegar Alþingi setur stjórnarskrá er Alþingi að fjalla sjálft um verksvið sitt. Það er enginn aðili réttlátur dómari í eigin sök. Það væri miklu eðlilegra að það væri annar aðili, stjórnlagaþing, sem fjallaði um stjórnarskrána. Það er veruleg gagnrýni á Alþingi. Ég er ekki að tala fyrir því að það eigi að gjörbreyta því fyrirkomulagi. Þingræði er ákaflega ríkt í Íslendingum og Alþingi er nokkurn veginn jafngamalt og þjóðin, þannig að ég er ekki að tala fyrir því. En það gæti verið ástæða til þess að einhver annar aðili en Alþingi fjallaði um valdsvið Alþingis og um vinnubrögð Alþingis, en alþm. gerðu það ekki allt saman sjálfir. Þó dettur mér ekki annað í hug en það yrðu margir alþm. kosnir á stjórnlagaþing.

Ástæða er til að staldra aðeins við það hvernig ætti að kjósa til stjórnlagaþings. Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem vilja að sérstakt stjórnlagaþing setji þjóðinni stjórnarskrá að þeir geri henni grein fyrir því hvernig á að kjósa það. Það er eðlilegt. Þá kemur margt til greina. Ég hef tilhneigingu til að stinga upp á því að það yrði lagt til grundvallar atkvæðavægi í þessu frv. milli Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis annars vegar og landsbyggðarinnar þar fyrir utan hins vegar og þessum svæðum skipt í einmenningskjördæmi með sem jöfnustum íbúafjölda. Auðvitað koma fjölmargar aðrar leiðir til greina, en þessi mundi hafa þann kost að mínu mati að þjappa mönnum, sem hafa svipaðar skoðanir á stjórnskipuninni, saman. Og það mætti hugsa sér að hafa tvær umferðir í slíkum kosningum. Ef Alþingi bæri nú gæfu til þess einhvern tíma að það myndaðist meiri hluti fyrir því að sérstakt stjórnlagaþing setti þjóðinni stjórnarskrá væri nægilegt að leggja fram á Alþingi frv. til breytingar á stjórnarskipunarlögum um að sérstakt stjórnlagaþing verði kosið til að setja lýðveldinu stjórnarskrá, sem öðlist. gildi eftir að meiri hluti Alþingis, kjósenda, hefur greitt henni atkv. Það ætti að sjálfsögðu að setja jafnframt lög um kosningar til stjórnlagaþings.

Ég gat áður um yfirlýsinguna sem þingflokkarnir lögðu fram með frv. um stjórnarskrána þar sem gert er ráð fyrir að halda áfram með heildarendurskoðun. Ég vonast til þess að Alþingi geri eitthvað í því máli meira en láta sitja við orðin tóm og yfirlýsingar, eins og hefur orðið reyndin í 40 ár. Það vakna margar spurningar í þessu sambandi. Það vakna t. d. spurningar um réttlæti í sambandi við stjórnarskrána og þau stjórnskipulegu réttindi sem stjórnarskráin veitir landsmönnum. Ég tók eftir því að hv. þm. Stefán Benediktsson sagði um daginn að það væru mannréttindi að allir hefðu jöfn atkv. Það kann vel að vera að það séu mannréttindi að allir hafi jöfn atkv., en eru það þá mannréttindi að sumir hafi margfalt meiri réttindi samkv. raunverulegu stjórnarskránni en aðrir? Kem ég að því svolítið á eftir. Það er spurningin.

Þegar menn ræða um kosningafyrirkomulagið og kjördæmaskipunina alveg einangrað er tiltölulega léttur leikur að sýna fram á að jafn kosningarréttur sé sjálfsagður, það séu mannréttindi. En þá vaknar spurningin: Er rétt að ræða þetta eitt sér? Sú hefur orðið raunin á við breytingar á stjórnarskránni æ ofan í æ að ræða eingöngu um þetta mál en ekki um önnur atriði stjórnarskrárinnar, sem hafa gífurlega mikla þýðingu gagnvart raunverulegum efnislegum réttindum manna í þjóðfélaginu og stöðu. Það eru nefnilega mörg fleiri ákvæði í stjórnarskránni en ákvæðin um atkvæðisréttinn og hvernig með það skuli fara. Það er nefnilega ákveðið í stjórnarskránni að eitt kjördæmi skuli hafa býsna mikil réttindi. Það er ákveðið að í Reykjavíkurkjördæmi skuli Alþingi vera. Það er ákveðið að í Reykjavíkurkjördæmi skuli ríkisstjórn sitja, Hæstiréttur og forseti í grenndinni. Þar með er í raun og veru ákveðið að stjórnsýslukerfi landsins skuli vera staðsett í Reykjavík. Þannig hefur reyndin orðið. — Og miklu meira en stjórnsýslukerfið. Þetta hefur auðvitað hlaðið utan á byggð í Reykjavík og hefur valdið því að hér eru staðsettar stofnanir af öllu mögulegu tagi, sem er verulega þýðingarmikið að vera í nágrenni við.

Við getum bara byrjað á fæðingunni. Þegar börn fæðast er fæðingardeildin hér. Þar er miklu tryggari og betri þjónusta en nokkurs staðar annars staðar á landinu og er ekkert nema gott um það að segja. En það er eigi að síður staðreynd.

Lítum því næst á skólakerfið. Krakkarnir hér í Reykjavík ganga að öðru jöfnu, og þó hefur það jafnast dálítið með árunum, yfirleitt inn í og hafa betri möguleika snemma í þessum efnum en þeir sem eru búsettir úti á landi. Þetta þekkjum við sem erum fæddir og aldir upp úti á landi og fengum okkar fyrstu fræðslu þar. — Þegar við komum í framhaldsskólana er talsverður munur á því að ganga út um dyrnar heima hjá sér í menntaskóla, háskóla í alla sérskóla, listaskóla og alls konar tækniskóla, eða þurfa að fara langar leiðir til þess. Þetta er æðimikill munur. Og þetta er munur sem oft ræður úrslitum að því leyti til að hæfileikaunglingar fara ekki þessa leið þótt þeir hafi miklu meiri hæfileika en hinir sem hafa skólana við bæjardyrnar. Þetta eru geysilega mikilvæg réttindi. Ég vil ekki kalla þetta mannréttindi, þó að það væri kannske ástæða til þess, en þetta eru geysilega mikilvæg réttindi.

Það er alveg sama hvar drepið er niður. Hvað er að segja um bankakerfið? Hvernig stendur á því að menn út um allt land hafa samband við þm. og segja: Við erum alveg í vandræðum. Getið þið nú ekki hjálpað okkur í sambandi við víxil eða eitthvað slíkt? Hvernig stendur á þessu? Það stendur þannig á því að í Reykjavík eru 50 bankastofnanir, en kannske ein úti á landi á flestum stöðum. Menn hafa miklu betri aðstöðu hér. (Gripið fram í: Er þá Framkvæmdastofnunin meðtalin?) Ja, Framkvæmdastofnun. Það er kannske ástæða til að undanskilja hana því að hún hefur sinnt landsbyggðinni meira en flestar aðrar fjármálastofnanir. (Gripið fram í: Þeir taka ekki við víxlum þar.) Nei, það er yfirleitt ekki gert. Ég var bara að taka þetta sem dæmi. Ég er ekki að segja að það sé mjög mikið tíðkað, ég held það hafi farið mjög minnkandi, en menn þurfa að gera þetta og margt fleira.

Hvað er að segja um það þegar menn eru komnir út úr skólakerfinu og þurfa að fara að leita sér að atvinnu? Ætli það séu ekki ögn meiri líkur á því að þeir, sem hér eru aldir upp og þekkja allt og alla, hafi betri möguleika á að fá atvinnu en fólk sem er alið upp úti um landið og þekkir engan og enga? Ég er ansi hræddur um það.

Þegar farið er að gera upp dæmið um mannréttindi og ekki mannréttindi og stjórnarskrárákvæðin veit ég nú ekki hvað á að telja mannréttindi. Við getum alveg eins talað um stjórnskipuleg réttindi, að þau eigi að vera jöfn fyrir alla þegnana.

Mönnum hefur reynst erfitt að mæta þessu, vigta þetta út. Sú aðferð sem menn hafa notað í flestum löndum er sú að hafa misvægi á milli atkvæða. Við höfum gert það. Norðurlandaþjóðirnar hafa gert það, t. d. Norðmenn, svo að ég taki dæmi, og fleiri. Það hefur verið reynt að fá jafnvægi í málið í heild með þessu móti. Það má sjálfsagt deila um þetta. En ég sé að þingflokkarnir hafa sagt að það þyrfti að gera heilmikið, það þyrfti að gera sérstakar aðgerðir til að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst. Ég skal tala með fullri virðingu um þá þingflokka sem voru hér í fyrra. En það getur vel verið að þessir þingflokkar verði allt öðruvísi sinnaðir eftir nokkur ár. En stjórnarskráin blífur.

Ég veit ekki hvort á að kalla svona ákvæði kattarþvott. Ég hef dálitla tilhneigingu til þess. Ég hef miklu meiri trú á því að reyna að festa í stjórnarskránni sjálfri eitthvert jafnvægi í þessum málum öllum og reyna að vigta það út en vera með loforð af þessu tagi sem kannske verða aldrei efnd.

Eins og kemur fram í yfirlýsingu þingflokkanna eru gefin fyrirheit um valddreifingu. Það er hægt að dreifa valdinu með ýmsu móti. Sumar þjóðir ganga geysilega langt í því að dreifa valdinu frá höfuðborginni og höfuðstöðvunum, eins og t. d. Svisslendingar. Ríkisstjórn Sviss hefur sáralítil völd mundi ég segja. Völdin eru langsamlega mest, þar á meðal fjárveitingavaldið, hjá kantónunum, fylkjunum, og þetta hefur reynst þeim vel. Það hafa verið uppi hugmyndir um að skipta Íslandi niður í fylki eða sérstök svæði. Það gæti t. d. komið til greina að lögfesta landshlutasamtökin og dreifa valdinu til þeirra frá Reykjavík eða til sveitarfélaganna. Það er kannske eðlilegra að dreifa því til sveitarfélaganna og er léttara að gera það þannig að dreifa valdinu til landshlutasamtakanna og minnka þá miðstjórnarvaldið í Reykjavík. Þetta er auðvitað margslungið mál og þarf bæði mikillar umfjöllunar og umræðu við. En þetta er eitt af því sem rakið er í yfirlýsingu þingflokkanna.

Þetta er geysilega stórt og þýðingarmikið mál og áhugavert að hlusta á umr. um það. Ég hef nú fulla virðingu fyrir þáltill.-farganinu hér í Sþ. og er ekkert nema gott um það að segja, ég flyt þær stundum eins og aðrir þm., en þetta mál er miklu meira mál og miklu áhugaverðara mál, þó að enginn fréttamaður hafi áhuga á því, og ég álít að það sé gott að þm. láti í sér heyra, setji fram sín sjónarmið. Þau eru mörg í svona stóru máli sem eiga fullan rétt á sér. Þess vegna er það að ég hef rætt þetta mál, alls ekki ítarlega en þó nokkuð ítarlega, og drepið á ýmis atriði sem mér finnst skipta máli í sambandi við afgreiðslu á stjórnarskrármálinu.

Það hefur verið lagt fram í Nd. frv. til kosningalaga og það kemur að sjálfsögðu til meðferðar hér á næstunni. Það er athyglisvert í sambandi við þetta frv. til stjórnarskipunarlaga um kosningafyrirkomulagið að það er heimildarákvæði í stjórnarskránni um þetta og hitt. Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera heimildarákvæði í stjórnarskránni, heldur eigi hún að setja ákvæði um hvernig hlutirnir skuli vera og að almenni löggjafinn geti ekki breytt þeim. En vandinn er auðvitað eftir sem áður sá hvernig þau ákvæði eigi að vera. Ég held að það sé frekar fátítt að það séu svona heimildarákvæði í stjórnarskrám. Þó er það til. Þetta er dálítið óákveðið, en ég veit að t. d. í dönsku stjórnarskránni er heimilt að breyta kjördæmum, ef breyting verður á fólksfjölda í kjördæmunum, og leiðrétta þannig. Það er í sjálfu sér eðlilegt þegar kjördæmi standa að öðru jöfnu nokkuð jafnfætis. Mér finnst þó að það sé spurning um þessi heimildarákvæði. En allt finnst mér málið þannig úr garði gert að það sé sátt um sinn og menn séu þarna að sættast á það hlutfall í vægi atkvæða sem ég gat um í upphafi og það sé hugmyndin að halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og taka þá til meðferðar málefni eins og valddreifingu og margt fleira.

Að lokum vildi ég leggja áherslu á það fyrir mína parta að ég held að tryggara væri að reyna að skapa stjórnskipulegt jafnvægi með ákvæðum í stjórnarskránni en með yfirlýsingum sem ég hef ekki tröllatrú á að verði framkvæmdar. — Það fer alveg eftir því hvernig þingið er samansett hverju sinni hvort þær verða framkvæmdar. — Ég er því á andstæðri skoðun við hv. þm. Stefán Benediktsson, sem sagði að það ætti einmitt ekki að fjalla um slík ákvæði í stjórnarskránni. Ég álít að í stjórnarskránni ætti að fjalla um bæði kjördæmafyrirkomulagið og kosningafyrirkomulagið, en einnig um það hvernig væri hægt að jafna raunverulega aðstöðu manna, alveg án tillits til þess hvar þeir eru fæddir og uppaldir, sem eiga heima í landinu.