04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (3772)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Það kom mér nokkuð á óvart hvað frsm. meiri hl. lagði mikla áherslu á hve brýnt væri að þetta mál fengi afgreiðslu í hv. Ed. Það eru nú rúmir tveir mánuðir síðan það skeði sem um er rætt í frv. að sé þess valdandi að frv. er hér fram komið, þ. e. fiskverðsákvörðunin, og ég veit ekki til þess að staðið hafi á neinu í nefndinni sem tefði að málið væri tekið til afgreiðslu. Einhverjar aðrar utanaðkomandi ástæður hljóta þá að hafa orðið til þess að allt í einu í þessari viku var málið orðið svo brýnt sem raun ber vitni um. En ég tek undir að ef á að samþykkja frv. eins og hér er um að ræða er alls ekki æskilegt að það dragist eitthvað úr hömlu vegna þeirra atriða sem frsm. n. nefndi áðan, þ. e. beint uppgjör til sjómanna eða útgerðarmanna er það nú frekar, út frá þeim ákvæðum sem hér er um fjallað.

Við leggjum fram minnihlutaálit, ég ásamt Karli Steinari Guðnasyni og Kolbrúnu Jónsdóttur, þar sem við leggjum til að frv. þetta verði fellt, en þó munum við freista þess að fá úr því bætt þannig að því framlagi, sem í frv. er ætlað að renni óskipt til stofnfjársjóðs og þá til útgerðar, verði skipt á þann máta að það komi til hlutaskipta sem annar afli á viðkomandi skipi.

Nefndin hefur fjallað um málið á nokkrum fundum og eins og fram kom í ræðu hv. þm. Valdimars Indriðasonar, formanns n., leitaði n. álits Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Landssambands ísl. útvegsmanna. Fulltrúar þessara samtaka mættu á fundum nefndarinnar og útskýrðu afstöðu sjómanna og lögðu mjög að okkur í nefndinni að þetta frv. yrði ekki samþykkt. Einnig komu til viðræðu við nefndina fiskimálastjóri, Þorsteinn Gíslason, og Þórarinn Árnason framkvæmdastjóri Aflatryggingasjóðs. Þó ég vilji ekki lýsa því beinlínis yfir, eins og hv. formaður nefndarinnar gerði, að þessir menn hafi lýst sig andstæða frv. var greinilegt í málflutningi þeirra að þeir töldu þar ýmsa vankanta á.

Nefndinni bárust samþykktir frá Sjómannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér nokkra þætti sem fram komu í þessum álitum og eru í okkar nál.

Í samþykkt Sjómannasambands Ístands segir m. a.: „Fundurinn minnir á að upphaflegt markmið sjóðsins var eingöngu að tryggja sjómönnum laun sín ef um verulegan aflabrest væri að ræða eða ef útgerðin brygðist fjárhagslegri skuldbindingu sinni gagnvart sjómönnum. Enn í dag er eitt meginverkefni sjóðsins það sama og í upphafi.

Með frv. þessu, sem nú liggur fyrir Alþingi, er ætlunin að bótagreiðslur Aflatryggingasjóðs gangi til Stofnfjársjóðs fiskiskipa sem hefur allt öðru hlutverki að gegna en að tryggja sjómönnum laun sín.

Þessum breytingum mótmælir fundurinn harðlega og krefst þess að hlutverk Aflatryggingasjóðs verði óbreytt.

Fundurinn skorar á alþm. að fella þetta frv. og minnir í því sambandi á að vegna stjórnvaldsaðgerða í sjávarútvegsmálum þurfa sjómenn enn frekar en áður á núgildandi lögum Aflatryggingasjóðs að halda.“

Í samþykkt Farmanna- og fiskimannasambandsins segir:

„Nái frv. það, sem nú er til umr., fram að ganga sýnir það glögglega enn eina fjármagnstilfærsluna frá sjómönnum til útgerðar ofan á allt annað sem sjómenn hafa orðið að þola. Þrátt fyrir að fyrirhugað sé að ráðstafa til áhafnadeildar sjóðsins fjármunum sem ætlað er að auka greiðslur upp í fæðiskostnað sjómanna, þá munu þær upphæðir ekki gera meira en svo að elta uppi það sem fæðisgreiðslurnar hafa dregist aftur úr raunhækkunum á matvöru. Fæðisgreiðslur úr áhafnadeild sjóðsins hafa ekki fylgt þeim verðhækkunum sem orðið hafa á matvætum þrátt fyrir kröfur fulltrúa sjómanna í sjóðsstjórn þar um. Sjómenn hafa því orðið að greiða sjálfir stóran hluta af eigin fæðiskostnaði, mun stærri en upphaflegur tilgangur áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs gerði ráð fyrir.

Þannig gerir fé það, sem ráðstafa á til áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs, ekki að greiða „úr fjárhagsörðugleikum sjómanna sem upp kynnu að koma vegna þess að útgerð skipa er hætt vegna aflabrests og hinna nýju reglna um stjórn botnfiskveiða á árinu.““

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands sendi eftirfarandi mótmæli gegn frv.:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um að Aflatryggingasjóður verði gerður upptækur og færður í hlutfalli við aflaverðmæti til Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Með þessu er gengið þvert á grundvallartilgang Aflatryggingasjóðs, mest fært til þeirra sem mest afla, atvinnulífi stefnt í hættu svo og kauptryggingu sjómanna.“

Til viðbótar við mótmæli þessara samtaka sjómanna bárust eftirfarandi mótmæli í símskeytum frá fjölda skipshafna utan af miðunum:

„Skipshafnir eftirfarandi skipa mótmæla harðlega þeirri breytingu á 27. gr. laga nr. 51 frá 28. apríl 1983, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Í brtt. er lagt til að almenna deild Aflatryggingasjóðs, sem á undanförnum árum hefur tryggt sjómönnum lágmarkskaup, verði á þessu ári notuð til að greiða fjármagnskostnað útgerðar og að í stað 10% greiðslu í stofnfjársjóð verði nú 4% tekin fram hjá skiptum til útgerðar. Ef hið háa Alþingi samþykkir þessa lagabreytingu um að 4% verði tekin fram hjá skiptum verður orðið lögfest að tekin verði 41% fram hjá hlutaskiptum á þessu ári.

Sú endurskoðun og uppskipti í sjóðakerfi sjávarútvegsins sem urðu 1976 í samráði við sjómenn leiddu af sér 6% lækkun á hlutaskiptum, gegn því að sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði afnumið í áföngum, sem þó var aldrei framkvæmt eins og um var samið 1976. Við viljum því vara Alþingi við að samþykkja þessa lagabreytingu án þess að þessir fjármunir komi til skipta. Með því er hið háa Alþingi að efna til ófriðar við sjómenn og ekki að setja réttlát lög, sem er þó hlutverk Alþingis Íslendinga.“

Allar þessar samþykktir bárust Alþingi á þeim tíma sem við vorum að fjalla um þetta frv. Ég varð ekki var við að jafneindregnar ályktanir og þessar hefðu nein áhrif á meiri hl. sjútvn. þannig að hún færi að leita annarra ráða til að leysa þau vandamál sem þarna voru en að halda áfram að ganga á rétt sjómanna.

Ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu við það sem kemur fram í þessum samþykktum. Ég vil gera þær að mínum og undirstrika það og legg til að þetta frv. verði fellt. En að öðrum kosti leggjum við til, eins og ég sagði áður, að þessari tilfærslu verði skipt á þann máta að sjómenn njóti þar fulls hluta: Ég sé ástæðu til að spyrja hæstv. sjútvrh. um þann þátt, þ. e. II. lið þessa frv., hvernig hann hyggst notfæra þá fjármuni sem þar verða til staðar til að bæta sjómönnum tekjutap þeirra, hvaða áætlanir eru uppi í sambandi við það mál. Við sjáum nú reyndar að þarna er ekki um stórar fjárhæðir að ræða, en það er þó nauðsynlegt að fá að heyra það frá hæstv. ráðh. hvernig þeim fjármunum verði varið.