02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hygg að þetta frv. marki nokkur tímamót því að hér er gert ráð fyrir að gefa út ríkisskuldabréf eða spariskírteini með verðtryggingu sem miðast við gengi erlendra gjaldmiðla. Ég hygg að þetta hafi ekki verið gert hér áður. Og þá er kannske eðlilegt að íhuga það hvort verið er að hverfa frá hinni íslensku krónu sem alhliða viðmiðun í íslensku þjóðfélagi og taka upp allsherjar viðmiðun hér við erlent gengi eða erlendar myntir. Ég held að þetta hljóti að vera nokkurt umhugsunarefni.

Og annað langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. um. Mér heyrðust vera einhverjar vomur á honum eða hik um það hvernig ætti að fara með skyldusparnaðinn frá 1978. Nú spyr ég bara hreint út: Á ekki að borga þann skyldusparnað út eins og um mun hafa verið samið á sínum tíma? Mér heyrðist á hæstv. fjmrh. að hann vonaðist til að halda því fé eftir í ríkissjóði, halda því inni í ríkissjóði enn um sinn, nema þá kannske hjá þeim sem væru komnir á eftirlaunaaldur. En á ekki að standa við yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar, sem tók þennan skyldusparnað, um það að greiða þetta út á ákveðnum tíma? Ég man nú ekki nákvæmlega hvernig þær yfirlýsingar voru en ég hygg að þeim sem urðu að sæta þessum skyldusparnaði hafi verið lofað því að þetta yrði greitt út á ákveðnum tíma. Ég spyr bara til að taka af öll tvímæli, ekki að mér detti í hug að hæstv. ráðh. ætli að halda þessu eftir með neinum hætti eða ganga á gerða samninga, ég tel það af og frá. En til þess að þetta liggi alveg hreint og klárt fyrir held ég að nauðsynlegt sé að þetta komi fram.

Hæstv. fjmrh. hefur oftar en einu sinni sagt okkur að hann muni ekki beita sér fyrir neinum nýjum sköttum. Og hæstv. ráðh. sagði hér, með leyfi forseta, í umr. 19. okt. s.l.:

„Ef hv. þm. hafa ekki tekið eftir því, þá skal þess getið að engar nýjar álögur hafa verið lagðar á síðan ég kom í rn. M.a.s. neitaði ég að leggja kílóagjald á bifreiðir og umferðina.“

Nú er það svo, að daginn áður en þessi orð voru sögð hér var bensín hækkað. Það telst ekki lengur til mikilla tíðinda í þessu þjóðfélagi þó að bensín hækki. En þá var bensín hækkað um 40 aura, ekki vegna gengisbreytingar, ekki vegna hækkana á bensíni erlendis, heldur til að auka skattheimtu ríkissjóðs af bensíni. Auðvitað er það ekkert annað en skattur á almenning.

Frá því að þessi ríkisstj. settist að völdum hafa þeir skattar sem almenningur borgar til ríkisstj.í bensínverði — bílaeign er jú ekki lengur talinn neinn lúxus hér og ég man að t.d. hv. 2. þm. Norðurl. e. og, ef mig ekki misminnir, hæstv. núv. fjmrh. og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson töluðu mjög um það hér á s.l. vori að skattheimta ríkisins af bensíni hefði farið úr öllu hófi í tíð þeirrar ríkisstj. sem þá var. Um þetta voru umr. hér í báðum deildum þegar átti að leggja svokallað kílógjald á bíla til að afla fjár til vegagerðar. (EgJ: Og Alþfl. studdi.) Og Alþfl. studdi, alveg hárrétt. Við höfum staðið að því að gera áætlun til langs tíma í vegamálum, eins og sjálfstæðismenn, og við studdum fjáröflun til hennar með þeim hætti sem þar var gert ráð fyrir. En það gerðu sjálfstæðismenn ekki. Þeir voru ekki einu sinni menn til þess. Þeir fóru undan í flæmingi og vildu enga ábyrgð á sig taka.

En ég ætlaði bara að geta þess að þegar þessi ríkisstj. tók við kostaði bensínið 16.20 kr. 7. júní hækkaði það í 19.30 kr. Rúmum mánuði seinna, 12. júlí, hækkaði það úr 19.30 kr. í 21.90 kr. Ekki nóg með það. 31. ágúst hækkaði það úr 21.90 kr. í 22.50 kr. Og 20. okt., núna fyrir tíu dögum, hækkaði bensínið úr 22.50 kr. í 22.90 kr. Við njótum þess vafasama heiðurs að hér er bensínverð hæst í allri Vestur-Evrópu. Hvergi í Vestur-Evrópu, sennilega hvergi á byggðu bóli er skattheimta af bensíni jafnmikil og hér. Svo er talað um að það eigi ekki að auka neinar álögur á almenning. En hvað eru þessar bensínhækkanir annað en auknar álögur á almenning? Að vísu mun eitthvað af þessu fé fara til vegamála. En það er alveg hægt að nota sömu röksemdir og hv. þm. Lárus Jónsson notaði hér á s.l. vori þegar var verið að ræða þetta: Að meginhluta til fer þetta í ríkishítina.

Bara frá því að þessi ríkisstj. tók við, bara síðan í júníbyrjun hefur bensínverðið hækkað um 41.4%. Hvað hefur kaupið hækkað á sama tíma? Það vita hæstv. fjmrh. og hans stuðningsmenn ákaflega vel. Það er auðvitað ekkert í líkingu við þessar hækkanir. En hvernig hefur skattheimta ríkissjóðs af bensíni breyst á þessum sama tíma? Núna þegar lítrinn kostar 22.90 kr. tekur ríkið í sinn hlut 13.20 kr. af hverjum lítra. Þarna höfum við enn eitt dæmi um það að ríkið fer yfir 100% í sinni skattheimtu. Gjöldin af bensíni eru meira en helmingur. Ég geri ekki ráð fyrir að þetta sé þeim ágætu hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni og Lárusi Jónssyni mikið að skapi, ef þeir hafa enn sömu skoðanir og þeir höfðu á s.l. vori, og ég ætla að vona að þeir hafi það. (EKJ: Ég hef það.) Já, ég ætla að vona að þeir hafi það. Og þá getur þetta ekki verið þeim mjög að skapi.

Skattheimta ríkisins á þessu ári af bensíni hefur aukist um 105%, ég held að ég fari þar ekki skakkt með. Hæstv. fjmrh. leiðréttir það þá. Og svo er talað um að það eigi ekki að auka álögur á almenning. Ég held að það sé ekki til mikils mælst að menn segi satt og rétt frá í öllum greinum og séu sjálfum sér samkvæmir. Það eru lágmarkskröfur. Ég held að það sé nauðsynlegt að vekja athygli á þessu, vegna þess að þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um að ekki skuli auka skattheimtu og að skattheimta hafi með engum hætti verið aukin á almenning, þá er þessi hækkun bensínskattanna ekkert annað en skattur á almenning, það er ekki hægt að komast fram hjá því.

Ég hef hér borið fram fáeinar spurningar til hæstv. fjmrh. og ég vona að hann svari þeim. Og satt best að segja, ef þessi þróun á að halda áfram eins og hún hefur verið frá 7. júní s.l., að ríkið tekur til sín stærri og stærri hluta af verði hvers bensínlítra, hvar endar þetta þá? Og halda menn að það sé eitthvert stopp komið á þetta núna? Ég leyfi mér að hafa efasemdir um það — og það miklar efasemdir. Hins vegar er spurningin auðvitað líka: Hversu langt er hægt að ganga í þessum efnum? Ég held að þessi ríkisstj. hafi gengið allt of langt þarna með því að hækka bensínverðið úr 16.20 kr. í 22.90 á þessum örfáu mánuðum sem hún hefur verið hér við völd. Verða næstu sex mánuðir eins? Ég held að það sé von að almenningur spyrji og hafi nokkrar áhyggjur af því.