04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (3781)

152. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. menntmn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 58 12. maí 1970 um skemmtanaskatt. Þetta hefur verið til umfjöllunar um allnokkurt skeið í menntmn. Loksins tókst að afgreiða það frá n. og eins og kemur fram í nál. var samstaða um afgreiðslu málsins sem er afgreitt með breytingu, þ. e. í fyrri gr. frv. er gert ráð fyrir því að skemmtanaskattur af verði aðgöngumiða á skemmtanir sem taldar eru í 2. flokki skuli ekki innheimtur í sveitarfélögum með færri en 2500 íbúa. Nefndin gerir þá till. að þessi íbúatala verði hækkuð í 7500.

Eins og fram kom við l. umr. þessa máls er kvikmyndahúsarekstur mjög erfiður í hinum fámennari byggðarlögum, þéttbýliskjörnum. Eftir að málið kom til umfjöllunar í nefnd komu fram enn frekari upplýsingar í þessu efni allar á sömu lund. Þess vegna þótti nefndinni eðlilegt að hækka þennan íbúafjölda í 7500. Ég vil nefna það í þessari andránni, eins og hv. alþm. er vafalaust kunnugt um, að kvikmyndahús hafa í nokkrum tilvikum verið undanþegin skilum á skemmtanaskatti án þess að ég fari að nefna þau tilvik. En þá hefur það verið skilyrði að skatturinn rynni til menningar- og/eða mannúðarmála.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta. Það var eins og ég gat um áðan alger samstaða um þetta mál. Að vísu voru hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Eiður Guðnason fjarstaddir afgreiðslu málsins, en það hefur ekkert komið fram sem ber vott um þeirra andstöðu við þetta mál, síður en svo.