13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti, virðulegi þingheimur. Þessi sjálfskoðun þingheims, þótt hún sé kannske ekki beinlínis skemmtileg, sem fer hérna fram, er líklega eitthvað það nytsamlegasta sem hann hefur lengi tekið sér fyrir hendur. Það er greinilega sú tvíhyggja sem kemur fram eftir því hvort menn hafa setið eða sitja í hefðarsæti ráðherradómsins. Svona togstreitu eiga menn að tala úr sér eða leita lækninga. Lækninganna er náttúrlega leitað í tillögum sem liggja þarna á borðum, þar sem er lagt til að þessi beiski brbl.-kaleikur verði tekinn frá mönnum og að ráðherrann og þingmaðurinn séu helst ekki í sömu fötum.

En það þarf ekki að rifja upp fyrir neinum hérna inni hver eru höfuðatriðin í stefnuskrá Bandalags jafnaðarmanna í sambandi við þessa umræðu. Þar er það grundvallaratriði að breytingar á stjórnarháttum og starfsaðferðum ríkisvaldsins séu algjör forsenda fyrir því að þjóðfélag okkar færist áfram til nokkurs þroska, bæði hvað varðar efnahag og menningu. Á báðum þessum sviðum ríkir nú umtalsverð kreppa. Hin efnahagslega kreppa lýsir sér m.a. í nýframlögðu fjárlagafrv. En skeytingarleysi um grundvallarreglur lýðréttinda, sem við höfum orðið vitni að í sumar, er hættulegt merki um hina kreppuna, sem er kreppa hugans og hugarfarsins. Kjarni þessa stjórnkerfis, sem BJ vill bæta, er auðvitað Alþingi sjálft og að því hefur umbótaviðleitnin beinst. Hún hefur birst í óvæginni gagnrýni á störf og starfshætti þingsins um leið og talað hefur verið fyrir nýjum hugmyndum. Viðbrögðin við málflutningnum hafa verið á ýmsa lund, og þrátt fyrir að rauði þráðurinn í öllum okkar tillögum hafi raunar verið að styrkja starfsemi Alþingis og auka sjálfstæði þess voru Bandalagsmenn sakaðir um hinar verstu tilhneigingar til þingsins á sínum tíma.

Ég held að menn hljóti að skilja að það er dálítið undarleg líðan hjá okkur þessa dagana, því ýmislegt hefur gerst. Í fyrsta lagi er náttúrlega framfylgt stjórnarstefnu sem menn kannske ekki beinlínis kusu um. Í öðru lagi var þing ekki kallað saman þrátt fyrir yfirlýstan vilja meiri hluta þess og fimm þingsflokksformanna af sex. Þar til viðbótar hefðu náttúrlega yfirlýsingar stjórnmálamanna og embættismanna um bágan efnahag landsins átt að vera næg ástæða til að kalla þing saman frekar en hitt. Í þriðja lagi hefur verið stjórnað með brbl., eins og hér hefur komið fram, bæði um fíkjur og fiskverð. Í fjórða lagi voru þm., a.m.k. þeim sem eru í stjórnarandstöðu, ekki kynntar aðgerðir stjórnarinnar eða nokkrar þeirra forsendur. Þetta lýsir fyrir okkur framferði þingbundinnar ríkisstjórnar, sem þó álítur Alþingi flækjast fyrir sér og kemur í veg fyrir að óskir meiri hluta þess nái fram að ganga.

Það var spurt hérna áðan: Hvert er þá hlutverk þingsins? Og ég spyr aftur: Hvert er orðið hlutverk þessa þings? Þar hefur raunar hver sína skoðun. Einn hv. þm. hefur nýlega lýst sinni skoðun í fjölmiðlum, þar sem kemur fram að þingmennska sé skotsilfur til að öðlast upphefð á öðrum vettvangi. Þá voru einnig fróðlegar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um tómar skúffur og vasa í sínu ráðuneyti og ekki þýddi að flytja tillögur sem hefðu í för með sér kostnað. Mér er spurn hvort eggið sé ekki farið að kenna hænunni.

Morgunblaðið hafði líka nýverið í leiðara áhyggjur af fjölgun þingflokka og að fjórskipt stjórnarandstaða yrði til þess að umr. lengdust á þingi og afgreiðsla mála yrði því tafsamari. Það hefur svo sem heyrst áður að lýðræðið sé seinvirkt. Í sumum löndum hefur stjórnlyndum ráðherrum svo ofboðið seinagangurinn að þeir senda þingið heim um lengri eða skemmri tíma. Þær stjórnir köllum við síðan á forsíðum okkar einræðisstjórnir. Rökstuðningur þeirra er gjarnan eitthvað á þá leið, að hrun efnahagslífsins hafi blasað við, að þjóðlífið hafi verið í upplausn og þess fornu dyggðir, að verðbólgan hafi vefið komin á þjóðhættulegt stig og taka hafi þurft hlutina föstum tökum. Ég held við höfum raunar heyrt þessi rök á heimaslóðum.

Nú er ég ekki að segja að hæstv. ríkisstj. hafi vísvitandi vondar tilhneigingar til lýðræðisins. En ráðherrarnir eru börn síns tíma og þess stjórnarfars sem mótar þá. Og veikleiki íslenskra stjórnarfarshugmynda kemur einmitt skýrast fram í því að ríkisstj., sem stendur frammi fyrir stórkostlegum erfiðleikum að því er hún sjálf og aðrir segja, telur vænlegra að sundra þinginu og sundra þjóðinni frekar en að sameina og leita samvinnu. Og þessi veikleiki lýsir sér einnig í því, að stjórnarskrá, þing og þjóð skuli hafa liðið þetta þó svo lengi sem raun ber vitni. Ef óskað er styrkrar stjórnar vegna aðstæðna í lífi þjóðar sem af einhverjum hlutum skapast hlýtur að vera að samráð og samvinna séu lykillinn að árangri. Stjórn verður aldrei styrk með því að setja andstæðinga sína í stofufangelsi.

Þetta undarlega andrúmsloft, sem ríkir í kringum okkur, sem í raun og veru, ef vel er að gáð, afneitar lýðræðislegum aðferðum, krefst þess að við hugsum á nýjan leik hvernig við viljum skipa störfum og ábyrgð í þessu þjóðfélagi. Og við skulum byrja á Alþingi. Aðferðirnar — við skulum byrja að taka þar til — aðferðirnar í sumar byggðust á meira en aldargömlum ákvæðum um brbl. og raunar líka þingrof. Þessi ákvæði bera merki þess umhverfis sem þau eru sprottin úr. Brbl.-heimildin er svar við samgöngu- og sambandsleysi milli landa og landshluta á síðustu öld. Það er algjörlega ósamboðið ríkisstj. að nota þessa heimild núna. Þingrofsheimildin er arfur frá einræðisherrum fyrri alda og fer hreint ekki saman við lýðræðislega hugsun dagsins í dag.