02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Lárus Jónsson:

Virðulegi forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., hefur vakið umr. um önnur mál sem raunar eru tengd en kannske laustengd þessu máli og ég skal ekki finna sérstaklega að því. En ég vildi gjarnan leggja nokkur orð í belg um þá umr. sem hér hefur orðið um þetta mál.

Hv. þm. Eiður Guðnason, 5. landsk. þm., gerði því skóna að ég hefði skipt um skoðun í skattamálum, alveg sérstaklega að því er varðaði skatt á bensín, frá síðasta þingi þegar ég var í stjórnarandstöðu. Ég vil segja honum og hv. dm. að ég er alveg sömu skoðunar og ég var þá í þeim efnum. Hann tíundaði að skattar á bensín og bensínverð sérstaklega hefði hækkað mikið í krónum talið undanfarið, en ég vil benda honum á það og hv. þdm., að hér er að því er varðar skatta á bensín algerlega farið eftir þeirri vegáætlun sem Alþingi átti að fjalla um en var ekki hægt að fjalla um til fullnustu á s.i. vori. Í forsendum vegáætlunar er gert ráð fyrir að bensíngjaldið, sá skattur sem rennur til Vegasjóðs af bensíni, hækki eftir byggingarvísitölu. Því miður hefur það orðið svo, að byggingarvísitala og verðlag hefur hækkað mikið á þessu ári. Hraði verðbólgunnar vegna aðgerða ríkisstj. er mikið að minnka. En það hefur orðið mjög mikil hækkun á verðlagi í landinu á þessu tímabili. Það kemur þá annað í ljós ef það er ekki rétt hjá mér að skattar á bensín hafi ekki hækkað að raungildi um einn einasta eyri á þessum tíma. Bensíngjaldið, sem er ákveðið samkv. vegáætlun sem hv. þm. Eiður Guðnason og við aðrir þm. tókum þátt í að ræða og hann gat hér réttilega um að við hefðum staðið að, á að hækka samkv. byggingarvísitölu.

Allt um það höfum við bent á það hér undanfarin ár að hinir háu bensínskattar sem við Íslendingar greiðum hafi runnið í vaxandi mæli í ríkissjóð. Hlutur ríkissjóðs af bensínskatti hefur hækkað ár eftir ár, en aftur á móti hefur hlutfall þess fjár sem gengur til framkvæmda á vegum minnkað. Þetta atriði hef ég gagnrýnt mjög á undanförnum árum. Ég reiknaði það út fyrir einu ári, ef ég man rétt, að það hefði orðið gífurleg hækkun að raungildi á bensínsköttum undanfarin ár og nánast hver einasta raungildiskróna hefur runnið í ríkissjóð en ekki til vegaframkvæmda. Það var fyrst og fremst þetta sem ég gagnrýndi.

Í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, eru framlög úr ríkissjóði, sem má alveg eins skilgreina að séu hluti af því sem ríkissjóður innheimtir í bensínsköttum, sjöfölduð frá því sem er í ár. Því er gert ráð fyrir að hlutur ríkissjóðs, sá hlutur sem tekinn er af almennum sköttum sem fara til vegamála, aukist verulega á næsta ári. Þetta tel ég rétta stefnu. Ég tel að það sé eðlilegt, fyrst við borgum á annað borð svo háa bensínskatta sem raun ber vitni, að miklu meira af þeim fari til að byggja upp vegi í landinu til að létta mönnum rekstur sinna bifreiða þegar vegir verða betri. Þetta er það sjónarmið sem ég hef haft og hef enn.

Hv. þm. hafa undanfarið mjög mikið talað um að það hafi skerst kjör manna í landinu undanfarið vegna aðgerða ríkisstj. og þeir hafa í umr. hérna spurt: Hvaðan á að taka peninga? Hvar tekur fólkið peninga til að kaupa þau bréf sem hér er verið að tala um að ríkissjóður ætli að selja? Ég vil spyrja þessa hv. þm.: Halda menn að þjóðartekjur Íslendinga hafi raunverulega skerst vegna aðgerða ríkisstj.? Halda menn að þjóðartekjur Íslendinga væru meiri ef ríkisstj. hefði ekki tekið í taumana og óðaverðbólgan hefði haldið áfram, atvinnuvegirnir stöðvast? Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að í kjarasamningum eða þótt Alþingi ákveði á morgun að laun manna í landinu hækkuðu um 100% í krónutölu breytast þjóðartekjurnar ekki neitt í raunveruleikanum. Það verða ekki til peningar. Raunveruleg verðmæti verða ekki til í kjarasamningum. Raunveruleg verðmæti verða ekki heldur til með lagasetningu frá Alþingi. Við erum að tala um að þessar aðgerðir hafi fremur en hitt aukið raunverulegar þjóðartekjur. Þess vegna finnst mér að menn ættu að tala um það: Ef menn álíta að ekki séu raunveruleg verðmæti til hjá almenningi til að spara í því formi sem hér er verið að tala um er það að sjálfsögðu vegna þess að þjóðartekjur okkar hafa minnkað vegna aflabrests o.s.frv., en ekki vegna aðgerða ríkisstj.

Ég man að það er alveg rétt, sem hv. þm. Helgi Seljan 2. þm. Austurl. sagði áðan, að í stjórnarandstöðu gagnrýndi ég það á sínum tíma að það væri bjartsýni hjá fyrrv. ríkisstj. að ætla að afla þess fjár sem gert var ráð fyrir í lánsfjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Það er alveg hárrétt hjá honum að komið hefur í ljós að þetta var bjartsýni. Menn hafa líka á undanförnum árum ættað að afla meira innlends lánsfjár en þeir hafa getað gert í því formi sem hefur verið á boðstólum, þ.e. í formi spariskírteina. Spariskírteinasala hefur yfirleitt orðið allmiklu minni á undanförnum árum en menn hafa gert sér vonir um og ætlað að afla fjár af á innlendum markaði. Hér er nú verið að tala um aðferð til að auka framboð á sparnaðarformum á þann veg að Íslendingar hafi a.m.k. möguleika á því að lána sjálfum sér fé með sama.hætti og ef þeir mundu taka að láni erlendis með sömu kjörum. Ég held að þetta sé, eins og hér hefur komið fram, merkileg tilraun. Það getur vel verið að hún reynist ekki eins og menn hafa gert sér vonir um, en það er í rauninni ekkert annað sem hér er verið að gera og skiptir meginmáli. Að vísu eru tvær nýjungar í þessu frv. Það eru í fyrsta lagi skammtímavíxlar, sem menn gætu keypt, þeir sem hafa fé milli handa og vilja losa það fljótt aftur, og svo er það þetta SDR-form. Það er í rauninni ekkert annað gert með því en að gefa okkur Íslendingum kost á því að lána sjálfum okkur fé með sömu kjörum og útlendingar hafa gert undanfarið. Útlendingar, sem hafa lánað okkur í dollurum, hafa fengið sína dollara til baka. Við höfum borgað þá aftur og ákveðna vaxtafjárhæð. Þetta hafa verið miklu betri kjör en við höfum boðið Íslendingum að lána á t.d. til atvinnuveganna hjá okkur. Og ég minnist þess, fyrst menn eru nú farnir að rifja það upp sem ég hef sagt hér á undanförnum árum, að ég hef oft vakið máls á hvort ekki væri rétt, til að efla innlendan lánsfjármarkað, að gefa mönnum a.m.k. kost á því og sjá hvaða áhrif það hefur að Íslendingar sem spara fái sömu kjör og þeir bjóða fólki í útlöndum. Ég held þess vegna, og vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, mér hefur skilist það á þeim sem hafa hér talað, að hér sé um athyglisverða nýjung að ræða. Reynslan verður að sýna hvort Íslendingar telja þetta sparnaðarform fýsilegt og hvort þessi tilraun, að gefa þeim kost á að spara með sama hætti og við gefum útlendingum kost á að spara hér á landi, tekst. Ég er bjartsýnn á að þetta geti orðið vinsælt sparnaðarform.

Það er alltaf álitamál, að mínu mati, hvað ríkið á að gera mikið af því á þessu sviði, eins og lagt er til í frv., að bjóða sérstök sparnaðarkjör fram yfir það sem boðið er í bankakerfinu. Þar held ég að menn þurfi að hafa á ákveðið hóf. Í þessu sambandi er það alveg hárrétt hjá hæstv. ráðh., að út úr ríkissjóði verður á næstunni greiddur skyldusparnaður sem ríkissjóður lagði á á sínum tíma, 1978. Það kemur glöggt fram í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Ég skil satt að segja ekki þá spurningu, sem hér var lögð fyrir hæstv. ráðh., hvort ekki ætti að greiða þennan sparnað út. Það kemur alveg ljóst fram í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að svo verður gert. En þar er um að ræða verulegt útstreymi fjármagns úr ríkissjóði, tæplega 300 millj. kr. Þótt ríkissjóður fengi þetta fé í annarri mynd að láni hefði það ekki áhrif á innlenda lánsfjármarkaðinn. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því í þessu sambandi.

Það eru í aðalatriðum þrjár leiðir til þess að afla fjár til húsnæðiskerfisins. Ein er sú að taka innlent lán, önnur er sú að taka erlent lán og sú þriðja er að leggja á skatta og veita í þetta kerfi. Það eru í rauninni ekki til nema þessar þrjár leiðir og hér er ein þeirra leiða valin, þ.e. að afla innlends lánsfjár, og í leiðinni er Íslendingum boðið upp á að fá sömu kjör, ef þeir vilja spara sitt fé á Íslandi, og útlendingum er gefinn kostur á þegar þeir lána okkur Íslendingum fé. Ég held að þetta sé mjög athyglisverð tilraun. Reynslan verður að sýna hvort hún tekst og hér verður að endurmeta hlutina, þegar reynslan hefur sýnt hvernig þetta verður í framkvæmd. Þess vegna vil ég fagna því að þetta frv. er komið fram.