04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4464 í B-deild Alþingistíðinda. (3801)

218. mál, útvarpslög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við það frv. til laga sem hér er til umr. er ærið margt að athuga og þá fyrst og fremst það, að með því er nánast verið að kippa stoðunum undan rekstri Ríkisútvarpsins um leið og það situr uppi með allar kvaðirnar og skyldurnar. Eins og nú er búið að Ríkisútvarpinu er það ákaflega illa í stakk búið til að mæta samkeppni við fjársterka aðila og það er í raun og veru ástæða til að óttast atgervisflótta frá stofnuninni ef ekki er sett undir þann leka á einhvern hátt.

Ég tel það allt of mikla bjartsýni að halda að Ríkisútvarpið geti keppt við fjársterka aðila um mannafla og enn þá síður um efni. Við megum ekki gleyma því að meira en 60% alls sjónvarpsefnis er erlent efni. Starfsmenn Ríkisútvarpsins yrðu að fá rýmri fjárráð og frjálsari hendur til þess að samkeppnisaðilarnir keyptu ekki alltaf besta efnið beint fyrir framan nefið á þeim.

Það er fullkomlega ljóst að Ríkisútvarpið tapar umtalsverðum tekjum af auglýsingum með tilkomu frjálsra útvarpsstöðva. Auglýsingatekjur vega jafnþungt og afnotagjöld hjá hljóðvarpi, en talsvert minna hjá sjónvarpinu, þótt þar sé einnig um mikilvægan tekjustofn að ræða. Það er ólíklegt að Ríkisútvarpið haldi stórum hluta auglýsinga sinna af þeirri ástæðu einni að það verði eina útvarpsstöðin sem nær til allrar þjóðarinnar, eins og vikið er að í grg. Við megum ekki gleyma því hve stór hluti þjóðarinnar býr á suðvesturhorni landsins, þar sem ætta má að frjálsu stöðvarnar verði flestar, jafnvel svo til eingöngu og takist þeim sjónvarpsstöðvum sem settar verða á laggirnar að kaupa allt besta eða öllu heldur vinsælasta efnið fyrir framan nefið á starfsfólki Ríkisútvarpsins er augljóst að þangað fara auglýsingarnar líka. Það er einnig staðreynd að auglýsingar miðast að miklu leyti við þann hluta þjóðarinnar sem býr á þessu svæði. Í grg. með frv. segir að útvarpslaganefnd líti svo á að Ríkisútvarpið hljóti að mega hækka útvarpsgjald sitt sem nemur tapi auglýsingatekna. En ætli það gengi nú til lengdar, ef dagskráin verður svo óspennandi að enginn vill sjá eða heyra?

Ef við lítum svo nánar á einstakar greinar frv. er fyrst til að taka að í 2. gr. er fjallað um skipan útvarpsréttarnefndar sem veitir leyfi til útvarps. Ætti skv. þessum till. að kjósa sjö menn í þá nefnd hlutfallskosningu á Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Að dómi Kvennalistans væri það afleitt fyrirkomulag, rétt eins og það er atmennt afleitt að hafa flokkspólitísk ráð og stjórnir á sviðum menningar og lista. Það er álit Kvennalistans að menntmrh. eigi að skipa þá nefnd skv. tilnefningu ýmissa aðila, svo sem Sambands ísl. sveitarfélaga, Ríkisútvarpsins og samtaka útvarpsstöðva, eins og hv. þm. Friðrik Sophusson og Guðmundur H. Garðarsson leggja til á þskj. 493. En ég er ekki eins viss um að Póst- og símamálastofnunin eigi að hafa þar fulltrúa. Sú stofnun yrði hins vegar að sjálfsögðu alltaf ráðgefandi aðili.

Annað í brtt. þeirra félaga virðist ekki horfa til bóta. Með þeim eru þeir í raun að færa alla möguleikana enn frekar yfir á nýju stöðvarnar en eftirláta Ríkisútvarpinu allar skyldurnar og kvaðirnar.

En um hlutverk útvarpsréttarnefndar er það að segja að henni er ekki aðeins ætlað að veita leyfi til útvarps. Í 4. tölul. 3. gr. segir svo með leyfi forseta: „Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að útvarpsstöð hafi ekki uppfyllt framangreind skilyrði gagnvart þeim og synjar þeim um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dagskrá með hætti sem þeir vilja við una, geta lagt málið fyrir útvarpsréttarnefnd. Nefndin skal þá eins fljótt og við verður komið fella úrskurð um kæruefnið og er sá úrskurður bindandi fyrir málsaðila.“

Er þetta eðlileg skipan mála? Hér er útvarpsréttarnefnd hreinlega orðin að dómstóli með endanlegt úrskurðarvald.

Svo sem fram kemur í 4. tölul. 5. gr. er útvarp um þráð ekki háð skilyrðum í 2., 4., 7., 8. og 9. tölul. 3. gr., sé móttaka bundin við 36 íbúðir eða færri. Nú vitum við að allmikið er um slík kerfi og er mörgum áhyggjuefni að höfundaréttarlög séu fótum troðin í mörgum slíkum kerfum. Er ekki hægt á einhvern hátt að setja undir þann leka t. d. með því að skylda slíkar stöðvar til að greiða fast gjald í höfundaréttarsjóð? Ég varpa þessu nú svona fram til umhugsunar.

Þá vildi ég benda á 2. málsgr. 6. gr., þar sem segir að heimil sé móttaka dagskrár sem send er um gervihnött gagngert til dreifingar til atmennings. Ekkert hef ég nú við það að athuga, en spurningin er hvort þetta stangist e. t. v. á við 3. tölul. 3. gr., þar sem segir að óheimilt sé að veita erlendum aðilum leyfi til útvarpsreksturs.

Þá vildi ég fjalla hér um 13. gr. frv., þar sem kveðið er á um skipan útvarpsráðs. Þeirri skipan er Kvennalistinn algjörlega mótfallinn. Við leggjum til að útvarpsráð verði skipað af menntmrh. eftir tilnefningu. Rétt til tilnefningar í úrvarpsráð hefðu t. d. eftirtaldir aðilar: Samband ísl. sveitarfélaga, Bandalag ísl. listamanna, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands, Þjóðkirkjan og Neytendasamtökin. Auk þessara sex ættu sæti í útvarpsráði fimm starfsmenn Ríkisútvarpsins, eða samtals 11 manns. Við höfum ekki endanlega mótað þessa till., en munum væntanlega flytja hana sem brtt. við þetta frv. síðar.

Sú hugmynd hefur einnig verið rædd að hlutverk útvarpsréttarnefndar væri falið útvarpsráði.

Mikilvægt er að skilgreina hlutverk útvarpsráðs á annan hátt en gert er í 14. gr. Að okkar mati á útvarpsráð að leggja línu í dagskrárgerð og gagnrýna og fjalla um allt efnið eftir á. En það er afar mikilvægt að hendur starfsmanna séu ekki bundnar um of og ég tel að setning eins og þessi, að ákvarðanir útvarpsráðs um útvarpsefni séu endanlegar, eigi að fara út.

Við 15. gr. teldi ég einnig rétt að fella út setninguna: „Þó að fengnum tillögum útvarpsráðs“, sem er þarna í síðustu málsgr.

Hvað viðkemur III. kaflanum, það er kaflanum um fjármál Ríkisútvarpsins, vil ég fyrst nefna að í 16. gr. er kveðið á um að útvarpsstjóri ákveði útvarpsgjald að höfðu samráði við menntmrn. og er það vissulega til bóta. Hins vegar virðist mér í 17. gr. ekki tekin fullkomlega rétt stefna. Þar segir með leyfi forseta:

„Í sjóð, sem nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins, skal leggja 10% af brúttótekjum stofnunarinnar.

Aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau renni óskipt í sjóðinn.

Fé Framkvæmdasjóðs skal verja til að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.“

Er hér ekki of mikið hugsað um byggingar og tækni? Auðvitað eru það nauðsynlegir þættir í rekstri stofnunarinnar, en aðalhlutverk hennar hlýtur að vera dagskrárgerð. Það er að mínu mati atriði nr. 1, 2 og 3 eða að minnsta kosti nr. 1 og ég hefði talið að 5% af brúttótekjum væri nær lagi en 10%. Auk þess er ekki ljóst hér hvort aðflutningsgjöldin eru hugsuð sem hluti af 10% brúttótekna, sem nefnd eru í 1. málsgr., eða er ætlunin að aðflutningsgjöldin komi til viðbótar 10%? Ég beini þeirri spurningu til réttra aðila.

Áður en skilist er við fjármálin vildi ég varpa fram þeirri hugmynd að það fé sem Ríkisútvarpinu ber að greiða í söluskatt verði látið renna til dagskrárgerðar. Með einhverjum hætti verður að tryggja þessari menningarstofnun okkar fjárhagslegan grundvöll, tryggja að hún geti gegnt skyldum sínum sómasamlega. Þetta gæti verið ein leiðin.

Þetta eru helstu atriðin sem ég vildi nefna á þessu stigi málsins, en vildi að lokum undirstrika að þetta er stórmál sem hér er um að ræða. Markaðurinn er lítill og sú hætta er vissulega fyrir hendi að stoðum verði kippt undan Ríkisútvarpinu. En ég veit að enginn vill stuðla að því. Kvennalistinn vill fyrst og fremst stuðla að aukinni fjölbreytni í starfsemi Ríkisútvarpsins, fjölgun landshlutastöðva og frjálsari aðgangi félagasamtaka, skóla og ýmissa hópa að Ríkisútvarpinu sjálfu.