04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (3804)

218. mál, útvarpslög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til útvarpslaga og sú fyrsta spurning sem hlýtur að sækja á hugann er þessi: Hvernig fjölmiðlun viljum við hafa? Hvernig útvarp viljum við að sé starfrækt í landinu? Hvernig sjónvarp viljum við að sé starfrækt í landinu? Við eigum kost á því að fá sjónvarp þar sem dagskráin er rofin með stuttu millibili af auglýsingum, kannske á 10 mínútna fresti, og auglýsingarnar greiða kostnað við sjónvarpið að fullu. Við eigum einnig kost á því að fá útvarp með svipuðu fyrirkomulagi. Viljum við fá þannig sjónvarp? Viljum við fá þannig útvarp?

Ég held að í þessari umr. hljótum við fyrst að gera það upp við okkur hvernig við viljum að starfræksla þessara fjölmiðla sé. Ég vil í þessu sambandi byrja á því að leggja höfuðáherslu á menningarhlutverk útvarps og sjónvarps, og þar innan veggja að sjálfsögðu fræðsluskyldu þessara fjölmiðla. Ég er ekki í neinum vafa um það að íslenska útvarpið hefur sinnt þessum þætti mjög vel í gegnum tíðina og ég hygg að það sé nokkuð óumdeilt meðal íslenskrar þjóðar að svo er. Sjónvarpið hefur ávallt verið umdeildara varðandi menningarhlutverkið, hversu það hefur rækt þann þátt.

Annað atriði sem ég vil setja í öndvegi þegar við ræðum fjölmiðlun eru tjáningarmöguleikar fjöldans í gegnum þessa fjölmiðla. Við viljum vissulega að Íslendingar eigi sem flestir kost á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég vil einnig undirstrika að ég tel að að mörgu leyti hafi Ríkisútvarpið sinnt því hlutverki nokkuð vel. Sjónvarpið hefur haft takmarkaðri möguleika og heldur ekki gefið jafnmörgum kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Í þriðja lagi vil ég setja fram kröfuna um heiðarlegan fréttaflutning, heiðarlega umfjöllun um málefni innanlands og erlendis. Ég vil geta þess í þessu sambandi að ég hygg líka að almenningur í þessu landi sé þeirrar skoðunar að útvarp og sjónvarp hafi verið nær því að fjalla á hlutlausan og heiðarlegan hátt um innlend og erlend málefni heldur en þau blöð sem gefin eru út í landinu. E. t. v. finnst mönnum þetta nokkuð þungur dómur, en hluti af þessu er að sjálfsögðu það, að útvarp og sjónvarp hafa verið það sterkir fjölmiðlar að þau hafa haft aðstöðu til að leggja meira fjármagn í gagnasöfnun en sennilega flestir aðrir fjölmiðlar hér á landi.

Í fjórða lagi tel ég að það sé algert grundvallaratriði að öllum almenningi þessa lands séu tryggð afnot af þessum fjölmiðli á eðlilegu verði, á lágu verði. Þetta finnst kannske einhverjum að stingi í stúf við hitt, sem ég hef hér sagt, en ég sé lítinn tilgang í því að vera með góða fjölmiðla ef við höfum gjöldin svo há að almenningur, fátækasti hluti þjóðarinnar, treystir sér ekki til að njóta þeirra. Þá værum við vissulega komin á villigötur.

Eitt af því sem þeir sem sömdu.þetta frv. virðast ekki hafa hugsað mikið út í er einmitt gjaldþol almennings í landinu. Fólkið hefur ekki ótakmarkaða fjármuni til að greiða fyrir þessa þjónustu. Það verða menn að taka með í reikninginn. Það kom fram hér í umr. atriði sem ég vil sérstaklega undirstrika að ég tel að sé grundvallaratriði sem þurfi að gera sér grein fyrir einnig. Það kom fram hjá hv. 7. landsk. þm. að markaðurinn er lítill. Við erum fámenn þjóð. Er rekstrargrundvöllur fyrir eitt sjónvarp, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex, sjö, átta, níu eða tíu í þessu landi og þá hvernig? Sjónvörp, sem mundu þá ná til Reykjavíkursvæðisins eins eða alls landsins, byggð upp á auglýsingum, byggð upp á afnotagjöldum algerlega? Hver er hugsunin á bak við það? Eða vilja menn ekki ræða rekstrargrundvöll í þessu sambandi?

Í öðru lagi er það samkeppnin. Hvert stefnir tækniþróunin á þessu sviði? Hún stefnir mjög ört í það að við hér uppi á Íslandi getum tekið á móti dagskrám frá öðrum sjónvörpum utan úr heimi einfaldlega beint á tækið í stofunni hjá okkur. Það er örstutt í það. Ég hefði talið að það væru ekki nema örfá ár þangað til við eigum slíkt val. Þá vaknar sú spurning: Viljum við reka marga fjölmiðla sem keppa við slíkan fjölmiðil? Höfum við styrkleika til þess eða erum við vegna fámennis okkar nauðbeygð, ef við ætlum að hafa okkar fjölmiðil samkeppnisfæran, að hafa bara einn í slíkri samkeppni? Við höfum þegar samkeppni við hljóðvarp frá öðrum löndum og menntun þjóðarinnar hefur þróast mjög ört á þann veg að fleiri og fleiri hafa tileinkað sér erlend tungumál og geta notið slíkrar dagskrár. Allt ber þetta að sama brunni varðandi það atriði að samkeppnin utan úr heimi á eftir að fara hraðvaxandi á næstu árum.

Þá komum við að því sem mest er haft hér á oddi, að við viljum tjáningarfrelsi. Spurningin er aðeins: Þurfum við að stofna ný útsendingarfyrirtæki til þess að koma tjáningarfrelsinu á í ríkara mæli en það er í dag eða er hægt að koma því tjáningarfrelsi á innan þeirra stofnana sem eru til staðar? Ég vil halda því fram að þegar útvarpið er komið með Rás 1 og Rás 2 um land allt, þá sé það skynsamleg stefna að leigja félagasamtökum, einstaklingum og fyrirtækjum aðgang að annarri rásinni á ákveðnum tímum og gefa þannig rými innan þessarar dagskrár fyrir meira tjáningarfrelsi en er í dag. En tæknibúnaðurinn yrði eftir sem áður í eigu útvarpsins. Með því að fara þá leið væri tryggt að allir landsmenn ættu möguleika á að njóta þeirrar aukningar sem yrði í tjáningarfrelsi. Ég hygg að innan sjónvarpsins séu ýmsir möguleikar líka til á þessu sviði og það væri sjálfsagt að hagnýta sér þá. En ég vil bæta því við að sjónvarpið á eftir í vaxandi mæli að keppa við almenningsbókasöfn þessa lands sem munu lána út myndsegulbönd til nota í heimahúsum. Að sjálfsögðu er það mesta frelsið að hafa rétt til þess að velja í almenningsbókasafni þær kvikmyndir sem maður vill horfa á og annað efni og sýna það heima hjá sér í gegnum myndsegulband. Það er það sem við viljum hafa og það vinnur gegn mötuninni sem allt of mikið er af í dag í þjóðfélaginu. Þannig velur einstaklingurinn sér sína dagskrá sjálfur að stórum hluta alveg eins og þjóðin hefur fengið að gera með bókum. Hún fer í bókasafn og fær sér bækur til aflestrar en vill ekki láta mata sig bara með upplestri. Þess vegna er eðlilegt að stefna að því að létta svo gjöldum af þessum tækjum að þau verði almenningseign og allur almenningur geti notað þau.

Ég hygg að umr. um stefnuna í þessum málum hljóti að taka tillit til þessa vegna þess að ef við föllum ofan í þá gryfju að telja rekstrargrundvöllinn ekki skipta neinu máli eða markaðinn ekki skipta neinu máli erum við fyrst og fremst að stefna að því að hér verði margar sjónvarpsstöðvar, en allar lélegar. Ég er einnig sannfærður um það varðandi útvarpið að þó að einhverjir telji af áróðursástæðum að þeirra rými í fjölmiðlum á Íslandi sé ekki nægilega mikið og þeir vilji fá meira svigrúm hvað það snertir þá mundu hinir sömu reka upp mikið harmakvein ef tekin yrði sú stefna að ríkið færi að gefa út dagblað og setja í það það fjármagn sem þyrfti til þess að upplagið væri stórt, verðið lágt og útbreiðslan mikil. Auðvitað væri það aukin samkeppni á sviði fjölmiðlunar og trygging fyrir því að fleiri gætu látið ljós sitt skína í blöðum. En hefðu menn áhuga? Ég efa það.

Það er nefnilega hárrétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. að hlutföllin í yfirráðum yfir fjölmiðlun í landinu eru þau í dag að hægri öflin hafa algjöra yfirburði í blaðaheiminum, svo mikla yfirburði að það er nánast skoplegt hver staðan er hjá hinum. Og hver skyldi nú skýringin vera? Hvaðan kom fjármagnið og hvaðan kemur fjármagnið í þessu skyni? Við þurfum ekki annað en að fletta blöðunum til að átta okkur á því. Fjármagnið kemur í gegnum auglýsingar fyrst og fremst. Þá er það spurning hvort við teljum að besta fjölmiðlunin í landinu eigi að þróast skilyrðislaust eftir því lögmáli að handhafar auglýsingavaldsins eigi að ráða. Þetta er einföld spurning og það er einfalt svar.

Mín skoðun er nei. Ég tel að með því móti væri búið að taka þá ákvörðun að þröngur hópur Íslendinga ætti að hafa aðstöðu til þess að ráða óeðlilega miklu um skoðanamyndun í landinu. Ég vil vekja á því athygli að þar sem blaðarisar hafa náð tökum úti í hinum stóra heimi hefur farið svo að í nafni frelsisins hefur mörgum manninum ofboðið sú staða sem upp hefur komið.

Ég hef í minni umfjöllun hér fyrst og fremst gripið á grundvallaratriðum þessa máls, ekki lagagreinum. Það verður að sjálfsögðu gert í nefndum. En ég hygg að það sé grundvallaratriði að menn gefi sér tíma og vinnufrið til að sinna því verkefni að fara yfir þetta frv. í nefndum í þinginu. Það væru nánast óafsakanleg vinnubrögð ef menn ætluðu að fara að hraðkeyra þetta í gegnum þingið, fyrir utan það hvílík vanvirða það væri við nefndir þingsins og þeirra hlutverk. Þess vegna vil ég taka mjög sterkt undir það með hv. 5. þm. Reykv. að þetta þarfnast ítarlegrar umfjöllunar.

Ég tel að rekstur Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins hafi verið til stuðnings fyrir íslenska menningu og rekstur útvarpsins tvímælalaust til stuðnings fyrir íslenska tungu. Í þeim sterku menningarstraumum sem um okkur leika hljótum við að gá mjög vel að okkur áður en við veikjum slíkan fjölmiðil. Menn hljóta að verða að gera sér grein fyrir því, áður en þeir leggja til að hinir ríkisreknu fjölmiðlar séu teknir og gerðir fjárhagslega veikburða, hvort þeir telja að þeir séu að fá eitthvað annað meira og betra í staðinn. Ég er einn af þeim sem geta ekki státað af stórum ferðalögum um heiminn, en ég hefði ekki áhuga á því að íslenska sjónvarpið væri svipað og t. d. það sem mönnum býðst að horfa á í stórborginni New York. Það væri ansi hvimleitt að geta aldrei horft á nema kvikmynd til enda án þess að fá auglýsingar á milli.

Ég hygg að það sé ærin nauðsyn að þjóðin gleymi því ekki að hún þarf að sníða sér stakk eftir vexti á mörgum sviðum. Það er mikið alvörumál hvort við þurfum ekki að reyna nú að setjast niður og ná sáttum um það að auka tjáningarfrelsið í hinum ríkisreknu fjölmiðlum, koma þar fleiri sjónarmiðum á framfæri en tryggja það jafnframt að rekstrargrundvöllur þeirra sé tryggður án þess að yfir á alþýðu þessa lands sé velt nýjum byrðum í skattlagningu með því að hækka aðstöðugjöldin úr hófi fram vegna þess að auglýsingatekjur töpuðust.

Ef við tökum ákvörðun um það með lagasetningu hér í þinginu að ræna Ríkisútvarpið og sjónvarpið auglýsingatekjum erum við annahvort að leggja til að dagskrá þessara fjölmiðla verði gerð ómerkilegri en hún er í dag eða við erum að leggja til að yfir á alþýðu þessa lands sé velt nýjum byrðum. Það er ekki nema um tvennt að ræða í þessu sambandi. Þess vegna hygg ég að þó að menn e. t. v. við skyndilestur á þessu frv. komist að þeirri niðurstöðu að það sé verið að stefna að meira frelsi og meiri möguleikum á fjölbreyttari fjölmiðlun í landinu gæti svo farið við nánari umhugsun að breytingin yrði fyrst og fremst sú að eigendurnir yrðu fleiri að fjölmiðlunartækjum og fyrirtækjum í landinu en fjölmiðluninni færi aftur en ekki fram.

Ég hef miklar efasemdir við þetta frv. og tel að meðan við erum ekki komnir lengra með að koma þaki yfir þá stofnun sem ríkið ber ábyrgð á, íslenska útvarpið og sjónvarpið, en við erum komnir í dag eftir öll þessi ár sé varla hægt að tala um að stofnunin hafi verið ofalin til þessa. Þeir sem leggja til að nú verði dregið úr þeim vaxtarmöguleikum sem hún hefur eru að mínum dómi að veikja þessa stofnun. Þeir eru að veikja hana á sama tíma og fyrirsjáanlegt er að erlendir fjölmiðlar muni í vaxandi mæli keppa við íslenska sjónvarpið og hljóðvarpið.

Ég vil aftur á móti undirstrika það til að fyrirbyggja allan misskilning að ég er sammála því að það þarf að breyta túlkuninni á hugtakinu hvað sé útvarp og hvað sé sjónvarp. Ég tel það ekki sjónvarp þó að kapalkerfi sé lagt innan veggja fjölbýlishúss. Það er aðeins verið að tala um myndsegulband með mörgum skermum í mínum huga undir þeim kringumstæðum. Ég tel það að sjálfsögðu ekki útvarp þó að skóli gefi nemendum kost á því að koma á framfæri hjá sér eða í sínu nánasta umhverfi einhverjum upplýsingum í gegnum tæknibúnað.

En ef við aftur á móti förum að fjölga hér stöðvum, sem ná til takmarkaðs hluta landsins, en ná þó e. t. v. til 60% þjóðarinnar, erum við að stuðla að því að Íslendingar klofni upp í enn ríkari mæli í fleiri menningarheildir með ólíkari viðhorf. Ég tel að við höfum ekki efni á því að halda áfram að breikka bilið sem er milli þéttbýlis og dreifbýlis.