04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4476 í B-deild Alþingistíðinda. (3807)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég skila hérna minnihlutaáliti við frv. til l. um breytingu á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Það er nokkuð merkileg lexía að kynna sér afskipti stjórnmálamanna af fyrirtækjarekstri í landinu. Í sjávarútvegi hefur þetta verið gert í áratugi með þeim afleiðingum að mesti aflaáratugur Íslandssögunnar hefur komið sjávarútveginum, bæði veiðum og vinnslu, í óreiðuskuldir svo að nemur hundruðum millj. kr. Þetta hefur gerst á ýmsan hátt. Þetta hefur gerst með því að stjórnmálamenn hafa haft hendur í bagga með lánveitingum, styrkveitingum og öðrum athöfnum sem í þessum greinum eru kunnar. Það sem hér er sérstaklega til umr. eru afskipti stjórnmálamanna af verðlagsákvörðunum í greininni. Um árabil hefur verið fylgt þeirri aðferð að reikna út meðaltal og reyna út frá þeim reikningum að koma einhverju viti í rekstur.

Það er dálítið fróðlegt t. d. að athuga hvernig staðið er að þessum meðaltalsreikningum í sambandi við það mál sem hér er til umr. Til þess að ákveða um afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi, bæði í skreið og saltfiskverkun á árinu 1984, er tekin útkoma ársins 1982. Það er síðasta árið sem til er vel útfærð og almennileg skilagrein. Síðan er gert ráð fyrir að innbyrðishlutföll vinnslugreina, sem voru á árinu 1983, haldist áfram til ársins 1984. Þá eru teknar áætlanir um markaðsverð eða þróun markaðs og þróun gengis. Þetta eru tölur frá 1982. Með þessum áætlunarstuðlum er reiknuð út einhvers konar meðalafkoma fyrirtækja á árinu 1984 og á grundvelli þessa á síðan að skammta fólki laun og ákveða ýmislegt um afkomu þjóðarbúsins. Niðurstaðan er 5.5% útflutningsgjald af saltfiski og skreið á að fara niður í 4%.

Þetta eru nú vinnubrögðin sem hafa viðgengist í þessari grein, enda sjáum við árangurinn. Eftir tvo áratugi af þessu fyrirkomulagi síðan fyrstu lögin um verðlagsráð voru sett er svo komið að athafnamenn í sjávarútvegi eru nú bónbjargarmenn við borð stjórnmálamannanna, koma hingað á fundi hjá þingnefndum og biðja um að fá niðurfellingar eða millifærslur eða einhverja aðra fyrirgreiðslu til þess að þeir geti rekið fyrirtæki sín. Allt saman á þetta að stuðla að vexti og viðgangi í efnahagslífinu.

Þetta er hryggileg niðurstaða ríkisstj. sem hafði það eitt af aðalstefnumörkum sínum að stuðla að nýsköpun í efnahagslífinu. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að hér örli á tilraunum til nýrra vinnubragða. Það var meiningin með lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins, eins og þau voru sett 1961, að hér yrðu frjálsir samningar þeirra sem selja fisk og þeirra sem kaupa fisk með lágmarksafskiptum ríkisvaldsins einungis í nauðvörn, en nú er svo komið að þessir hraustu og marglofuðu undirstöðuatvinnuvegir landsins eru, eins og ég segi, beiningamenn við borð stjórnmálamannanna.

Ég hef skilað séráliti um þetta á þskj. 557 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í grg. með frv. þessu er það flutt í framhaldi af ákvörðun um fiskverð. Nú nema vanskilaskuldir sjávarútvegs hundruðum millj. og skuldadæmi greinarinnar í heild er talsvert á annan milljarð. Þó eru nýafstaðin einhver mestu aflaár Íslandssögunnar. Allar athafnir í sjávarútvegi, bæði veiðar og vinnsla, hafa á þessum árum verið meira og minna undir forræði ríkisvaldsins. Þar koma til lán, styrkir og verðlagsákvarðanir sem eru komnar langt frá markmiðum laganna um Verðlagsráð frá 1961. Tilgangur laganna var að koma á frjálsum samningum milli kaupenda og seljenda án beinna afskipta ríkisstj. Hins vegar hefur reyndin orðið sú að embættismenn í krafti ríkisstj. ákveða fiskverð. Það hefur orðið þeirra hlutskipti að bera kröfur samningsaðila til ríkisstj. og flytja síðan til baka boðskapinn um aðgerðir stjórnarinnar, svo sem gengisfellingar og millifærslur úr sjóðum og niðurgreiðslur. Þetta fyrirkomulag á auðvitað ekkert skylt við frjálsan atvinnurekstur. Þetta kerfi ríkisforsjár og meðaltalsreikninga til núllafkomunnar hefur firrt atvinnurekendur því frumkvæði og ábyrgð sem er nauðsynleg fyrir heilbrigðan atvinnurekstur. Í þessu kerfi þrífst hallærisrekstur sem heldur niðri launum fólks og stórgróðarekstur sem fitnar eins og fjóspúki.

Það frv. sem hér er til afgreiðslu er skilgetið afkvæmi þessarar óábyrgu ríkisforsjár og er undarleg niðurstaða ríkisstj. sem þykist standa fyrir nýsköpun. Minni hl. mun ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls.“