02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Þetta litla frv., sem hæstv. fjmrh. flytur, hefur nú orðið tilefni viðamikilla umr. af ýmsu tagi. Hefur margt borið á góma, þ. á m. vegamál og fjáröflun til þeirra. Ég verð nú að segja alveg eins og er, að mér hefur löngum fundist að tal manna um fjáröflun til vegagerðar, sérstaklega þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu, hafi verið svo hræsnisfullt og yfirborðskennt oft og tíðum, og ekki síst á seinustu árum, að þar beri okkur sem nú hverfum í stjórnarandstöðu að varast að falla í sömu gryfju.

Staðreyndin er auðvitað sú, að álögur á umferð hafa verið fólgnar í álagningu sérstaks vegagjalds og þetta vegagjald hefur ósköp lítið breyst öðruvísi en í hlutfalli við byggingarvísitölu nema hvað snertir allra stærstu bifreiðarnar. Þar var gjaldið hækkað svolítið meira en á öðrum fyrir rúmu ári með tilliti til þess að stærri bifreiðar slitu vegum meira en minni bifreiðar. Að öðru leyti hefur gjaldið fylgt nokkurn veginn alveg í kjölfar hækkunar byggingarvísitölu, meira að segja oft verið töluvert mikið á eftir. En í hvert skipti sem vegagjaldið hefur verið hækkað vegna þess að byggingarvísitala hefur hækkað hafa menn rokið upp og talað um nýjar álögur á landsmenn, þó að þarna væri einungis verið að hækka krónutölu vegna verðrýrnunar krónunnar og þannig fá inn jafnmikil verðmæti svo að hægt væri að halda óbreyttum vegaframkvæmdum.

Vegagerð hér á landi jókst mjög verulega á árinu 1980 í kjölfar vegáætlunar, sem þá tók gildi og hafði verið undirbúin af stjórninni þar á undan, og með þessari vegáætlun varð mikil framför í vegaframkvæmdum víðs vegar um land, eins og sjá má á því hvað vegir víða um land hafa tekið miklum stakkaskiptum undanfarin þrjú ár. En eftir sem áður er óhætt að fullyrða að átögur á umferðina hafa ekki aukist. Það verður að viðurkennast að þessar miklu framkvæmdir hafa fyrst og fremst verið fjármagnaðar með lántökum. Ég vil þó taka fram að þar hefur fyrst og fremst verið um innlenda lánsfjáröflun að ræða og það hefur einungis í undantekningartilvikum, og þá fyrst og fremst þegar um hefur verið að ræða sérstaka fjármögnun til byggðavega, Hafísvegar eða útkjálkavega á vegum Framkvæmdasjóðs, verið um að ræða erlendar lántökur í þessu skyni.

Það sem nú er aftur á móti að gerast er það, að það er greinilegt á nýju fjárlagafrv. að taka á lán erlendis í stórauknum mæli til að halda vegagerð í fullum gangi áframhaldandi. Það er mál út af fyrir sig sem við ræddum lítillega þegar fjárlögin voru hér til umr. og er vissulega óheillaþróun, en skal ekki gert hér frekar að umræðuefni.

Auðvitað gerir núv. ríkisstj. sér fulla grein fyrir því, eins og fyrrv. ríkisstj., að það er mikil nauðsyn að efla innlenda sparifjármyndun og reyna að koma í veg fyrir miklar erlendar lántökur. Þess vegna er þetta frv. hér flutt. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að menn þreifi sig áfram og leiti nýrra leiða til að efla innlenda sparifjármyndun. Sú nýjung sem kemur hér fram er fólgin í því, að heimilt er að leyfa útgáfu skuldabréfa og víxla sem miðuð væru við gengi erlendra gjaldmiðla. Þetta er talsvert mikið nýmæli, sem ég tel þó alveg hættulaust í sjálfu sér, og ef það getur skilað ríkissjóði og opinberum aðilum auknu innlendu lánsfé umfram það sem verið hefur er það auðvitað af hinu góða. En spurningin er bara hvort þetta nýmæli örvar kaup á skuldabréfum eða ekki. Ég verð vissulega að draga mjög í efa að svo sé.

Það má vissulega til sanns vegar færa, sem hv. þm. Lárus Jónsson sagði hérna áðan, að nú um stutt skeið hafa lán sem bundin hafa verið við dollara gefið lánveitanda meira í sinn hlut en verðtryggð lán, en það er bara vegna þess að við höfum búið við það óvenjulega og sérstaka ástand að dollarinn hefur verið að hækka í verði. Það er engin önnur skýring á því. Við vitum að það er mikil sveifla á erlendum myntum og þegar viðkomandi mynteining er að hækka verulega í verði skapast betri kjör meðan á því stendur. En það er skammgóður vermir og ég held að menn þurfi ekki að rannsaka lánamarkað og kjör á lánamarkaði lengi til þess að sannfærast um að gengistrygging er almennt miklu lakari lánskjör en verðtrygging. Gegnum árin sýnir reynslan það og það er enginn vafi á því að sá maður sem tekur lán með gengistryggingu er að taka á sig verulega áhættu því að hann getur kannske lent í því eitt árið að fá nánast ekkert í sinn hlut, ef viðkomandi gjaldmiðill er að falla í verði. (LJ: Það eru hærri vextir af þessum lánum.) Það eru að vísu miklu hærri vextir, en staðreyndin er sú, að það er líka veruleg alþjóðleg verðbólga í veröldinni og hún kemur þarna til frádráttar beint eða óbeint, að vísu stundum að litlu leyti, ef viðkomandi myntir eru að hækka í verði, en stundum í stórum mæli, ef þær eru að lækka, og í heildina tekið eru þetta heldur óhagstæð kjör.

Ég segi fyrir mig, að ég mundi ekki hika eitt andartak, ef ég ætti völ á þessu tvennu, að taka verðtryggðu kjörin vegna þeirrar reynslu sem fyrir hendi er á seinustu 10–20 árum. Það er ekki hægt að taka í þessu sambandi eitt ár út úr eða eitt misseri og velta því fyrir sér hvernig kjörin eru í það og það sinnið. Það eru lánskjörin að meðaltali, þegar til lengri tíma er litið, sem skipta máli og þá er enginn vafi á að verðtryggðu kjörin eru hér á landi miklu hagstæðari.

Hvort fólk gerir sér grein fyrir þessu eða ekki skal ég ekki um segja. Það má vel vera að sumir gíni við þessum nýju kjörum í gengistryggingu og vilji frekar festa fé sitt með þeim hætti. Þá er sjálfsagt að þeir geri það og að það sé fullkomið frjálsræði í þessum efnum. Ég vil sem sagt ekki álasa hæstv. fjmrh. fyrir að ætla að gefa út skuldabréf með þessum hætti, en ég dreg mjög í efa að mikill árangur verði af þessu skuldabréfaútboði, að það breyti miklu um innlenda lánsfjáröflun.

Hitt er annað mál, að í lok 2. gr. eru mjög óvenjuleg og sérstök ákvæði, sem ég skil nú ekki almennilega hvernig á að framkvæma, en þar segir, með leyfi forseta: „[Fjmrh.] getur einnig ákveðið í stað forvaxta að víxlar þessir verði seldir á almennum markaði, þar á meðal samkv. tilboðum.“ Maður gæti jafnvel ímyndað sér að það ætti að fara að selja þessa víxla á hálfgerðum uppboðum, menn fengju þessa víxla bara eftir því hver byði best. Ég er ansi hræddur um að útkoman á því yrði harla óhagstæð fyrir ríkissjóð, ef mikið yrði gert af þessu. En þetta er mál sem ekki skiptir ýkjamiklu.

Ég tók eftir því núna á haustmánuðum að hæstv. fjmrh. neitaði Seðlabankanum að gefa út spariskírteini og hafði ákveðin rök fyrir því, sem ég skildi aldrei almennilega, en ég vildi nú spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort einhver breyting hefði orðið á í þessum efnum og hvort spariskírteini eru ekki nú þegar á markaðnum eða hvort þau verða það ekki innan tíðar. Ég hef orðið var við það í haust að fólk hefur verið að leita að þessum bréfum í bönkum en ekki fundið, og mér hefur verið sagt að spariskírteini hafi alls ekki fengist gefin út, og þá hafa menn kannske gert eitthvað allt annað við sína fjármuni. Þetta tel ég að sé ekki mjög hyggilegt af ríkissjóði, sérstaklega þegar illa gengur um spariskírteinasölu, eins og verið hefur á þessu ári, og vildi spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig þessi mál standa nú.