05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4492 í B-deild Alþingistíðinda. (3825)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hygg að 3. þm. Vestf. hafi alls ekki ætlað sér að veitast að forseta, heldur hafi hann ætlað sér að veita hv. 4. þm. Vestf. vissar ákúrur fyrir afstöðu hans í þessu máli.

En víkjum að alvörunni. Það blasir við að fiskifræðingar boðuðu okkur með svartri skýrslu að ekki væri rétt að veiða meira en 220 þús. tonn af þorski á því herrans ári 1984 og hæstv. sjútvrh. óskaði eftir því að fá umboð til að standa þannig að málum að hann hefði það nokkuð í hendi sér hversu mikið yrði veitt. Ég hygg að það sé svo með alla þm. að þeir séu reiðubúnir að standa að erfiðum ákvörðunum þegar þeirra er þörf. Nú er það aftur á móti svo með fiskifræðingana og veðurfræðingana að þeir fjalla um mál í spásagnar- eða áætlunarstíl. Enn er ekki komið svo fyrir Íslendingum þegar þeir labba úti á götu í ausandi rigningu, þó að veðurfræðingur hafi spáð sólskini, að þeir trúi því að hann hafi haft rétt fyrir sér þó sérfræðingur sé. Og jafnvel þó að þeir viðurkenni að veðurfræðingarnir viti miklu meira um veðrið en þeir taka þeir undir þeim kringumstæðum mið af staðreyndum, þ. e. þeirri staðreynd að það er rigning. Sú spurning vaknar þegar Breiðafjörður fyllist af þorski, þannig að það er landburður af þorski, hvort taka megi mark á þeirri staðreynd eða hvort enn skuli því trúað að litlu muni að aldauður sé þorskur við Íslandsstrendur.

Nú rengi ég það ekki að hæstv. sjútvrh. er mikill friðunarsinni því að hvalurinn var afgreiddur og friðaður að hans ráðum á sínum tíma. En ég hef nú talið að hann væri ekki þeirrar skoðunar að friða bæri þorskinn ef hægt væri að veiða hann. Ég vil minna á að í svörtu skýrslunni var stórt ef; ef ekki kemur fiskur frá Grænlandi. Nú er mér sagt af sjómönnum að þeir séu að veiða fisk frá Grænlandi, þó að þeir viðurkenni að sá fiskur sem er á Breiðafirði sé almennt ekki þaðan. Okkur hafa einnig borist fréttir um að klakið í fyrra hafi tekist vel, mjög mikið sé af seiðum. Hvernig fær það staðist ef þorskstofninn er hér um bil hruninn að hann skili þessu klaki? Hvað hefur gerst í þeim efnum? Er það e. t. v. niðurstaðan í því máli að það séu aðstæðurnar í sjónum, skilyrðin í sjónum sem skipti mestu máli um hversu vel klak tekst hverju sinni en ekki stærð þorskstofnsins, enda ekki svo lítið sem kemur frá hverjum þorski?

Ég ætla að þær umr. sem hér fara fram þurfi að skiptast í tvennt að því leyti að það er eitt að ákveða kvóta og annað að ákveða að hér skuli ekki veidd nema 220 þús. tonn af þorski. Ég ætla að byrja á að víkja að kvótanum sem slíkum.

Við sem höfum miklar efasemdir en studdum með fyrirvara engu að síður að gerð yrði tilraun með kvótann höfum í dag fengið þær fréttir úr þjóðlífinu sem sanna að sá efi hefur ekki reynst ástæðulaus. Í fyrsta lagi er eftirlitið með kvótakerfinu algerlega í molum. Það er hægt að landa fiski fram hjá kvóta á flestum stöðum á Íslandi. (Gripið fram í.) Á Suðurnesjum öllum, hv. þm. (KSG: Það finnst ekki slíkur óheiðarleiki þar.) Það var enginn að ræða um óheiðarleika. Það var verið að ræða um hvort þetta væri hægt. Mér er sagt að það sé líka hægt fyrir austan og mér er sagt að það sé einnig gert fyrir austan.

Ég vil bæta því við að við óttuðumst það margir að fiskur sem væri lélegur í netum kæmi aldrei að landi, honum væri einfaldlega hent. Okkur hefur verið sagt af þm. Sunnlendinga að það sé staðreynd, þessum fiski sé hent. (Gripið fram í: 40%.) 40%, fullyrti hann. Þegar hæstv. sjútvrh. spyr fiskkaupmenn á Suðurnesjum að því hvort fiskurinn sé ekki betri en þeir fengu í fyrra, þá skyldi engan undra þó hann sé betri ef 40% aflans koma aldrei að landi. Það er undarlegt ef svo er komið að menn halda að sá sem er með 3. flokks fisk og veit að hann fær sáralítið fyrir hann fer að koma með hann að landi ef hann telur að með því einu að fleygja honum geti hann komið með 1. flokks afla úr næsta róðri. Og það hefur áður skeð að fiskur hefur flotið dauður. Þetta gerðist á sínum tíma þegar svo fáránlegar reglur voru settar um síldveiðar að það var ekki hægt að fara eftir þeim.

Hæstv. sjútvrh. virðist trúa því statt og stöðugt að hægt sé að setja upp svona kerfi og hafa nánast ekkert eftirlit með því. Ég veit ekki betur en það hafi ýmsir aðilar komið á fund þeirrar nefndar sem sér um úthlutun veiðileyfanna til að koma því á framfæri að þeir hafi verið með meiri afla en skýrslur Fiskifélagsins hafi borið með sér. Það skyldi þó ekki verða, þegar upp er staðið, að það komi í ljós að allmargir aðilar landi meiri fiski en kvótinn leyfir og láti á það reyna hvort það heldur eða ekki. Kvótakerfi hefur verið reynt hjá Efnahagsbandalagi Evrópu og hver var niðurstaðan að dómi Englendinganna þegar þeir sendu eftirlitsmenn til Frakklands? Frönsku eftirlitsmennirnir horfðu til himins, þegar hinir bentu þeim á síldina í kössum, og sögðust ekki sjá neina síld. Ég er ekki búinn að sjá að hægt sé að slá því föstu að sú reynsla sem þar átti sér stað komi okkur ekkert við og það sé hægt að framkvæma svona kerfi án þess að eftirlit sé haft með því. — Hæstv. sjútvrh. er genginn úr salnum. (KP: Hann var búinn að fá nóg greinilega.)

Ég vildi einnig koma því á framfæri að þegar úthlutað er blönduðu kvótakerfi getur svo farið að línubátur sem hefur mátt veiða visst magn af ýsu, visst magn af steinbít og visst magn af þorski sé kominn það nálægt kvótanum að menn verði að fara að lemja af önglunum þá fiska sem álpast hafa til að bíta á án þess að hafa leyfi til þess að koma í land því að það passar ekki aflasamsetningin. Þetta er einnig alþekkt í löndum þar sem kvótakerfi er. Danskir sjómenn sigldu skipum sínum í höfn vegna þess að þeir sögðu að heimildirnar sem þeir höfðu til að koma með bolfisk að landi væru of litlar, það væri ekki hægt að stunda veiðarnar miðað við þær kröfur sem þar voru gerðar.

Þriðja atriðið, sem bætir ekki skap sjómanna, er þegar happafleytur eins og Einar Ben. eru allt í einu búnar að fá tilkynningu um að þær fái miklu stærri kvóta en þær hafa nokkurn tíma komið með fisk að landi. Svo er búið að dubba upp á endann á þeim aftur þannig að þetta eru orðin virðulegustu skip, kölluð togarar. Eitt er að skipta um nöfn og annað að skipin verða að annars konar skipum fái þau andlitslyftingu.

Ég hef verið að hlusta eftir því hvort það heyrðist eitthvað frá fiskifræðingum og einnig verið að fletta blöðum í von um að þar sæjust nú einhverjar fréttir og eitthvað væri skrifað. En það var eins og þeir væru steindauðir eða allir farnir af landi brott, það heyrðist ekki frá þeim eitt einasta púst. Hvað veldur? Þeir eru úti á sjó heyrist utan úr sal. (Gripið fram í: Formaður sjútvn. er hérna.) Ég ætla ekki að kveða neitt upp úr um hvort þeir séu úti á sjó. En ég hygg að það séu engin rök í þessu máli að segja í dag að minni afli hafi borist í land í marsmánuði en barst á land í marsmánuði í fyrra. Ástæðan er annars vegar sú, að menn hafa verið að reyna að aðlaga sig að þessu kvótakerfi og veiða minna, verið með miklu færri net. Þeir hafa einnig, eins og hér hefur komið fram, ekki komið með allan þann afla að landi sem þeir hafa veitt. Afleiðingin er þessi.

Ég held að undan því verði ekki vikist að hæstv. ríkisstj. taki ákvörðun um það mjög fljótlega hvort svarta skýrslan með sínum boðskap um 220 þús. tonn af þorski er raunhæf miðað við það ástand sem er í sjónum núna. Skilyrðin í sjónum eru mjög góð. Það er yfir höfuð ekki umdeilt. En það má vel vera að það sé komið svo fyrir okkur að þó að við trúum því í dag að það sé rigning ef það rignir á okkur þrátt fyrir að veðurfræðingar hafi spáð sólskini, þá sé fráleitt að trúa öðru en það sé fiskleysi þó að menn drekkhlaði skipin, ef fiskifræðingar hafi spáð fiskleysi.

Það er ekkert nýtt þó að svona vandamál komi upp varðandi hverjum ber að trúa. Ég minnist þess að sem ungur maður las ég ágæta bók. Það voru dæmisögur Nasreddins. Nasreddinn átti asna. Nágranni hans sótti það mjög fast að fá þennan grip lánaðan. Það endaði með því að Nasreddinn hugsaði með sér að reyna nú að losna undan því að lána asnann sinn, svo að í stað þess að hafa hann fyrir allra augum geymdi hann asnann inni í húsi þó um hásumar væri. Svo kom nágranninn og bað um að asninn væri sér lánaður og Nasreddinn svaraði því til að asninn væri ekki við, en í því hneggjaði hann í hesthúsinu við hliðina. Þá sagði nágranninn að hann tryði þessu ekki því að hann heyrði í asnanum. En Nasreddinn brást náttúrlega reiður við og sagði: Trúir þú asnanum mínum betur en mér? Og þar við sat. — Og spurningin er í dag: Eiga íbúarnir við Breiðafjörð að trúa þorskinum eða fiskifræðingunum?