05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

Umræður utan dagskrár

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Hér er búið að halda margar ræður, bæði á þriðjudag og í dag, um sjávarútvegsmál og þá einkum kvótamál og það sem af þeim leiðir, þ. e. atvinnumálin, þannig að allt er þetta skylt hvað öðru. Þessi umr. er mjög eðlileg þar sem nú stendur yfir hávertíð og við erum að takast á við nýja stefnu í fiskveiðimálum okkar, stefnu sem hlýtur að verða umdeild þó hún sé tekin upp til reynslu í eitt ár.

Sumir ræðumenn virðast vilja kasta öllu fyrir róða og ekki líta á slíkar stjórnunaraðgerðir þó að ekki séu liðnir nema rúmir tveir mánuðir síðan kerfið var tekið upp til reynslu. Er látið að því liggja að það sé óþarfi að grípa til slíkra stjórnunaraðgerða þar sem nægur fiskur sé í sjónum.

En af hverju voru þessir óvinsælu stjórnunarþættir teknir upp? Af hverju fór hv. Alþingi og hæstv. ríkisstj. að skipta sér af þessu máli og skapa sér óvinsældir meðal margra þjóðfélagsþegna? Af hverju mátti ekki halda uppi óbreyttri stefnu eða stefnuleysi undanfarinna ára í fiskveiðimálum? Það hefði verið miklu þægilegra fyrir hv. alþm. að losna við þau óþægindi sem þeim ráðstöfunum fylgja sem gerðar voru s. l. haust. En til stjórnvalda, til hv. Alþingis, var boltanum kastað og þess vegna bar okkur og ber okkur sem ábyrgum stjórnmálamönnum að taka afstöðu til jafnalvarlegra mála og hér um ræðir þó að það verði að gerast á þann veg að það verði ekki til þess að skapa tímabundnar vinsældir.

En rifjum aðeins upp og lítum nánar á málin. Þó það hafi verið gert hér ætla ég að fara yfir það aftur. S. l. haust, þegar skýrsla fiskifræðinganna lá fyrir um ástand okkar fiskistofna, var ráðlagt skv. þeirra spám og tillögum að veiða 200 þús. tonn af þorski. Árið áður, 1983, var íslenski fiskiskipaflotinn, okkar voldugi floti, í fullri sókn. Hverju náði hann? Hann náði 293 þús. tonnum af þorsk! allt það ár. Hann hafði leyfi til að taka 350 þús. tonn. Honum tókst það ekki. Það var ekki fisk að finna til þess að ná þessum afla upp. Það er von að menn segi í dag: Það átti bara að halda áfram óheftri stefnu eins og hún var árið 1983.

Þetta gerðu forsvarsmenn hagsmunasamtaka í sjávarútvegi landsins sér ljóst og það bárust erindi frá þeim — ég tel þá ekki upp, þetta er okkur öllum kunnugt — hingað til Alþingis um það að tekin yrði upp einhvers konar stjórnun á fiskveiðum. Þetta var mikið mál og var rætt hér á haustdögum. Rétt fyrir jólaleyfi var það samþykkt — um það voru skiptar skoðanir þó, það skal tekið fram — að heimila hæstv. sjútvrh. frekari völd en hann þegar hafði til stjórnunar á þessum veiðum.

Hann hafði sér til ráðuneytis um það að hrinda þessu kvótakerfi í framkvæmd fulltrúa frá öllum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Ég tek það skýrt fram að mér er ekki kunnugt um að hann hafi á nokkurn hátt gengið á svig við þá ráðgjafa sem hann hafði í þessum nefndum við að undirbyggja þetta mál og koma á þessum kvóta. Að vissu leyti voru skiptar skoðanir milli sjómannafulltrúa og farmannasambandsfulltrúa. Þeir vildu svokallaða sóknarkvóta en meiri hl. vildi aflakvóta. Það er annað mál. En í meginatriðum er farið nákvæmlega eftir því sem þeir ráðlögðu og samþykktu og hafa unnið að með ráðherra.

Svo tala menn um í ræðum að Alþingi hafi afsalað sér sérstökum rétti — ég orða það ekki sterkara en það — til hæstv. sjútvrh. í þessum efnum. Síðast nú áðan sagði hv. 3. þm. Vestf. að farið hafi fram valdaafsal til sjútvrh. Sama sagði hv. 4. þm. Vesturl. í ræðu á þriðjudaginn var. Þessu mótmæli ég. Það var ekkert valdaafsal framkvæmt og ef slíkt orðbragð er notað í þessu efni á hv. Alþingi, þar sem er lögleg afgreiðsla meiri hl. atkv., er það rangt.

Þó að hæstv. sjútvrh. sé ekki í sama flokki og ég í pólitík er ég samt það sanngjarn að ég vil standa að baki honum í þessum málum og tel að hann hafi gert það sem honum var falið að gera á sem bestan veg. Ég treysti honum fullkomlega til að gera það áfram á þann besta veg eins og hann hefur gert fram að þessu. Það er ekki drengilegt að koma aftan að mönnum sem fengin eru slík vafasöm völd með fullyrðingar um að þeir hafi ekki kannske misbeitt þeim en gert eitthvað öðruvísi en reiknað var með að þeir ættu að gera. Þannig liggur þetta fyrir í úrtaki úr ræðum manna.

Það mætti hafa um þetta allt langt mál, en ég er þeirrar skoðunar að við megum ekki hlaupa upp í dag þó að við fréttum um mikinn afla á vissum svæðum við landið. Því miður er sá afli ekki nema í Breiðafirði enn þá. Allur afli fyrir Suðurlandinu, sem mikið er rætt um og hv. 3. þm. Suðurl. ræddi um daginn, er því miður ekki þorskafli. Þá er vitað að það er nógur ufsaafli og verulegur ýsuafli, en þorskafli er ekki búinn að ná því marki enn þá sem þurfti og reiknað var með svo að hægt sé að bæta við kvóta.

Ráðh. lýsti því yfir um daginn að nú stæðu yfir miklar rannsóknir hjá fiskifræðingum. Þeirra niðurstöður koma sennilega í lok næstu viku eftir því sem var upplýst um daginn. Ég skal verða mikill talsmaður fyrir því að ef þær mælingar upplýsa okkur um að um verulega aukningu á þorskgengd við landið sé að ræða, þá eigum við ekki að hika við það að bæta við þann kvóta sem á var settur. En við eigum alls ekki að gera það fyrr en við vitum um hvernig ástandið er á þessum fiskistofnum. Þó að sárt sé að þurfa að segja nei verður stundum að gera það.

En við skulum vera bjartsýn. Borið hefur mikið á svartsýni í þessum umr. Það er margt annað á okkar fiskimiðum heldur en þorskurinn. Það er stórvaxandi veiði á rækju. Verulega munar um þá aukningu á loðnuveiðum sem hér kom til í vetur. Því er ekki ástæða til hreinnar svartsýni.

Það sem við höfum verið að deila um er ekki minnkun á öðrum botnfiskstofnum við landið en þorskinum. Í fyrra veiddust, eins og ég sagði, 290 þús. tonn af þorski. Ef það er komið upp í 230–240 þús. tonn núna með leiðréttingu á kvóta og öðru, þá er munurinn ekki orðinn það mikill, þ. e. 50–60 þús. tonna munur. Hinar tegundirnar eru að fullu uppi og því má ekki gleyma.

Hv. 3. þm. Vestf. ræddi um atvinnumálin og ég er honum algerlega sammála um að þar er mjög alvarlegt mál á ferðinni. Hann benti á þm. Vestlendinga í þeim efnum. Þar sem þetta kreppir hvað harðast að núna er einmitt á þéttbýlissvæðunum við Breiðafjörð og þetta er alvarlegt ástand. En það verður að segjast eins og er að á þessu svæði er búið að ná upp miklu meiri afla á mun skemmri tíma en hægt var að reikna með. Þess vegna hefur verið óvenjumikil vinna þarna við fisk undanfarnar vikur og er það vel. En því miður er ekki annað að sjá í bili en að þarna þurfi að verða einhver samdráttur um tíma meðan annarra leiða er leitað.

Ég get ekki héðan úr þessum ræðustól lofað að þar verði sérstökum ráðstöfunum beitt. Það er ekki í mínum verkahring. Hins vegar verður að líta á það svæði og önnur þau svæði á landinu sem verða fyrir slíku á sérstakan hátt og leita verður ráða til að bægja þar frá atvinnuleysi sem við erum öll sammála um að er sá versti vágestur sem hér getur borið að garði.