05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4496 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég held að síst sé hægt að kvarta undan því að menn fái ekki að tala hér, tala hátt og raunar lengi, því miður af miklum misskilningi stundum. Ég er alveg viss um að hávaðinn leysir ekki þessi vandamál og þaðan af síður alts konar fullyrðingasemi. Það hefur því miður verið þannig nú til allt of langs tíma í þjóðfélaginu að menn reyna að nýta sér óánægjuna fyrst og fremst í staðinn fyrir að hafa uppi jákvæðan málflutning. Þetta er allt of víða. Maður verður var við það í öllum flokkum. Ég skal viðurkenna að við Alþb.-menn höfum ærinn skammt af þessari aðferð. Hana á hins vegar ekki að nota.

Menn fara að velta sér upp úr hugsanlegu atvinnuleysi með þessum fyrirgangi og alls kyns misskilningi eins og háttur er hv. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar. Mikið liggur við og ég get fyrirgefið honum þetta vegna þess að við erum vanir því og hann hefur þörf fyrir það.

Í umr. á þriðjudaginn var fóru menn í gegnum alla listana frá því í haust og ég verð að segja að þeir sem kvarta undan of litlum fréttaflutningi af slíkum umr. mega að mínum dómi þakka guði fyrir að þeir þegja yfir því, fjölmiðlarnir. Fréttamat fréttamanna ríkisfjölmiðlanna er stundum ósköp brenglað. Hvernig í ósköpunum eiga líka blaðamenn, kannske nýkomnir úr skóla og hafa sjaldan eða aldrei bleytt á sér fingurna, hvað þá að þeir þekki, margir hverjir, nokkurn skapaðan hlut til lífs fólksins í landinu, að taka skynsamlegar ákvarðanir í hvert skipti sem þeir eiga að leggja eitthvert mat á fréttir? Fréttamatið er því miður oftast þannig að menn taka upp eitthvert upphlaupsmál, eitthvað sem hægt er að bendla við hneyksli eða eitthvað af því tagi, en láta síðan alvöruumræður um lífið í landinu, fiskaflann, fara fram hjá sér. Enda er ég ekkert viss um að allt þetta fólk, sem er að gutla í fjölmiðlabransanum, geri sér nokkra grein fyrir því á hverju þjóðin lifir, því miður.

Í umr. á þriðjudaginn var jafnvel gengið svo langt að menn töluðu um valdaafsal frá þinginu til rn. Þetta er fjarstæða ekkert síður en það var í haust. Þingið hefur aldrei mótað neina fiskveiðistefnu, hvorki fyrr né síðar. Allt slíkt tal um valdaafsal er þess vegna misskilningur eða ósannindi, nema hvort tveggja sé. Ég nenni ekki að fara í gegnum þann lista aftur, það er bara bull. Ég get sagt ykkur hv. alþm. að ég gæti leyst öll þessi vandamál með einni handarhreyfingu ef nóg væri af fiski. En það er bara ekki nóg af fiski og þegar menn eru að rökræða þessa hluti mega þeir ekki ganga fram hjá aðalstaðreynd málsins. Hún er sú að við neyðumst til að draga þorskveiði saman í landinu geysilega hratt og geysilega mikið. Það er bara siður sumra aðila að neita að viðurkenna staðreyndir, loka augunum þegar óþægilegar staðreyndir bera fyrir. Það er auðvitað huggulegra að þurfa ekki að velta fyrir sér vandamálum og taka á þeim eins og maður, en ekki til þess að reyna að græða atkv. á því með því að velta sér upp úr óánægjunni úti á landi. Þetta er ómerkilegt.

Ekkert síður, jafnvel frekar, en í öðrum málum eru mörg vandamál fylgjandi þessari kvótaaðferð. Það sér hver maður. Þetta eru flókin atvinnumál og margslungin. En einstök aðferð dugar aldrei í svo margflóknu máli. Þess vegna hafa menn þurft að grípa til hliðarsporanna stundum til að lagfæra þær skekkjur sem allir vissu að kæmu, skekkjur sem hafa komið í ljós og alvörumenn hafa reynt að taka á þeim vandamálum. En það dugar ekki að hafa hátt, a. m. k. ekki bara að hafa hátt.

Ég geri mér alveg ljóst að þeir Vestlendingar hafa áhyggjur af ástandinu. Það er vegna þess hvernig atvinnulíf þar er saman sett og hvernig það hefur gengið að undanförnu. Þeir verða að koma verr út úr vissum hlutum þessa kvótakerfis en aðrir, þó ekki verr en allir aðrir því að margir eiga það sameiginlegt. Það er pólitísk ákvörðun þegar menn ákveða að láta togarana hafa svolítið meira og hvergi er hægt að taka það annars staðar frá en frá bátunum. Að vísu er þetta ekki stór upphæð en það munar um hvað sem er.

En hvernig stendur á því að þeir Snæfellingar fara svona illa út úr þessu? j fyrsta lagi er það aðallega þorskur sem hefur byggt upp atvinnuna þarna á nesinu fyrir utan skelfisk. En þeir bátar, sem hafa sérveiðileyfi á rækju, humri, síld og skel, fá vissan frádrátt út á þá veiði. (Gripið fram í: Á þorski.) Á þorski, já, það er rétt.

Ég vil bara benda ykkur á að þetta er ekkert nýtt mál, þetta er margra ára gamalt mál. Ég man ekki betur en hér um árið, þegar við létum loðnuskipin fá ákveðinn þorskkvóta á vertíðinni, þá segðu menn: Þetta er ekki þorskveiðiskip, þeir eiga ekki að fá neinn þorsk. Ég var alveg á því að þeir ættu að fá einhvern þorsk. Það bjargaði þeim út úr þessum miklu vandræðum þegar loðnustofninn hrundi á sínum tíma. Þessir sömu menn, sem sögðu hér um árið að loðnuskipin ættu ekki að fá þorsk, voru kannske að tala um að það kæmi öðrum veiðum ekkert við og þeir ættu ekki að skerðast neitt sérstaklega í þorski vegna þeirra. En það er akkúrat það sama sem verið er að gera nú. Við lítum sem sagt á heildarverðmæti alls fiskafla í landinu sem eign þjóðarinnar. Ef menn hafa möguleika á því að veiða talsvert af síld, humri, skel eða öðru er ekki nema sanngjarnt að þeir fái heldur minna af hinu.

Það er í raun og veru alveg furðulegt þegar menn eru að tala um að bátarnir þarna fyrir vestan fái 50% skerðingu. Það kemur til af því að þeir fá sína 40% skerðingu þorskafla eins og allir aðrir miðað við þann samdrátt sem hefur orðið í þorskveiðunum. Aukaskerðingin er vegna sérleyfisveiðanna. Þetta verða allir að sætta sig við. Þetta þekki ég úr mínum heimabæ. Þar er það vegna síldar og humars.

Hvernig stendur svo á því að mennirnir eru svo fljótt búnir með kvótann? Það er bara allt búið í Grímsey, að veiða allan aflann. Það er dálítið merkilegt. Þetta hefur þó ekki skerst nema um þessi 40% á þessa einu tegund og það hlýtur að hafa aðeins eina skýringu. Hún er sú að þeir hafa bara fiskað svona lítið þrjú undanfarin ár því að miðað við meðalafla síðustu 3 ára er þessi kvóti ákvarðaður. Ef menn á Suðurnesjum, Vestmannaeyjum, Vesturlandi eða annars staðar hafa svona lítinn kvóta er það vegna þess að þeir hafa ekki haft döngun til þess að fiska meira undanfarin þrjú ár. Þetta er viðmiðunin. (Gripið fram í.) Ég orða þetta bara eins og mér sýnist, hv. þm.

Mönnum gengur misjafnlega vel að ná sér í afla, það er rétt. En þetta eru ekki mál sem hægt er að gera að einhverjum gamanmálum, síður en svo. En ég undrast málflutning af þessu tagi, þegar menn ganga fram hjá meginstaðreynd málsins og aðalástæðu þess að verið er að skerða þetta. Ástæðan er sú að það er bara miklu minni þorskur í kringum landið að mati fiskifræðinga. Ég verð að segja að ég vona að hann fari nú að gjósa upp. Ég skrifaði um það um daginn lærða grein. Við höfum sem sagt áður orðið fyrir því að við höfum ekki fengið þorsk fyrr en einhvern tíma í apríl, en hann er bara ekki kominn. Þess vegna eiga menn ekki að blekkja sjálfa sig. Það væri kannske út af fyrir sig í lagi að lagnir menn reyni að plata náungann, en aldrei sjálfa sig.

Herra forseti. Ég gæti látið þetta duga og bætt amen aftan við eftir efninu, en ég vil aðeins minna þessa menn á, sem hafa hæst í þessum efnum, að kvótaskiptingaraðferð, sóknarmarkaðsaðferð eða hver önnur aðferð eykur hvorki aflann né minnkar.