05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (3828)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Enn er hér mest rætt um kvótann, framkvæmd hans og tilurð, en tilefni umr. var fsp. hv. 3. þm. Vestf. um það hvernig ríkisstj. mundi mæta þeim vanda sem við blasir í þeim byggðarlögum þar sem að því er komið að fiskiflotinn stöðvist. Frekar lítið hefur verið um svör og enn má ítreka spurninguna um það hvort við megum ekki vænta þess að einhverjar tillögur komi fram. Ég vænti þess að hæstv. félmrh. komi inn í þessa umr. og veiti okkur einhverjar upplýsingar um það við hverju má búast.

Ég vil enn undirstrika það að það ástand sem við blasir er fyrst og fremst afleiðing þess kvóta sem við búum við, ekki afleiðing þess að við höfum búist við minni þorskafla en áður. Kvótauppbyggingin sjálf hefur skapað það ástand sem við okkur blasir. Hún hefur m. a. skapað það ástand, sem ég sagði frá að nokkru þegar umr. hófst, að fiskibátar af stærðinni 11–12 tonn stöðvast nú eftir að hafa aflað rúm 50 tonn á meðan bátar sem eru af 10 tonna stærðinni geta haldið áfram að afla. Slíkt er réttlæti þess kvóta sem yfir okkur hefur verið settur.

Hæstv. sjútvrh. sagði í ræðu sinni á þriðjudaginn að hann vildi ekki gerast útgerðarstjóri yfir hverri og einni útgerð hér á landi. Þessi orð hans voru til komin af því að ég hafði látið þau orð falla að eðlilegra hefði verið að stjórna útgerð á Íslandi í vetur með því að skipuleggja að færri net yrðu í sjó og reynt yrði að fylgjast með því að menn kæmu með góðan afla að landi. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hefði ekki orðið meiri útgerðarstjóri við það að skipuleggja þá tilhögun en að skipuleggja þann aflakvóta sem við búum við, sem sagt að skammta hverjum aðila ákveðið aflamagn. fylgjast með því hvort það aflamagn verði sótt eða ekki sótt og fylgjast með því, eins og fram kom í umr. og nauðsynlegt er, að ekki sé farið fram hjá þeim reglum. Ég held að það hefði verið mun nauðsynlegra eftirlit og mun nauðsynlegri aflastjórnun frá hendi sjútvrn. ef fylgst hefði verið með því og reynt að skipuleggja að sóttur væri góður afli og komið með góðan afla að landi í stað þess að skipuleggja eða fylgjast með því að menn fiskuðu ekki nema þetta ákveðna magn sem þeim er uppálagt.

Ráðh. nefndi einnig í sambandi við uppástungu mína á þriðjudaginn — en uppástunga mín var sú að t. d. yrði meginhluti neta dreginn upp á laugardögum — að hann vildi ekki standa að því að gera báta ósjóhæfa. Lítill bátur hefði ekki möguleika til þess að taka net um borð o. s. frv. Ég get viðurkennt að í þessu er nokkur sannleikur. En þarna er hægt að fara bil beggja. Hægt er að koma með ákveðinn hluta af netum að landi og vera með ákveðinn hluta af netum í landi í hverjum bát. Ég vil benda á að nú á síðustu árum hefur átt sér stað stórkostleg breyting í sambandi við það að koma netum fyrir í skipi. Nú eru þorskanetin ekki lengur með kúlur og grjót heldur eru þau með blýteina og flotteina þannig að mjög auðvelt er að koma netum fyrir bæði á þilfari og í lest.

Ráðh. nefndi einnig að hann hefði farið um Suðurnes og orðið var við að fiskurinn væri miklu betri núna og þetta væri vitaskuld að þakka þeim ágæta kvóta sem við búum við. Ég tók undir það í ræðu minni á þriðjudag að ég teldi að sá afli, sem hefði borist að landi í ár, væri mun betri en hefði verið t. d. á síðustu vertíð. En það er ekki kvótanum að þakka. Það er m. a. því að þakka hér á vestursvæðinu að miklu betri tíð hefur verið til sjósóknar og frátafir hafa verið mjög fáa daga. Ég held að t. d. á Snæfellsnesi hafi aðeins verið einn frátafadagur af stærri skipunum. Menn hafa líka verið með færri net vegna kvótans, en það er svolítið erfitt að segja að það sé raunverulega sú leið sem eigi að færa betri afla að landi, að menn eigi að takmarka aflasóknina á þann máta, öðruvísi en að það væri þá beinlínis undir ákveðinni skipulagningu.

Ráðh. nefndi líka að þjóðartekjur væru mun meiri vegna fiskveiðistjórnunar. Ég efast um að svo sé og veit að vegna fiskveiðistjórnunar höfum við misst ákveðnar þjóðartekjur. Það gerðum við á árinu 1983 með því að banna að sótt yrði loðna af miðunum hér við Ísland. Á því er ekki neinn vafi að þar töpuðum við þó nokkuð miklum þjóðartekjum og hefðu verksmiðjurnar sjálfsagt haft meiri möguleika til að borga hærra verð í ár hefði verið leyft að sækja loðnu í sjóinn á síðasta ári. En það er almennt álit sjómanna að mjög mikil loðnugengd hafi verið fyrir Vesturlandi á síðasta ári.

Hv. 3. þm. Vesturl. nefndi það í ræðu áðan að þægilegra væri að koma hér upp og gagnrýna það sem gert hefði verið og verið væri að gera en að vera ábyrgur stjórnmálamaður, eins og mér skildist að hann væri. Það er ósköp auðvelt að koma upp í ræðustól og segjast vera ábyrgur stjórnmálamaður og standa að aðgerð sem menn kannske í hjarta sínu viðurkenna að sé ekki rétt. Eftir þriggja mánaða reynslu af þeim kvóta sem við búum við sjáum við fram á að hverju stefnir. Þá tel ég að menn séu nokkuð kotrosknir að lýsa því yfir að það sé hin sjálfsagða skylda alþm. að standa að málum eins og hér hefur verið gert, að það sé gagnrýnisvert að koma hér upp og gagnrýna þær aðgerðir sem samþykktar voru fyrir áramótin.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson hélt hér þó nokkuð mikla ræðu um það hvernig á því stæði að við á Vesturlandi værum að verða búnir með kvótann okkar og nefndi þar m. a. að það væri vegna þess að við hefðum sótt minni fisk í sjó undanfarin þrjú ár en aðrir. Þessu er einmitt öfugt farið. Kvótinn er þannig byggður upp að þeir sem hafa aflað mikið eru skertir meira. Ég nefndi þetta nokkuð í ræðu minni á þriðjudaginn og tel ekki ástæðu til að endurtaka það nú. Á Vesturlandi er fyrst og fremst um það að ræða að fiskiskipin sækja þorsk í sjó og fyrst og fremst hefur þorskaflinn verið skertur. Byggðarlögin á utanverðu Snæfellsnesi standa frammi fyrir því að aflamagn í þeim byggðum er skert um allt að 50%. Eins og kom hér fram í umr. um daginn eru það þau byggðarlög þar sem skerðingin verður langsamlega mest. Þess vegna hlýtur það að vera sérstök krafa þessara byggðarlaga að hugað verði að málefnum þeirra og þau njóti einhvers stuðnings ef þarna verður um atvinnubrest að ræða. Ég vænti þess, eins og ég sagði áðan, að hæstv. félmrh. lofi okkur að heyra hver hans afstaða er til þessara mála.