05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (3830)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Hér hefur verið fjallað um ákveðnar spurningar og hvort standist fullyrðingar um svipaðan afla og s. l. ár miðað við sókn og fleiri þætti. Þá er gott að bera saman þær tölur sem hæstv. sjútvrh. hefur nú lagt hér á borð, frá Fiskifélagi Íslands væntanlega, að þorskafli nú sé 84 þús. tonn á móti 97 þús. tonnum 1983. Þar munar 13 þús. tonnum, um 14%. Þannig er hægt að leggja á borð ákveðnar skýringar sem undirstrika það að þorskaflinn er mjög svipaður og s. l. ár þrátt fyrir þennan tölulega mun.

Hv. 3. þm. Vesturl., Valdimar Indriðason, vék að máli mínu þar sem ég fjallaði um veiðar við Vestmannaeyjar á þessu ári og taldi að þorskaflinn væri minni en s. l. ár. Þorskafli í Vestmannaeyjum nú fyrstu þrjá mánuði ársins er 4283 tonn. Þar af er bátafiskur 3712 tonn. Þorskafli í Vestmannaeyjum 1983 á sama tíma var 5114 tonn. Vestmannaeyjar skila á land liðlega 10% af afla landsmanna og eru því verulega marktæk stöð, ég tala nú ekki um á vertíð. Þegar þessar tvær tölur eru skoðaðar, þorskaflinn í Vestmannaeyjum í fyrra, 1983, 5114 tonn, 4283 tonn nú, eru ákveðnar skýringar sem auðvelt er að leggja á borð. Það eru átta færri bátar á netum á þessari vertíð en á s. l. vertíð, allir loðnubátarnir. Þeir lönduðu í fyrra um 2200 tonnum af þorski á þessum tíma. Einfaldlega með þessari skýringu er aflinn orðinn 2900 tonn 1983 á móti 4283 tonnum 1984. Þar að auki hefur sókn Eyjabáta verulega beinst að ufsa og menn hafa hreinlega reynt að sniðganga hefðbundin þorskveiðimið.

Enn má nefna dæmi. Það er sex bátum færra á trolli í Vestmannaeyjum nú en á s. l. vertíð. Trollfiskur er þar af leiðandi minni, bæði af þeirri ástæðu og einnig hinu að um langt árabil hefur aldrei verið eins erfitt að sækja sjó á trolli við Eyjar og í vetur. Þannig eru það borðliggjandi staðreyndir að þorskaflinn, þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir mun minni vetrarkulda í sjó, þrátt fyrir það að menn hafi reynt að sniðganga þorskafla, er mun meiri en á s. l. vertíð. Þetta er að vísu aðeins einn staður, en ég nefndi einnig í máli mínu á þriðjudaginn Ólafsvík. Það er þetta sem ég var að benda á að gæfi vísbendingu um að staðan væri betri. Því að þó að við miðum við heildartöluna, sem hæstv. sjútvrh. gat um áðan, eru svo margar eðlilegar skýringar á því að aflinn er minni á þessari vertíð.

Hér hafa einnig verið nefnd dæmi um það að fiski sé hent, hálfónýtum fiski, margra nátta. Það eru dæmi sem vitað er að eru rétt. Þess vegna skulum við gera okkur grein fyrir því að það er inni í myndinni. Að sjálfsögðu er ég sannfærður um að ekki eru mikil brögð að því. En skv. upplýsingum sem ekki er hægt að vefengja eru brögð að því, því miður. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir staðreyndum.

Þannig er á einfaldan hátt hægt að færa rök fyrir því að það stefni í betri stöðu í þessum efnum en fiskifræðingar spáðu og vonandi leiðir það til þess að grundvöllur verði til þess að endurskoða það kvótafyrirkomulag sem við höfum. En ég er sammála þeim ræðumönnum sem vilja byggja það á staðreyndum, á tölum sem eru að koma í ljós og verða væntanlega ekki innan langs tíma á borði fiskifræðinga. En síðan þarf að meta hlutina. Þá þarf að meta í ljósi þess hvernig menn hafa breytt um veiðisókn og veiðiaðferðir við þær aðstæður sem settar voru upp. Út frá því er eðlilegt að taka ákvörðun um breytt fyrirkomulag á þessum málum.

Efasemdir voru uppi um að það væri rétt, sem ég hélt fram í máli mínu s. l. þriðjudag í þessari umr., að skv. kerfinu væri gert ráð fyrir meiri heildarafla af þorski en 220 þús. tonnum, í þessu tilviki 226 þús. tonnum vegna þess að sökum leiðréttinga hækkaði þorskaflinn um 6 þús. tonn, eða 3% eða þar um bil. En ég hef fengið útreikning frá Fiskifélagi Íslands sem sýnir að hægt er að veiða liðlega 40 þús. tonn ef menn nýta 10% frávikið allt til þorskveiða.

Nú er það auðvitað ekki sanngjarnt að miða við að slíkt gangi fram en það er a. m. k. fræðilegur möguleiki og víst að hann verður nýttur að einhverju leyti, hve miklu veit ég ekki, en samkvæmt nótu sem ég hef frá Fiskifélagi Íslands þá þýðir þetta 10% frávik í fræðilegum möguleika 41 190 tonn. Þetta er vert að hafa inni í myndinni þegar þessi mál eru skoðuð og taka verður tillit til þess hvernig spilin verða stokkuð upp. En ég vil undirstrika það, að mér finnst aðdáunarvert hvernig þeir hafa farið með þessi mál, sem hafa þurft að standa í stjórnun og útdeilingu á kvóta. Mér finnst aðdáunarvert hvernig þeir menn sem eiga að vita mest í þessum efnum, hvernig segja má að þeir gjörþekki aðstæður hvers einasta báts á landinu. Það er sama um hvaða bát þeir eru spurðir, þeir geta um hæl svarað. Og þar sem hafa komið upp deiluatriði hefur verið brugðist mjög skjótt við af hálfu sjútvrn. með miklum velvilja og jákvæðum hug. Þetta finnst mér vert að taka fram: að við erum með tæki í höndunum sem er spurning hvort hentar. Það er meginmálið hvort við erum með rétt tæki. Þess vegna er óþarfi að vera með útúrsnúninga eins og hv. þm. Karvel Pálmason hefur verið í þessum efnum, að mínu mati.

Ég þykist hér hafa sýnt fram á ákveðnar staðreyndir sem eru máli mínu til stuðnings og færa rök fyrir því. Það má geta þess, af því að ég minntist á að það eru 8 bátum færra á netum í Vestmannaeyjum á þessari vertíð, að þeir bátar hafa að sjálfsögðu verið á loðnuveiðum í vetur. Þar hefur nú verið landað 36 þús. tonnum af loðnu svo að það er mjög jákvætt. Það eru mikil verðmæti. Og það er ástæða til að taka undir hvatningu hæstv. sjútvrh. um að menn séu bjartsýnir, sýni stillingu og vegi og meti staðreyndir án þess að blanda tilfinningum um of inn í málið.