05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4508 í B-deild Alþingistíðinda. (3834)

Umræður utan dagskrár

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að taka aðeins þátt í þessari umr., ekki vegna þess að ég reikni með því að hv. þm. viti ekki allt sem vert er að vita um þetta mál, heldur frekar vegna hins, að hér hefur ekki verið minnst á hluti sem mér finnst ofur eðlilegt að séu inni í þessari umr.

Menn hafa komið hér á undan mér og rakið það hvers vegna kvótinn var settur á og jafnframt hitt, að það var mjög almenn samstaða um að kvóti skyldi settur á. Kom það mörgum mjög á óvart. Það að setja kvóta sem þennan á skipin hafði þann kost í fyrsta lagi að þeim vanda sem sjávarútvegurinn stóð frammi fyrir var jafnað niður á útgerðaraðila og þá tekið tillit til þess hvernig þeir höfðu staðið sig áður.

Í öðru lagi var bent á það, að með þessum hætti fengist betra hráefni og betra hráefni gæti að sjálfsögðu þýtt betri afurðir út úr vinnslunni og þar af leiðandi meiri gjaldeyri.

Í þriðja lagi var bent á það, að ef menn vissu fyrir fram hversu mikið þeir mættu taka, þá mundi slíkt minnka útgerðarkostnað.

Allt er þetta satt og rétt. Hitt er aftur annað mál, sem hér hefur ekki verið minnst á, og það er að heimaaðilar voru ekki tilbúnir að taka á móti þessu kerfi. Þeir voru ekki tilbúnir vegna þess að útgerð hafði verið í allt öðrum farvegi undanfarin ár. Það var einnig ýmislegt fleira sem spilaði inn í það, að sjávarplássin út um allt land voru ekki tilbúin að taka við þessu kerfi, jafnvel þó að menn væru ásáttir um að þetta væri skásta leiðin. Menn voru ekki tilbúnir einfaldlega vegna þess að eignarhald á fyrirtækjum er svo mismunandi að það var ekki hægt að viðhafa stýringu heima við. Einnig vegna hins, að samsetning flotans er mjög mismunandi og vinnslugreinar hafa staðið sig mjög mismunandi. Ég ætta nú að reyna að gera svolítið betur grein fyrir þessu.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. spurði hér áðan: Því liggur mönnum svona á að drepa fiskinn? Ég get vel skilið af hverju sumum aðilum liggur á að „drepa fiskinn“. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það eru fjölmargar litlar útgerðir í þessu landi, nokkurs konar fjölskyldufyrirtæki, sem hafa haft sína afkomu af því að reka einn bát og salta þann fisk sem af honum hefur fengist. Ég get mætavel skilið af hverju þessum mönnum liggur á að drepa fiskinn. Það er einfaldlega vegna þess að eina leiðin til þess að saltfiskvinnsla beri sig hjá þeim er sú, að þeir veiði mikið á stuttum tíma, þ. e. að þeir beiti ýtrustu hagkvæmni við að ná aflanum. Þannig held ég að liggi nú í því máli.

Í öðru lagi held ég að miðað við þann rekstrarvanda sem útgerð og fiskvinnsla í sumum greinum hefur mátt búa við sé afar erfitt að gera þær kröfur til útgerðaraðila að þeir hagi sinni sókn skynsamlega miðað við atvinnuástand, einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki efni á því. Ef menn standa með rekstur í járnum leita þeir að sjálfsögðu hagkvæmustu leiðanna. Og hagkvæmasta leiðin liggur í því að ná sem mestu á sem stystum tíma og minnka þar með útgerðarkostnað, eins og bent var á, olíukostnað og annað.

En því miður gengur þessi stefna alveg þvert á það sem stuðlar að góðu atvinnuástandi í landi. Og því segi ég það, staðirnir voru hreinlega ekki tilbúnir til þess að taka á móti kvótakerfinu. Ég minntist á það hér áðan að það væri mismunandi eignarhald á atvinnutækjunum. Það er mjög mismunandi í hverra eigu þau fyrirtæki eru sem standa að útgerð og fiskvinnslu úti um allt land. Hvað varðar bátaútgerðina þá er hún víða í þeim farvegi sem ég minntist á hér áðan, þ. e. þetta eru fjölskyldufyrirtæki. Hvað varðar togaraflotann hins vegar má segja að um 70% togaranna séu í eigu sömu aðila og reka síðan fiskvinnslu. Ég hef trú á því að þeir staðir sem hafa staðið þannig að sínum málum að þeir eru með togara sem uppistöðu í sínum flota standi betur af sér samdráttinn en vertíðarstaðirnir eins og reyndar hefur komið hér fram.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta meira. Ég vildi aðeins að það kæmi fram, að það er ekki við kvótann sem slíkan að sakast, heldur frekar hitt, að útgerðaraðilar og sjávarplássin í landinu voru ekki undir það búin að fá svo mikla stýringu af hálfu ríkisvaldsins, voru ekki í stakk búin til að taka á móti þessu þannig að stýringin yrði áfram alveg niður í vinnslugreinarnar.