05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4512 í B-deild Alþingistíðinda. (3838)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá utanrmn. Nefndin er sammála um að mæla með samþykkt till. á þskj. 82 með þeim breytingum sem fram koma í nál. á þskj. 528 nefnilega að till. hljóði þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna möguleika á öflun veiðileyfa fyrir íslensk fiskiskip í fiskveiðilögsögu annarra ríkja, t. d. við Norður-Ameríku og Vestur-Afríku.“

Það er rétt að taka fram, eins og reyndar kom skýrt fram í utanrmn., að samþykkt þessarar till. breytir engu um þá stefnu sem Íslendingar fylgja varðandi veiðar annarra þjóða í okkar landhelgi, heldur fjallar till. einungis um öflun veiðiheimilda fyrir íslensk fiskiskip á erlendum veiðislóðum. Um rökstuðning fyrir till. þarf ekki að fjölyrða, svo ítarleg umr. sem fram fór um hana á þessu þingi. Með samþykkt hennar vill Alþingi einfaldlega að ríkisstj. láti á það reyna og beiti sér sérstaklega fyrir því að opna hinum stóra fiskiskipaflota okkar nýja möguleika, möguleika til veiða á erlendum veiðislóðum. Það er vitaskuld ekki síst brýnt eins og ástatt er núna þegar verkefni og veiðiskapur er takmarkaður eins og raun ber vitni.

Hins vegar er það svo auðvitað útgerðaraðilanna að meta í hve ríkum mæli þeir vilja nýta sér slíka möguleika sem þannig fengjust.