05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (3842)

234. mál, niðurfelling söluskatts af raforku til hitaveitna

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér er sérstök ánægja að fá hér tækifæri til þess að mæla fyrir máli sem varamaður minn, Sverrir Sveinsson, flutti þegar hann sat hér á þingi á meðan ég var fjarverandi. Ásamt Sverri Sveinssyni fluttu þetta hv. þm. Jón Sveinsson, Ingvar Gíslason og Þórarinn Sigurjónsson.

Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að hlutast til um að söluskattur verði ekki innheimtur af raforku til dælingar á hitaveituvatni.“

Þannig hljóðaði tillgr. Í grg. sögðu flm. m. a., með leyfi forseta:

„Mikill hluti af rekstrarkostnaði hitaveitna er fólginn í kaupum á raforku til dælingar á vatni. Söluskattur hefur verið innheimtur af raforku til dælingar þrátt fyrir þá almennu stefnu, sem mörkuð er í reglugerð um söluskatt, nr. 486/1982, að dregið sé úr húshitunarkostnaði, sbr. 19. og 20. tölul. 13. gr. og 12., 13. og 22. tölul. 14. gr. þeirrar reglugerðar, sbr. og 7. gr. laga nr. 83/1974 um verðjöfnunargjald af raforku, og 1. gr. reglugerðar nr. 317/1974.

Samband ísl. hitaveitna og orkusparnaðarnefnd hafa fengið því framgengt að söluskattur verði ekki innheimtur af raforku til varmadæla, en slíkt tæki er verið að setja upp um þessar mundir og gert ráð fyrir að þau verði tekin til enn frekari nota á næstu árum. Tilgangur þeirra er að vinna hita úr volgu vatni, t. d. lághitavatni og bakrennslisvatni hitaveitna með raforku. Án niðurfellingar söluskatts af raforku til þessara nota væri þessi tækni óarðbær.

Sú er skoðun flm., og það er einnig álit Sambands ísl. hitaveitna, að raforka til dælingar á hitaveituvatni skuli með sömu rökum og ráðuneytið féllst á gagnvart varmadælum undanþegin söluskatti. Í bréfi til Sambands ísl. hitaveitna 6. des. 1983 lýsti fjmrh. þeirri skoðun sinni að flutningur á orku verði ekki lagður að jöfnu við framleiðslu hennar. Þessi skýring ráðuneytisins telur Samband ísl. hitaveitna að byggist á misskilningi þar sem í báðum tilvikum er um öflun orku („framleiðslu“) að ræða. Í öðru tilvikinu er framleitt nothæft hitaveituvatn úr afrennslisvatni með raforku. Í hinu tilvikinu er öflun orkunnar („framleiðsla“) fólgin í því að dæla laugarvatni upp úr borholum og koma til notenda með raforku. Í báðum tilvikum er raforka, á viðunandi verði, forsenda orkuöflunar eða „framleiðslu“ á nothæfu hitaveituvatni á samkeppnisfæru verði.“

Ég hef ekki öðru við þetta að bæta en því að mér sýnist að hér sé hreyft mjög réttmætu máli og eðlilegu. Ég fellst ekki á þá skýringu fjmrn. sem fram kom í grg. Ég tel að taka eigi af tvímæli um þetta og til þess að gera nýtingu varmaorkunnar arðbæra sé nauðsynlegt að samþykkja þessa þáltill.

Ég geri till. um að umr. um till. verði frestað og henni vísað til athugunar í hv. allshn.