06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4532 í B-deild Alþingistíðinda. (3865)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. 12. þm. Reykv. óskaði eftir. Mér finnst vart við hæfi að mál af þessu tagi sé tekið til umr. á föstudegi, líklega hinum fyrsta sem þingfundir eru haldnir á a. m. k. um langan tíma, þegar fjöldi þm. er fjarverandi. Mér finnst að þessu máli, og ekki bara málinu sem slíku heldur sjómannastéttinni, sé sýnd óvirðing með því að haga sér með þessum hætti. Það virðist nægja að formaður eða frammámaður í Alþb. óski eftir að eitthvert tiltekið mál sé ekki tekið til umr., þá sé orðið við því, en ef það er stjórnarsinni, eins og hv. 12. þm. Reykv., þá sé ekki við því orðið. Þá nægir kannske að stjórnarandstæðingur eins og ég er taki undir ósk hv. 12. þm. Reykv. og óski eftir því að umr. um þetta mál verði ekki lokið nú. Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Ég geri ráð fyrir að ýmsir þm. vilji tjá sig um það, sem ekki hafa af margvíslegum ástæðum til þess aðstöðu í dag. Ég ítreka því þá ósk að umr. verði ekki lokið og vænti þess að hæstv. forseti geti orðið við því og ætla að sjá hver úrskurður hans verður áður en ég held máli mínu áfram.