06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4533 í B-deild Alþingistíðinda. (3869)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það hefur líklega ekki skilist enn hvað bjó að baki ósk minni um að umr. mundi ekki ljúka í dag. Ég bar fram aðvörunarorð vegna þess að ég veit að meðal íslenskra sjómanna er mikill hiti, ekki aðeins vegna þessa máls heldur og annarra. Þeir hafa orðið að taka á sig eins og aðrir byrðar, þeir hafa orðið að taka á sig byrðar fram yfir aðra, og það hefur verið höggvið í sama gamla knérunninn sem áður hefur verið höggvið í af stjórnvöldum hér á Íslandi. Því var ég að vara við og óska eftir því að frestur gæfist nú strax undir 1. umr. málsins í Nd. Málið er búið að vera hér á dagskrá í rúman klukkutíma. Það eru einu tafirnar sem hafa orðið á málinu í þessari deild þingsins. Og þó að það gæfist nú tími til að leita samkomulags og sátta á þeim grundvelli sem ég gat um. Ef hæstv. sjútvrh. telur það algerlega útilokað, sem mér virðist hann gera strax með ósk sinni um að keyra þetta mál áfram, þá er hans valdið og hæstv. ríkisstj. En það var ekki af neinum illvilja eða til þess að tefja málið að ég var að bera fram þessa ósk, fjarri því.