02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við erum lent í almennum stjórnmálaumr., þar sem margt ber á góma, og ber ekki að harma það, ef menn vilja hafa það svo. En ég verð að segja eins og er, að málflutningur af því tagi sem kom fram hjá hv. seinasta ræðumanni, Eiði Guðnasyni, er harla ódýr. (Gripið fram í: Það passar fyrir Alþfl.)

Við getum haldið lengi áfram að þrasa um málin og það með harla litlum árangri ef menn eyða miklum tíma í málflutning af því tagi að nefna að við Alþb.-menn viljum gera breytingar á rekstri olíufélaga, en svo höfum við setið í ríkisstjórn svo og svo lengi og ekkert gerst. Auðvitað veit hver einasti maður hér inni nákvæmlega hvernig á því stendur og í hverju það liggur og þarf ekkert að eyða frekari orðum að því. En ef umr. snýst lengi um hluti af þessu tagi er hætt við að menn eyði tíma sínum til lítils.

Eins fannst mér satt best að segja harla ódýrt að slá fram slettu eins og þeirri, að fyrrv. ríkisstj. hafi tekið hvert eyðslutánið af öðru o.s.frv. Þetta er eitt af því sem gerir stjórnmálaumræður á Íslandi svo afskaplega erfiðar, að menn eru að sletta svona löguðu fram án þess að skilgreina á nokkurn hátt hvað þeir eiga við og án þess að færa nokkur frekari rök máli sínu til stuðnings. Auðvitað er staðreyndin sú, ef menn athuga lántökur á undanförnum þremur árum, hvort heldur er um að ræða lántökur í þágu opinberra aðila eða einkaaðila, að yfirgnæfandi er um að ræða lántökur til fjárfestingar. Ég hygg að ef öll lánin væru talin saman og athugað hvernig þau skiptast, að hve miklu leyti þau voru til fjárfestingar og að hve miklu leyti vegna rekstrarerfiðleika eða rekstrarvanda, hafi lán til fjárfestingar vafalaust verið eitthvað milli 90 og 100% og lán vegna rekstrar verið örlítið brot af heildarlántökum. Lántökur vegna rekstrar eru sennilega aðallega vegna járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, en það er einmitt fyrirtæki sem hv. þm. Eiður Guðnason og hans flokkur og svo sjálfstæðismenn bera meiri ábyrgð á en kannske aðrir — ja, líklega að viðbættum framsóknarmönnunum, sem dröttuðust nú með á sínum tíma til stuðnings því fyrirtæki. (Gripið fram í: Sá veldur miklu sem upphafinu veldur.) Já, við getum orðað það svo, en það er hins vegar ekki rétt að Alþb. hafi stutt þetta mál. Við töldum þegar betur var að gáð að þetta væri fyrirtæki sem ekki væri á treystandi og snerumst því á móti málinu eftir að hafa kannað það.

En kjarni málsins er að það hefur ekki verið tekið hvert eyðslulánið af öðru á undanförnum árum. það er að vísu hægt að nefna nokkur slík dæmi, eins og t.d. dæmið um Járnblendifélagið ellegar dæmi um lántökur vegna útgerðar á s.l. vetri ellegar dæmi vegna loðnuverksmiðja á árinu þar á undan, það eru til nokkur svona dæmi, en í heildina tekið er þarna um að ræða lántöku sem er aðeins örlítið brot af heildarlántökunni.

Hv. þm. Lárus Jónsson var með þá kenningu áðan að viðskiptahallinn undanfarin ár hefði numið 12 milljörðum kr. og erlend lántaka um 16 milljörðum kr., minnir mig að hann segði, og þetta sýndi að erlendu lánin hefðu einfaldlega verið tekin í eyðslu — þau eru bara til að dekka viðskiptahallann, eins og hann orðaði það. Ég skil satt að segja ekki svona röksemdafærslu. Þetta eru auðvitað ekkert annað en innantóm slagorð. Auðvitað segir það sig sjálft að þegar tekin eru mikil fjárfestingarlán, m.a. til að byggja dýrar virkjanir ellegar til að byggja hitaveitur víðs vegar um land, þá veldur það hvoru tveggja í senn að það verður að taka erlend lán og viðskiptahallinn verður meiri en ella væri. Ef enginn viðskiptahalli væri á því ári þegar við erum kannske að leggja gífurlega fjármuni í Hrauneyjafossvirkjun eða hitaveituframkvæmdir víðs vegar um land, þá jafngildir það því að þjóðin ætlaði sér að borga þessa fjárfestingu á því ári sem hún verður til, við ætluðum okkur að borga af eigin aflafé alla virkjunarframkvæmdina við Hrauneyjafoss, sem stundum hefur verið mjög fjárfrek, ellegar við ætluðum okkur á þessu sama ári að borga upp gífurlegar hitaveituframkvæmdir á Akranesi, á Akureyri, í Borgarnesi og á 10–20 öðrum stöðum á landinu. Haldið þið, ágætu alþm., að það sé raunhæft markmið, ef þjóðin stendur í stórfelldum fjárfestingum, eins og hún hefur einmitt gert á árunum 1980 til 1982 sérstaklega og reyndar á árinu 1983 líka að nokkru? (LJ: Ég benti á að heildarfjárfesting hefði ekki aukist.) Jú, heildarfjárfesting er auðvitað mjög veruleg á þessum árum og sérstaklega er hún stórfelld á orkusviðinu. Við erum að byggja á þessum árum Búrfellsvirkjun og við erum að byggja hitaveitur víðs vegar um land. Það er gersamlega óraunhæft að við gætum á sama tíma staðið á sléttu með viðskipti okkar við útlönd, því það hefði þá þýtt að við værum að snara út öllu því fé sem til þarf til þessara miklu mannvirkja á sama ári og þau verða til. Það er gersamlega óraunhæf krafa og út í bláinn og því hefur auðvitað verið einhver viðskiptahalli, eins og raunar mjög oft þegar Íslendingar standa í miklum fjárfestingum. Þá er ekkert nýtt að viðskiptahalli verði til hér á landi. Það er fullkomlega raunsætt að gera ráð fyrir einhverjum viðskiptahalla þegar fjárfesting er mjög veruleg. Það er ekkert annað en það sem við verðum að reikna með. Allt tal í aðra átt og önnur röksemdafærsla er bara til að blekkja fólk og villa um fyrir fólki, því við vitum að þá eru menn að sletta einhverju fram sem er gersamlega óraunhæft.

Það er hins vegar alveg rétt, að stundum harðnar svo í ári, að viðskiptahallinn stefnir í ískyggilegar tölur, og það gerði hann á seinasta ári ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Þá brást, eins og menn þekkja, loðnuveiði, þorskafli dróst saman og skreið seldist ekki úr landi og fleira í þeim dúr, þannig að það stefndi í mjög verulegan viðskiptahalla. Sú ríkisstj. gerði einmitt með brbl. fyrir einu ári ráðstafanir til að draga neyslu þjóðarinnar saman til að spara í fjárfestingu hins opinbera, spara hjá ríkinu. Allt var þetta gert, bæði með brbl. á s.l. hausti og með fjárl. og lánsfjáráætlun á s.l. vetri, enda þarf ég ekki annað en biðja hv. alþm. að fletta upp í lánsfjáráætlun og sjá hvaða breytingar hafa orðið á t.d. fjármunamyndun og fleiri stærðum til þess að sjá að það verður auðvitað í kjölfar brbl. fyrrv. ríkisstj. mjög veruleg breyting í neyslu þjóðarinnar og fjárfestingu vegna þess áfalls sem við urðum fyrir. Og ég hygg að sú breyting, sem fyrrv. ríkisstj. stóð fyrir í sambandi við að draga úr viðskiptahallanum, sé ekki minni en sú breyting sem núv. ríkisstj. stendur fyrir, en hún er bara gerð með öðrum hætti. Sá samdráttur í viðskiptahalla sem nú er stefnt að verður fyrst og fremst vegna minnkandi kaupmáttar. Ég held sem sagt að það sé hárrétt sem hv. þm. Helgi Seljan sagði áðan. Auðvitað er kjarni málsins sá, að það sem nú er að gerast er að það er verið að skerða kjörin miklu meira en nemur skerðingu þjóðartekna. Fyrri ríkisstj. hafði skert kjörin í hlutfalli við skerðingu þjóðartekna. En nú er hins vegar verið að bæta við kaupmáttarskerðingu sem gengur langtum lengra en hægt er að rökstyðja með samdrætti þjóðartekna.

Hitt er allt annað mál, að það er lítið frv. sem við erum hér að ræða og kannske varla að það veki tilefni til þessara almennu umr. um efnahagsmál. Það á að vera samstaða um eins mikla innienda lánsfjármögnun og hugsast getur og þess vegna hlýtur að vera samstaða um að reyna þær leiðir sem gætu skilað einhverjum árangri í þeim efnum. En hitt er áreiðanlega rétt, sem margir hafa hér sagt, að það er ekkert sérstaklega líklegt að þessi bréf verði keypt, vegna þess hvernig búið er að ganga að kaupmættinum hjá fólki, og því miður er ekkert sérstaklega líklegt að vandi húsbyggjenda verði leystur með þessu, því að það er ekkert líklegt að þetta fé fáist.