06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4533 í B-deild Alþingistíðinda. (3871)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það verður ekki hjá því komist að vekja athygli á þeim vinnubrögðum sem hér eru höfð í frammi. Við þm. erum kallaðir hingað til að þinga á föstudegi, eftir að við höfum sennilega flest okkar verið á löngum fundum í morgun til að flýta fyrir nefndarstörfum. Þetta gerum við góðfúslega til að koma málum áfram hér í þinginu, ef því á yfir höfuð einhvern tíma að ljúka. Hvað gerist svo? Stjórnarliðið mætir ekki. Ef formaður þingflokks Sjálfstfl. og formaður þingflokks Framsfl. geta ekki haldið saman liði sínu frábið ég mér að vera að eyða eina reglulega vinnudeginum sem við þm. höfum til að undirbúa mál næstu viku, þ. e. föstudögunum, í skrípaleik sem þennan. Hér er ekki hægt að koma fram nokkru máli eins og sannaðist áðan. Ég bar þá fram fsp. um hvort væri verið að vísa máli í rétta nefnd. Þá kemur í ljós að ekki er hægt að greiða um það atkv. hvor nefndin eigi að taka við málinu vegna þess að stjórnarliðið er ekki nógu margt. Við hörmum að formaður Alþb. skuli vera að sinna störfum sínum annars staðar og getur ekki verið hér til að hleypa málum ríkisstj. í gegn ásamt einhverjum öðrum þm. okkar. Það hlýtur að vera fyrsta skylda stjórnarflokkanna að sjá um að þm. þeirra séu hér viðstaddir svo að ekki sé verið að kalla okkur hingað til einskis.

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið, að hérna er um stórmál fyrir sjómannastéttina að ræða. En yfir hverjum eru menn að tala hér, eins og hv. þm. Karvel Pálmason og hv. þm. Pétur Sigurðsson? Því ekki að reyna að sannfæra hæstv. sjútvrh.? Það kynni að vera, ef þeir ætta að hafa einhver áhrif með þessum málflutningi sínum, að það væru aðrir þm. stjórnarliðsins sem ætti að sannfæra. Þeir eru ekki hér og þess vegna er þýðingarlaust að halda þessari umr. áfram.