06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4534 í B-deild Alþingistíðinda. (3872)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Forseti. Það er ekki að ástæðulausu að ég fer þess á leit að máli þessu verði flýtt eins og kostur er í þinginu. Ég er vanur að sætta mig við venjuleg vinnubrögð hér í þinginu. En ég tel mig vera hingað kominn til að sinna mínum skyldum og ég býst við því að svo sé um aðra þm. Þeir sem ekki telja sér fært að sinna skyldum sínum í þinginu geta ekki reiknað með því að þeir sem geta ekki sinnt skyldum sínum hér stjórni þingstörfum. Mér heyrist á málflutningi manna hér að þeir eigi að stjórna þingstörfum.

Ég ítreka að það er mjög bagalegt að þetta mál hefur ekki verið afgreitt og stendur fast. Það hefur orðið til þess að þær greiðslur sem eiga að fara fram hafa ekki getað farið fram. Það er ekki að ástæðulausu að ég fer þess vinsamlega á leit að reynt sé að flýta málinu eins og nokkur kostur er eftir venjulegum þingsköpum, en þau tel ég mig hafa algerlega sætt mig við þann tíma sem ég hef verið hér í þinginu.