09.04.1984
Efri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4539 í B-deild Alþingistíðinda. (3898)

273. mál, ónæmisaðgerðir

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur færst mjög í vöxt notkun svokallaðra lifandi ónæmisefna, ekki síst í vissum greinum búfjárræktar. Töluverð hætta getur verið samfara notkun flestra ónæmisefna og því nauðsynlegt að vanda til vals þeirra og notkunar. Er því þörf á traustu eftirliti. Svo furðulegt sem það kann að virðast er engin lagaákvæði að finna um innflutning sem þennan þótt um hann hafi gilt strangar reglur í nágrannalöndunum. Á þessu eru skýringar sem raktar eru í aths. með frv.

Það hefur orðið að samkomulagi á milli mín og hæstv. landbrh. að rétt sé að setja í lög ákvæði um þessi mál, þar sem gerðar yrðu strangar kröfur til innflutnings og notkunar. Sé ég ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta hér, enda liggur málið ljóst fyrir og um nauðsyn aðhalds efast enginn. Ég vísa til þess sem fram kemur í frv. og aths. við það.

Innflutningur og notkun þessara efna er í sjálfu sér ekki minna mál fyrir landbúnaðaryfirvöld en heilbrigðisyfirvöld. Ástæðan fyrir því að ég flyt frv. er hins vegar sú, að ekki var talin ástæða til að leggja fram frv. til sérstakra laga, heldur að nægjanlegt væri að kveða á um þetta í ónæmislögum, sem eru frá 1978, í sérstakri grein, enda er hér um náskyldan málaflokk að ræða eins og fram kemur í aths. við þetta frv.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn.