13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég skal ekki gerast langorður. Þessi umræða hefur óneitanlega beinst inn á nokkuð aðrar brautir en hún var á hér í upphafi og er sjálfsagt ekkert við því að segja.

Það mætti margt segja um þá dæmalausu ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti hér áðan. Ég ætla að geyma mér það, það getur ákaflega vel beðið betri tíma. Þar var margt sem er við að athuga, að ekki sé meira sagt. En einni spurningu vildi ég þó beina til hæstv. fjmrh., sem ég sé að hefur nú að vísu yfirgefið þennan virðulega sal, væntanlega haft öðrum hnöppum að hneppa einhvers staðar annars staðar. Einni spurningu vildi ég beina til hans og mætti ég mælast til þess við forseta að hann kveddi hæstv. fjmrh. í salinn. (Forseti: Hæstv. fjmrh. tjáði mér að hann væri í brýnum erindum og þyrfti þess vegna að yfirgefa Alþingishúsið. Hann hefur gert það þegar.) Hann er kannske að lesa prófarkir að pésa einhvers staðar. (Forseti: Það var ekki tekið fram).

Sú spurning sem ég vildi til hans beina og fæst kannske svar við á síðara stigi þessarar umræðu, sem mér segir svo hugur um að ljúki ekki alveg strax, tengist því að hann hafði mörg orð um frammistöðu og hlutverk Alþb. í síðustu ríkisstj., mörg orð og býsna hörð. En hvaða maður bar ábyrgð á því umfram alla aðra menn að Alþb. átti sæti í síðustu ríkisstj.? Ég veit ekki betur en það hafi verið hæstv. fjmrh. núv. ríkisstj. sem var í rauninni guðfaðir fyrri ríkisstj. Hann getur trútt um talað nú. En rismikill er þessi málflutningur ekki.

Ég vildi aðeins víkja örfáum orðum að því sem hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfur Konráð Jónsson, sagði áðan og vitnaði til ágætrar ræðu eftir Bjarna Benediktsson forsrh., sem hann flutti hér. Ég vil segja það strax að ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum sem þar komu fram, en þau er auðvitað hægt að styðja rökum. Mér þykir miður að þessi hv. þm., Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur líka vikið út úr salnum núna. Það verður ekki við öllu gert. En ég spyr: Eiga það að vera einhvers konar forréttindi þeirra sem stunda atvinnurekstur eða aðra slíka starfsemi að taka sæti á Alþingi? Ég held ekki. Um þetta sérstaka atriði segir í þeirri ræðu sem ég vitnaði áðan til, ræðu Eysteins Jónssonar, orðrétt með leyfi forseta:

„Sumir eru að reyna að hafa atvinnurekstur með höndum og má nærri geta hvernig þau vinnubrögð verða miðað við það sem þeir þurfa að sinna af öðrum störfum. Aðrir eru að reyna að sinna föstum störfum, þó einkum á vegum ríkisins, því að það mun vera leitun á einkaatvinnurekanda, sem telur sér fært að hafa alþm. í sinni þjónustu, eins og nærri má geta þegar miðað er við það sem þeir þurfa að standa í.“

Ég held að hér sé um býsna mikið grundvallaratriði að ræða. Eiga það að vera forréttindi manna, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, að sitja hér á Alþingi? Alls ekki. Ég held, og það hefur raunar verið gert, að það eigi að búa þannig að þeim sem sitja hér á þingi að þeir geti sinnt þessum störfum. Það er ekki skemmtilegt fyrir þm. að lesa það í blöðum, haft eftir einum af hv. þm. Sjálfstfl., að hann geti ekki sinnt nefndarstörfum á Alþingi vegna anna utan þings. Til hvers eru menn að gefa kost á sér til starfa á Alþingi ef þeir mega ekkert vera að því?

Þetta var nú kannske örlítill útúrdúr, en engu að síður mál sem líka þarf að ræða.

Að lokum vil ég þakka hæstv. forsrh. svör hans, sem ég get því miður ekki sagt að hafi verið mjög greinargóð. Mér er satt að segja ekki alveg ljóst hver skoðun hans er á því sem ég spurði um, hvort við ættum ekki að sameinast um að breyta því sem ég lagði áherslu á að breyta þyrfti. Hann vísaði til stjórnarskrárnefndar. Hann las okkur sögulegt yfirlit um útgáfu brbl. Það kemur þessu máli bara ekkert við. Það var — en við eigum að hugsa um það sem er — og þó fyrst og fremst það sem verður. Mér finnst ég fá harla lítil svör um það. Og ég er satt best að segja hálfuggandi um að hæstv. forsrh. hafi hreint ekki skilið hvað ég var að fara. Ég var að tala um að það færi ekki vel á því að menn sem hafa misst umboð kjósenda héldu áfram að gegna störfum. Það er nauðsynlegt að skoða þetta, sagði hæstv. forsrh. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera miklu meira. Ég held það sé nauðsynlegt að breyta þessu. Og ég held að við séum komin hér á hættulegt stig. Ég geri ráð fyrir að við höfum allmörg horft á viðræðuþátt, alveg dæmalausan viðræðuþátt í sjónvarpi hér um daginn, þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar svöruðu spurningum. Það er kannske ekki alveg rétt að segja: svöruðu spurningum, því það voru ekki svo margar spurningar sem fram komu í þessum þætti, það voru miklu frekar skot og skætingur, ef ég má nota slíkt orð, frá þeim sem þar áttu að vera spyrlar.

Er það ekki íhugunarefni þegar blaðamaður við stærsta blað þjóðarinnar segir við fulltrúa stjórnarandstöðunnar: Þarf þing svo að heyrist í ykkur? Hvert erum við þá að fara ef svona hugsunarháttur fyrirfinnst hjá þeim sem hafa það hlutverk að greina þjóðinni frá því sem gerist hér á Alþingi? Þetta finnst mér alvarlegt íhugunarefni. Ég held satt að segja, og endurtek það, að í þessu efni eigum við ekki neinna kosta völ annarra en að breyta. Og ég vonast til að heyra frá hæstv. forsrh. skýrari svör um skoðanir hans á þessum grundvallaratriðum þess þjóðskipulags sem við búum við.