09.04.1984
Efri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4543 í B-deild Alþingistíðinda. (3904)

261. mál, lyfjalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Það er fyrst út af lyfjanefndinni. Það sem vakir fyrir mönnum með þeirri breytingu er að gera lyfjanefndina eins starfhæfa og hægt er þannig að hún hraði störfum. Hér á landi starfar mjög fátt fólk við þessi mál miðað við nágrannalöndin en við þurfum í raun og veru að fjalla um næstum því eins mörg mál. Það hefur á liðnum árum oft verið þannig að menn sem eru störfum hlaðnir hafa setið í þessari nefnd og ekki getað sinnt störfum nóg vegna anna. Aðalatriðið er að fá formann sem getur gegnt formennskunni þannig að við getum afgreitt með eðlilegum hætti mál og haldið uppi skráningu lyfja.

Þó að sagt sé að ráðh. skipi í nefndina held ég að mér sé óhætt að fullyrða að enginn ráðh. fari að skipa í þessa nefnd nema að tillögu formanns nefndarinnar og að því tilskildu að þeir menn sem til þessara starfa eru fengnir vilji sinna þeim og hafi nokkurn tíma til þess. En þarna hefur oft orðið mjög langur dráttur vegna þess að um hefur verið að ræða önnum kafna menn. Það er tiltölulega fámennur hópur sem hægt er að leita til í þessu efni. Við verðum líka að taka tillit til þeirra sem standa straum af starfsemi lyfjanefndarinnar, þeirra sem flytja inn, þeirra sem greiða skráningarlyfin. Þeir segjast ekkert setja sig upp á móti því að gjöld á þá séu hækkuð en þeir fari hins vegar fram á það að fá góða þjónustu með líkum hætti og gerist í okkar nágrannalöndum.

Varðandi 2. gr. þá verða alltaf deilur uppi í sambandi við vítamín og/eða steinefni. Mín persónulega skoðun er sú að við eigum að fara með sem minnst af þessum efnum inn í lyfjabúðirnar og að sala þeirra eigi að vera sem frjálsust. Hins vegar er hér lagt svo fyrir að við ákvörðun marka skuli taka mið af ráðleggingum manneldisráðs um það hver sé dagskammtur vítamína og/eða steinefna við íslenskar aðstæður. Í því felst töluverð leiðbeining og það getur mjög komið til greina að fengnum tillögum t. d. manneldisráðs að skylda þá sem selja vítamín til að setja á einhverja ákveðna skammta. Um þetta geta verið skiptar skoðanir og það verður að athugast við setningu reglugerðar en ekki í lögunum.

Hins vegar fannst mér fráleitt — þó að þessi mistök hafi átt sér stað, síðasta málsgrein 2. gr. — að heimilt skyldi einnig að kveða svo á um í reglugerð að sala ákveðinna vítamína og/eða steinefna eða ákveðnar samsetningar þessara efna takmarkist við lyfjabúðir. Ég tel að engin ástæða sé til þess að hafa svo víðtæka heimild fyrir lyfjabúðir. Það mætti gjarnan koma fram í nál. ef það er skoðun nefndarmanna. Eins og ég var að lýsa áðan þori ég að ábyrgjast að eftir því verður farið þegar leitað verður tillagna í sambandi við útgáfu reglugerðar.